Icesave-landvættirnir, fyrir hvað standa þeir?

Að sjálfsögðu vill enginn greiða eitthvað sem honum ekki ber ekki að greiða og þá ekki hvað síst fyrir glamur og sukk annarra. En þegar mest á reynir getur verið ansi djúpt á hinu fullkomna réttlæti.  Meira að segja Biblían sjálf getur ekki boðið upp á slíkan lúxus nema fyrir örfáa útvalda.

Allt útlit er fyrir að Íslendingar verði dæmdir til að greiða þessa Icesave-skuld óreiðumanna Landsbankans við almenning í Bretlandi og Hollandi að fullu, verði Icesave-samningurinn ekki samþykktur og málið látið fara fyrir dóm.

Lárus Blöndal, sem var í samninganefndinni, sagði í Silfri Egils á sunnudaginn var, að þótt hann telji að okkur beri ekki að borga væri áhættan af málarekstri slík, að samþykkt samningsins væri besti kosturinn.

Þeir hafa talað digurbarkalega, sem hvað harðast hafa lagst hafa gegn samningum um málið, útlistað málið á tilfinninganótunum sem glæp gegn þjóðinni og sagt að þeir sem vilji borga ættu þá bara að gera það en sleppa þeim við greiðslur sem ekki vilja borga.

Gefum okkur að þeirra ráðum verði fylgt og samningurinn verði felldur í þjóðaratkvæðinu. Þá má fastlega gera ráð fyrir að þjóðin verði í framhaldinu dæmd til að greiða margfalda þá upphæð sem um hefur verið samið. Þá gengur væntanlega Þór Saari ásamt þeim Jóni Val, Lofti Altice og þeirra sporgöngumönnum fram fyrir skjöldu,  fara að eigin tilmælum, snara upp veskinu og punga sjálfir út þessu lítilræði og hlífa þeim við aukagreiðslunum sem vildu fara „mjúku“ leiðina. En ég efast um það,  satt best að segja!

Hefur ekki íslensku þjóðinni þegar verið gert að greiða, hægri vinstri, fyrir glæpi og sukk fjármálasóðanna  með endurreisn bankanna, sparisjóðanna, tryggingafélagana o.s.f.v.- o.s.f.v?

Hvar voru þessir Icesave-landvættir þegar krafsað var niður úr vösum skattgreiðenda í þeim „björgunaraðgerðum“? 

Þögðu þeir þá, meðan þeirra eigin tapi var forðað á kostnað skattgreiðenda? Nei það getur ekki verið ástæðan, eða hvað?


mbl.is Icesave þýðir hærri skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Axel.

Þú skrifar: 

"Allt útlit er fyrir að Íslendingar verði dæmdir til að greiða þessa Icesave-skuld óreiðumanna Landsbankans við almenning í Bretlandi og Hollandi að fullu, verði Icesave-samningurinn ekki samþykktur og málið látið fara fyrir dóm. "

Ég spyr:  Hverjir fara í mál, af hverju og fyrir hvaða dómstól, að þínu mati ?

Og hvað áttu við með orðalaginu "Allt útlit er fyrir...." o.sv.frv. ?

Kveðja,

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 23:45

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Sæll Kári.

Þessi pistill var skrifaður með nokkru óbragði í munni. Spurningin er hvort við getum mismunað viðskiptavinum bankanna eftir búsetu. Þegar ríkisstjórn Geirs og Sollu ákvað að tryggja bankainnistæður auðmanna á Íslandi upp í efsta masturstopp, tókum við þá ekki um leið á okkur þá samningsbundnu og siðferðislegu skyldu að gera það sama við viðskiptavini bankanna, erlendis? Enginn gerði athugasemd við það að erlendir aðilar, sem áttu fé í bönkum hér á landi, fengu allt sitt, með kveðju frá íslenskum skattgreiðendum!

Bretar og Hollendingar greiddu þarlendum Icesave innistæðurnar, fyrir okkar hönd samkvæmt samkomulagi, lánuðu okkur fyrir þeim með öðrum orðum og vilja sitt fé til baka. Undarlegur hugsunarháttur, ekki satt?

Þessi samningur, leysir okkur að miklu leyti undan þeirri endurgreiðslu. Það hvarflar ekki að mér eitt andartak, verði samningnum hafnað, muni Bretar og Hollendingar leggja árar í bát og gleyma málinu. Þeir munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sækja sitt fé og þá verður ekkert elsku mamma.

Myndum við ekki gera það sama í þeirra stöðu? Það er deginum ljósara að með stöðu sinni í ESB geta þeir haldið okkur í viðskipta- og efnahagslegri spennitreyju svo lengi sem þeir kjósa, hvort sem það er með réttu eða röngu. Reynsla okkar af þrákelkni Breta sannar að þeir þráast við í það óendanlega, gildir einu þó þeir hafi illan málstað að verja.

Spurningin er bara hvort við viljum taka þann slag við Breta og Hollendinga og hvort við teljum okkur hagnast á því. Þjóðin svarar því 9. apríl.

Að öðru leiti læt ég Lárus Blöndal um að svara þessum spurningum Kári, það gerði hann ágætlega í Silfrinu (tilvísun í pistlinum). Sjá líka hér.

Kveðja vestur.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 2.3.2011 kl. 12:38

3 identicon

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir það rangt að Alþingi hafi í tíð ríkisstjórnar Geirs H. Haarde skuldbundið íslensku þjóðina til að greiða Icesave skuldina.

Bretar og Hollendingar tóku það upp hjá sjálfum sér að "lána" Íslendingum fyrir Icesave innistæðunum þegar Landsbankinn hrundi.

Íslenzka ríkið bað þá ekki um neitt lán, enda skuldaði það þessum þjóðum ekki krónu vegna þessara innstæðna.

Um þetta eru flestir lögspekingar sammála í dag, þar með talinn Lárus Blöndal.

Málið snýst hinsvegar um að borga það sem við skuldum ekki til að losna við ýmis óþægindi sem fylgja svona kröfugerð.

Það er algerlega ljóst að ef eihver sér sér hag í að reyna að rukka þessa ýmynduðu skuld verður að reka málið fyrir íslenzkum dómstólum, væntanlega Héraðsdómi Reykjavíkur.

Slíkt ætti ekki að valda mönnum miklum áhyggjum, því eins og þú veizt Axel, þá dæma íslenzkir dómstólar eingöngu eftir lögum og engu öðru.

Það sannar nýlegur dómur Hæstaréttar vegna kosninga til stjórnlagaþings.

Þessi fáránlega löngun Jóhönnu og hennar fylgifiska til að greiða skuldir einkavæddra óreiðumanna í útlöndum, er til kominn vegna sjúklegrar löngunar þessa fólks, að leggja öll okkar ráð undir Brusselvaldið.

Allir sem eitthvað með þessum málum fylgjast, vita að umsóknarferlið vegna ingöngunnar í Evrópusambandið er í uppnámi,  ef við borgum ekki þessar fáránlegu kröfur, sem eiga sér enga lagastoð neins staðar.

Vandamálið sem við er að glíma er vesaldómur þessa fólks sem sér ekkert bjargræði nema að fleygja sér í fang óvinarins og biðjast vægðar.

Í stað þess að draga sverð úr slíðrum og  leggja til orrustu.

Mikla skömm og andstyggð hef ég á slíkum vesaldóm.

Ég segi nei og aftur nei við þessum fáránlegu kröfum.

Beztu kveðjur til þín,

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 15:50

4 identicon

Og hér er glænýtt innlegg í umræðuna

 Kveðja,

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband