Myrkur mánudagur

Mikið gjörninga veður hefur gengið yfir Ísland undanfarna daga og náði hámarki í gær á þessum myrka mánudegi. Endapunkturinn var snöfurmannleg  neyðarlagasetning á Alþingi seint í gærkveldi.

Þar hristi ríkisstjórnin af sér slyðruorðið og gekk loks ákveðin og fumlaust til verka.  Við verðum að trúa því að stjórninni takist að fylgja þessu eftir af krafti á viðeigandi hátt og til betri vegar.fellibylur

Segja má að við séum þessa stundina stödd í auga fellibylsins, dottið hefur á dúnalogn en það mun hvessa aftur næstu daga áður en fer að kyrrast aftur.

Fjármálaeftirlitinu hefur verið falið nánast alræðisvald yfir fjármálastofnunum. Fyrstu skrefin í endurreisninni voru stigin með morgninum þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn Landsbankans. Ég hef fulla trú á að staðið verði við yfirlýsingar um að hagsmunir viðskiptavina bankans verði tryggðir. Seðlabankinn hefur fryst gengi krónunnar og hækkað það verulega.

Landsbankinn er alfarið minn viðskiptabanki því er nokkur órói í mér, annað væri óeðlilegt.  En við verðum að trúa því að það besta verði gert úr hlutunum.

Ekki verður því á móti mælt að frjálshyggjan á Íslandi hefur sett verulega ofan svo ekki sé dýpra í árina tekið. Hannes Hólmsteinn holdgerfingur hennar reynir þó að berja í brestina í Moggaviðtali.  „Við þurfum að gera greinarmun á kapítalismanum og kapítalistunum sem eru auðvitað hannes hmistækir.“ Segir Hannes. 

 Athyglisverð setning, ég sé fyrir mér einhvern kommúnista mógúl nota sömu rök:  Við þurfum að gera greinarmun á  kommúnismanum og kommúnistum sem eru auðvitað mistækir.“  Ekki þarf að fara orðum um hvað  Hannes hefði um „slíka þvælu“ að segja.

Það þarf enginn að fara í grafgötur með það að  aðgerðir gærdagsins eru sársaukafullar fyrir Sjálfstæðismenn , þeir ganga gegn grundvallar hugmyndafræði sinni, nauðugir að vísu, en samt. Ég tek ofan fyrir þeim fyrir það.

Svo hefur salti verið stráð í opna und þeirra að þurfa að þiggja myndarlegt lán frá Rússum. Þar reynast þeir okkur betri en „vinir okkar“ í vestri sem vildu okkur ekki með í gjaldeyrisskiptasamningum við Norðurlöndin.

Sjálfstæðismenn geta  sjálfum sér um kennt hvernig komið er. Við einkavæðingu bankana á sínum tíma og stofnun hins nýja fjármálaumhverfis urðu þeim á grundvallarmistök. Þeir trúðu því betur en nýju neti að engin ástæða væri til að lög og  lagarammar á Íslandi um fjármálastofnanir væru jafn ítarleg og gengju jafn langt og sambærileg lög í nágrannalöndunum.  

Engin hætta var talin á að nýríkir Nonnar Íslands misstu fótanna á hálu svelli auðmagnsins. Ekkert mátti hindra eða tefja vöxt nýjasta  ávöxt  íslensks hugvits og áræðni. Í engu var sinnt viðvörunum og ábendingum þeirra sem vildu fara hægar og halda sig á jörðinni.

Nú súpum við seyðið af þessu. Lögin sem sett voru í gær ganga lengra en sambærileg ákvæði annarra landa en þau fylla í þá eyðu sem áður voru í lögunum. Ef þessi ákvæði hefðu verið sett í lögin strax er óvíst að krísa þessi, sem nú er uppi, hefði komið upp þrátt fyrir ástandið á heimsmarkaðnum.

Með þetta hangandi yfir sér frá upphafi hefði það án efa dregið úr offorsi nýfrjálsu bankana í fjárfestingum og nýríku Nonnarnir farið hægar í sakirnar og verið til muna jarðbundnari.

Nú er hluti bankana að komast aftur í eigu ríkisins, Glitnir um síðustu helgi og Landsbankinn er næstu daga að verða aftur „banki allra landsmanna“. Vonandi lærum við eitthvað af þessu. Þetta frjálshyggjunámskeið verður þjóðinni ansi dýrt.  Einkavaeding_Logo

Hvað ætli verði langt þar til að frjálshyggjuofsatrúar Hannesarnir  í Sjálfstæðisflokknum fari að tala um að allt það, sem ríkið hefur og mun leysa til sín næstu daga, verði aftur gefið í hendur einstaklinga, því þeim farnist svo miklu betur í svona rekstri en ríkið.

Það má alltaf reyna aftur, ekki fullreynt fyrr en í þriðja, ekki satt?


mbl.is Gengi krónu fest tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég skil ekki afhverju var ekki hægt að fara út í þessar aðgerðir strax með gengið á krónunni, afhverju var beðið með það þangað til að búið var að yfirtaka glitnir og þessum nýju lögum þvingað gegnum þingið. Þetta er líkt því að smíða hús og byrja á toppnum á húsinu og vinna sig niður.

Hallgrímur Þór Axelsson. (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 14:35

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hannes Hólmsteinn er fínn.

Annars þakka ég þér góðan pistil Axel.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.10.2008 kl. 16:51

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Hallgrímur, já má hugsa sér það.

Heimir, takk fyrir það.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 7.10.2008 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.