Tek ofan fyrir Kára Stefánssyni

Ríkisstjórnarflokkarnir fá það óþvegið frá Kára Stefánssyni í grein í Fréttablaðinu í dag. Kári gerir að umtalsefni glæpsamlegt skeytingarleysi fjárveitingarvaldsins gagnvart heilbrigðiskerfinu, sem Kári segir svartan blett á íslenskri menningu. Ljóst megi vera að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mun ekki sitja lengur en sem nemur kjörtímabilinu.

„Í málflutningi sínum fyrir síðustu alþingiskosningar gagnrýndu núverandi stjórnarflokkar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hola að innan heilbrigðiskerfið og hétu því að styðja það betur ef þeir kæmust á valdastóla. Þetta gladdi þá okkar sem eru nægilega vitgrannir til þess að hlusta á það sem stjórnmálamenn segja fyrir kosningar. Nú æxluðust mál þannig að afturendar hinna loforðaglöðu hafa vermt valdastóla í tvö og hálft ár en heilbrigðiskerfið er í engu minna rusli en áður og það horfir ekki til bóta nema síður sé."

Kári nefnir dæmi um fáránleika fjársveltisins:

„Gáttaflökt er algengast þeirra hjartsláttaróreglna sem koma þolendum í hendur heilbrigðiskerfisins. Um það bil 25% Íslendinga fá kast af gáttaflökti einhvern tíma á ævinni og þar af fær stór hundraðshluti endurtekin köst eða óreglan verður viðvarandi.

Einn af fylgifiskum gáttaflökts er heilablóðfall og er gáttaflöktið ábyrgt fyrir í það minnsta 30% þeirra. Þess vegna eru þolendur settir á blóðþynningu til þess að fyrirbyggja heilablóðföll og þegar þeir fá kast eru þeir svæfðir og þeim veitt rafstuð til þess að reyna að koma þeim í réttan takt, sem er kallaður sínus og það veit sá einn sem í flökti hefur lent hvað sínusinn er mikil blessun.

Nýverið hafa læknar á Landspítalanum, undir forystu Sigfúsar Gissurarsonar sem er ungur snillingur, farið að gera flókna brennsluaðgerð til þess að fyrirbyggja köst hjá þeim sem hafa fengið þau. Hann segir mér að á landi hér sé þörf á um það bil 150 slíkum aðgerðum á ári, en hann fær ekki leyfi til þess að gera nema 60. Það er sem sagt biðlisti fyrir þessar brennsluaðgerðir sem lengist um eitthvað minna en 90 á ári vegna þess að einhverjir á listanum deyja af sjúkdómnum eða öðru.

Hver aðgerð kostar um 700.000 krónur þannig að hann fær 42 milljónir á ári en þyrfti 105 milljónir til þess að sinna þörfinni. Afleiðingin af þessum 63 milljóna króna sparnaði er kostnaður sem er vafalítið margföld sú upphæð í lyfjum þeirra sem ekki þyrftu þau eftir aðgerð og í kostnaði við rafvendingarnar, að maður tali nú ekki um ávinninginn af vellíðan og starfsgetu þeirra sem eru allt í einu komnir í viðvarandi sínus. Sú staðreynd að ákvörðunin um að það megi ekki gera nema 60 brennsluaðgerðir á ári var tekin af skriffinni einhvers staðar í stofnun sem heitir Sjúkratryggingar Íslands breytir ekki því að það er á ábyrgð kjörinna fulltrúa fólksins í landinu að framselja valdið til þess að taka svona ákvarðanir. Þetta er ákvörðun sem endanlega kostar þjóð stórfé og einstaklinga þjáningu og jafnvel varanlega fötlun eða lífið.

Það væri sjálfsögð betrumbót á heilbrigðiskerfinu að leyfa Sigfúsi að mæta þörfinni fyrir brennsluaðgerðir að fullu þótt henni fylgi skammtímakostnaður“.

(Tilvitnun lýkur)

Það er rúmlega tveggja ára biðlisti eftir þessari aðgerð, sá biðlisti er dæmdur til að lengjast við óbreytt ástand. Það er lesendum slíkra frétta afar fjarlægt og ópersónulegt þótt einhver tala sé nefnd um lengd biðlista í heilbrigðiskerfinu.

Tölur án andlits segja lítið. Ég skrifa þetta hér til að ljá einni tölu á listanum andlit með því að upplýsa að ég er einn þeirra sem bíða eftir því að komast undir hendurnar á Sigfúsi Gissurarsyni og hans teymi.

Vonandi lifi ég biðina af.

Það má geta þess, til gamans, að fyrir þær tæpu tuttugu milljónir af opinberu fé sem Siv Friðleifsdóttir fékk frá flokkssystkinum sínum fyrir gæsku sína og góð ráð hefði mátt gera 28 svona aðgerðir.

En þetta er auðvitað alltaf spurning um forgangsröðun.

 

 


mbl.is Fjársveltið þjóðinni til skammar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.