Reykjanesbæjar óreiðumenn, -hver á að greiða skuldir þeirra?

Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar, sem slík, var ekki kosningamál í vor í þeim mæli sem hún hefði átt að vera í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er núna. Enda endurnýjuðu kjósendur í sveitarfélaginu, með bros á vör,  umboð Sjálfstæðisflokksins til að stjórna bænum áfram með óbreyttum formerkjum.

Því er ábyrgð kjósenda mikil og það verður þeirra hlutverk að axla hana á einn eða annan hátt, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Íhaldið er strax byrjað að kenna öðrum um stöðu mála í Reykjanesbæ og þar er efst á blaði núverandi ríkisstjórn, þó allar skuldir bæjarfélagsins hafi orðið til fyrir hennar tíð og án hennar tilverknaðar. Núverandi ríkisstjórn var, af Íhaldinu Reykjanesbæ, ætlað að skera þá  niður úr snörunni svo þeir gætu enn og aftur hrósað sér fyrir stjórnunar- og fjármála snilld sína.

Íhaldið hefur farið mikinn í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina fyrir nánast alla hluti og ekkert talið henni til tekna og krafist þess að hún færi frá og ekki síðar en strax. Það verður gaman að sjá hvaða kröfur þeir sömu, hinir vammlausu, gera á stjórnendur Reykjanesbæjar, sem eru með skítinn upp á, og fram yfir axlir fyrir eigin tilverknað og engra annarra.

Heyrst hefur að leitað verði til Seðlabankans um bjargræði og kúnstugt að þangað ætli að leita mennirnir sem hrópuðu með foringja sínum;  „Við greiðum ekki skuldir óreiðumanna“!


mbl.is Seðlabanki lánar ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það sem er kjarni málsins, og kemur ekki nógu skýrt fram í fréttinni, eru þau forréttindi sem fjármálafyrirtæki njóta, að hafa einkarétt á lánsfé beint frá seðlabankanum á bestu fáanlegu lánskjörum (stýrivöxtum).

Í stað þess að njóta sömu kjara og bankarnir verða opinberir aðilar eins og sveitarfélög eða þau orkufyrirtæki sem enn eru í opinberri eigu, að taka lán frá bönkum sem bjóða þeim hærri vexti og hirða svo mismuninn. Bankar hér á landi hafa undanfarin ár allir verið í einkaeigu, þó nú sé reyndar einn þeirra kominn að meirihluta í opinbera eigu.

Spurningin sem liggur í loftinu er eftirfarandi: Hvers vegna eiga einkarekin fyrirtæki að fá sitja ein að lánsfé seðlabankans (sem er í eigu þjóðarinnar) á betri kjörum en aðrir ? Að einkaaðilar skuli fá að hagnast á slíku forskoti umfram það sem almenningi býðst hlýtur að vekja furðu !

Guðmundur Ásgeirsson, 30.8.2010 kl. 16:52

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Takk fyrir þetta Guðmundur. Geyma ekki viðskiptabankarnir sitt fé í Seðlabankanum núna á bestu kjörum í stað þess að lána þá út í atvinnulífið?

En vandamál Reykjanesbæjar liggur ekki beinlínis í skorti á lánsfé, nýtt lán t.d. frá Seðlabanka eða öðrum myndi ekki gera annað en viðkomandi skuld skipti um nafn á kröfulistanum.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 30.8.2010 kl. 17:15

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það sem ég er að benda á er að Reykjanesbær gæti endurfjármagnað þetta gjaldfallna lán með því að taka annað lán í staðinn innanlands (hugsanlega, ég veit ekki hvort það væri fýsilegt í þessu ákveðna tilviki). Til þess þyrftu peningarnir hinsvegar alltaf að fara gegnum fjármálastofnanir sem hirða sér hagnað í formi vaxtamunar, í stað þess að bærinn gæti fengið lánsféð beint frá uppsprettunni og almenningur í Reykjanesbæ þannig notið betri vaxtakjara á fjármögnun sveitarfélagsins.

Ef þú kannast við hugmyndina um Besta Bankann, þá snýst hún einmitt um að komast framhjá þessari hindrun, með því að borgin stofni sinn eigin banka, sem gæti t.d. endurfjármagnað óhagstæðari lán borgarinnar og fyrirtækja í eigu hennar (t.d. Okurveitunnar). Sparnaður borgarinnar myndi nema 3,6 milljörðum á ári fyrir hvert prósentustig lækkunar meðalvaxta af skuldum samstæðunnar, sem gæti til að mynda dregið úr þörf fyrir gjaldskrárhækkanir eins og þær sem nú eru í burðarliðnum.

P.S. Stafsetningarvillan í heiti Okurveitunnar er viljandi! ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 30.8.2010 kl. 17:42

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Væri þá ekki erlend afskriftaráhætta gerð að innlendri? Ég sé fátt eftirsóknarvert við það.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 30.8.2010 kl. 19:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband