Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Ég var tekinn af lífi!

Fyrirsögnin er undarleg en er eigi að síður alveg dag sönn. Ég var tekinn af lífi í gær og hefur það verið gert oftar gegnum tíðina, en ég vill muna. Þetta þarfnast útskýringa. Þannig er að ég er með hjartsláttaróreglu. Hún stríðir mér eitthvað flest alla daga. Við þessu verð ég að taka lyf daglega, út ævina.

Fyrir kemur að ég fæ köst þar sem allt fer í kaos. Og það gerðist einmitt í gær og þá er ekkert annað að gera en leggjast inn á sjúkrahús. Fyrst eru reyndir stórir skammtar af  lyfjum en ef það virkar ekki þá þarf að gefa mér rafstuð. Það er gert þannig að ég er svæfður stutta stund. Síðan er ég tekin af lífi með rafstuði og endurræstur aftur á sama hátt. Þetta er endurtekið, ef þarf, uns hjartað slær í réttum takti. Svo fæ ég að fara heim eftir tvo til þrjá tíma ef allt er í lagi.

Ég er ekki að skrifa þetta til að lýsa heilsufari mínu heldur vegna þess að nú varð ég fyrir reynslu sem ég hafði ekki reynt áður. Ég hef oft verið spurður að því hvort ég hafi „séð yfir“ eða hitt einhvern dauðann? Ég hef ætíð orðið að svara því neitandi, sannleikanum samkvæmt, enda trúi ég ekki á slíkt.

Ég hef aldrei haft neina minningu úr „dauðanum“. En nú varð heldur betur breyting á. Ég sá sýn og hún fyllti mig skelfingu.

Mér fannst í þann mund sem ég var að fá meðvitund að ég væri á tali við Binga. Og skelfingin sem gagntók mig, var að mér fannst ég vera Framsóknarmaður. Og sem meðvitundin jókst sannfærðist ég um að raflostið hefði hrært það illa upp í höfðinu á mér, að þar stæði ekki steinn yfir steini og útkoman væri Framsóknarmaður!

Ég hefði betur fengið að fara, hugsaði ég.

En sem betur fer rofaði til og við aukna meðvitund skynjaði ég að allt var með feldu í höfðinu, allir hlutir á sínum stað. Þetta var bara martröð. Ég var heill og óskemmdur. Lífsviljinn náði tökum á mér á ný.

Er ekki lífið dásamlegt?


Dópdómar og fangagæsla

Nú hefur verið kveðin upp dómur í Fáskrúðsfjarðar-dópmálinu. Þeir eru þungir að mati sakborninga, m.a. mun meintur forsprakki hafa fellt tár, að sögn Vísis.is, við uppkvaðningu dómsins. En að mínum dómi og  annarra, sem liðið hafa vítishvalir vegna gjörða þessara manna og þeirra líkra, er þessi dómur síst of harður.

Krókódílatár sakborninga í dómssal segja lítið móti öllum þeim tárum sem gerðir þeirra hefðu framkallað, hefði smyglið heppnast.

Þessir menn og þeirra líkir hafa með gjörðum og glæpum sínum sundrað fjölskyldum, banað fólki í blóma lífsins og stór aukið tíðni annarra glæpa sem eru óhjákvæmilega fylgifiskur fíkniefnaneyslu.

Ekki hefur enn sá dómur verið kveðinn upp á Íslandi í þessum málum að mínu mati, sem er of harður.  Og svo er það sem salt í sárin að þessir „fínu herrar“ afplána rétt  helming dómsins með reynslulausn og allri þeirri vitleysu.

Það er margra álit að í flestum málum séu einungis peðin tekin, en kóngarnir, sem umræðan segir velmektarmenn, sleppa.

Það vantar  í dóma hér á landi, eins og víða er erlendis, hvort reynslulausn komi til greina eða að menn skuli sitja af sér allan dóminn.

Samkvæmt Fréttablaðinu í dag eru það allt að 25% fanga á reynslulausn sem rjúfa hana og fara strax í sama farið. Ætla mætti að við rof á reynslulausn fari menn strax inn aftur en svo er því miður ekki. Það þarf að kveða aftur upp dóm! Og að honum gengnum fara menn aftur inn. Skrítið.

Fylgifiskur alls þessa eru svo handrukkarar. Þeir rukka, eins og nafnið bendir til, með handafli, ofbeldi, líkamsmeiðingum, eignaskemmdum o.s.f.v. Þeir sækja á skuldara og ef það dugir ekki þá ættingja. Og láti menn undan þá lýkur þessu aldrei. Skuldin virðist aldrei uppgreidd. 

Gefum skít í þetta lið!

--------

Annþór Kristján Karlsson Íslandsmethafi í hrottaskap handrukkara strauk í nótt af lögreglustöðinni við Hverfisgötu með því að brjóta öryggisgler í glugga og stökkva niður af annarri hæð. Annþór átti að mæta fyrir dómara í dag, því gæsluvarðhald hans rann út í dag. Lögreglan lýsir eftir Annþóri, hann er talinn hættulegur!  Klefi hans var víst opinn í nótt!.... Halló!

Slefandi græðgi

Hannes Smárason fyrrverandi forstjóri FL „Grúpp“ fékk 50 milljónir í laun og 90 milljóna kr. starfslokasamning og árangurstengdar greiðslur!  Umræddar árangurstengdar greiðslur eru fyrir að tapa 67 milljörðum á einu ári! Mesta tap Íslensks fyrirtækis fyrr og síðar.  Ef þetta er greitt fyrir þennan árangur þá hefði nú, maður minn, eitthvað verið greitt fyrir hagnað, svo ekki sé nú talað um verulegan hagnað!

Vilhjálmur Bjarnason „aðjúnkt“ (held að ég hafi þetta rétt) stefnir að málsókn gegn Glitni vegna álíka ruglaðs starflokasamnings við Bjarna Ármannsson. Hann segir svona samninga ráðandi í dag. Þar sem samið er um fyrir himinháar greiðslur og bónusa fyrir ekki neitt. Sem sé brot á hlutafjárlögum.

Hér ræður græðgin ríkjum. Meira en nóg er hreint ekki nóg.


Hið fullkomna hálfkák og klúður.

 

Fréttamannafundur um málefni Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og þá krísu alla, sem var boðaður kl. 13.00 í dag,  hófst ekki fyrr en um 14. 30 og þá með því með því að blaðamönnum og ljósmyndurum var vísað út úr salnum. Og aftur inn eftir þóf og mótmæli. Fréttamenn segist aldrei hafa upplifað svona rugl og hringlandahátt. Fyrst var logið að fréttamönnum hvar fundurinn yrði haldinn. Svo þetta, eru menn orðnir alveg gaga í Sjálfstæðisflokknum.  

Allir sáttir um niðurstöðuna segir Vilhjálmur og ég held áfram sem borgarfulltrúi. Og ég nýt fyllsta trausts forystu Sjálfstæðisflokksins. Og ég mun fara yfir þessi mál!  Varðandi borgarstjórastólinn ætlar hann að fara yfir málið og meta sína stöðu.

Af hverju stendur  borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins ekki að baki Vilhjálms á fréttamannafundinum þegar sagður er fullur einhugur um þann stuðning?

Hvað segir það okkur? Þetta er stuðningur í orði en ekki verki. Ef borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins  eru einhuga og sátt við þessa niðurstöðu. Þá hefðu þau ekki laumast eins og þjófar á nóttu úr Valhöll fyrir blaðamannafundinn út um neyðarútganga og aðrar flóttaleiðir.  

Vilhjálmur segist hafa farið yfir þessi mál, er að fara yfir þessi mál og ætlar að fara yfir þessi mál.

„Ég hef axlað ábyrgð, ég missti meirihlutann og borgarstjórastólinn“. Segir Vilhjálmur. Ekki var það hans ákvörðun. Heldur Binga, sem þó hafði þann mandóm, sem hér vantar, að axla ábyrgð og segja hingað og ekki lengra. Það er nú öll ábyrgðin sem Villi axlaði.

„Ef ég finn að ég hef ekki það traust sem til þarf mun ég taka mark á því“. Segir Vilhjálmur. Hann ætlar þá að fara yfir það. Hvað skildi þurfa til að hann skynji hið algera stuðningsleysi sem svífur yfir vötnum þessa dagana. Hvenær gerir hann það ef ekki núna?  Kannski þegar hann hefur farið yfir þessi mál.

Þetta verður mikil yfirferð. Vilhjálmur verður sennilega lengi í þeirri ferð.

Eru menn búir að gleyma Guðmundi Árna Stefánssyni? Af hverju hefur enginn fréttamaður rifjað það upp? Einu afsögn ráðherra í sögu Íslenska lýðveldisins vegna mistaka. Mistaka sem voru nánast „logn í vatnsglasi“ miðað við þessi ósköp?


"Ég bar þetta undir borgarlögmann".

„Ég hef ekki orðið tvísaga í málinu. Ég bar þetta undir borgarlögmann en ekki einhvern lögmann út í bæ“. Segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Nú hefur komið í ljós að núverandi borgarlögmaður var ekki spurður. Þá segir Vilhjálmur „Ég átti við fyrrverandi borgarlögmann“. Án þess að segja hvaða fyrrverandi borgarlögmann hann átti við.

Áður en núverandi borgarlögmaður hóf störf hafði enginn gegnt stöðunni í tvö ár. Fyrrum borgarlögmenn eru því orðnir lögmenn út í bæ.

Þegar menn byrja að ljúga og leiðrétta sig með ósannindum þá enda menn alltaf í öngstræti.

„Einhver verður að axla ábyrgð“ segir núverandi borgarstjóri. Gaman verður að sjá hver þessi einhver verður , ef þá einhver?


Öryggismyndavélar - allra gagn?

Öryggismyndavélum fjölgar ört. Sagt er, að slíkur sé fjöldi þeirra í London að þar fari menn aldrei úr mynd. Skiptar skoðanir eru um ágæti vélana. Sumir segja þetta persónunjósnir. Flestir eru samt þeirrar skoðunar, þ.á.m. ég, að þær séu, ef rétt er á haldið, til bóta í baráttunni gegn glæpum. En það er og á að vera eini tilgangur þeirra.

Ég hélt að það sem bæri fyrir linsu vélana væri trúnaðarmál og kæmi ekki fyrir annarra augu en lögreglu og yfirmanna þeirra fyrirtækja sem hafa svona vélar. En því miður virðist hér misbrestur á. Settar hafa verið upptökur úr öryggismyndavélum á netið að undanförnu, nú síðast af ákeyrslu á hús M. Sigmundssonar hf.

Vélarnar missa tilgang sinn og stuðning fyrir tilvist þeirra ef þær eru misnotaðar. Getur maður sem lendir í mynd einhverrar vélarinnar og boraði í nefið eða í görnina á sér átt von á því að geta skoðað sjálfan sig, sem skemmtiefni á netinu að kveldi dags, af því að einhverjum misvitrum starfsmanni fannst það fyndið?

Verði það þróunin eru þeir sem telja þetta vera njósnir, farnir að hafa nokkuð til síns máls. Ég held að löggjafinn hafi ekki hugsað málið þannig. Það á og verður að vera refsivert að misnota svona efni og því verður að fylgja eftir.


Super bowl og ofurpiss

Super bowl er eitthvert vinsælasta sjónvarpsefnið í USA.  Ekki ætla ég að ræða um íþróttina hér enda tel ég íþróttir yfir höfuð  lélegt sjóvarpsefni. Auglýsingar spila stórt hlutverk í Super bowl eins og víðar. Hlé, hálfleikur, kvartleikur  eða hvað þetta nú heitir, eru gernýtt fyrir auglýsingar út í gegn. Ég heyrði að 30 sek. kostuðu 300 milljónir eða 10 millj. hver sek.

Kanarnir eru klikk og kannski einmitt þess vegna eru þeir með ýmsa fáránlega tölfræði á hreinu. Þeir hafa fundið það út að frárennsliskerfið (klóakið) víða sé á þolmörkum í hléum í Super bowl. Á engum tímum öðrum sé meira um „niðursturt“, eins og það var orðað í RUV í morgun. Þannig að það eru auglýsendur sem borga fyrir pissið.

En til allrar hamingju eru margir Kanar með sjónvarp á salerninu þannig að ekki er víst að þeir missi alveg af boðskap auglýsinganna. Á það hljóta auglýsendur að treysta enda til hvers væri  peningunum annars varið?


Ég er snillingur....

Ég brá mér á Skagaströnd til að fara á þorrablót. Það var haldið í gærkveldi 2. febrúar af metnaði og myndarbrag. Maturinn var góður og skemmtiatriðin voru frábær, venju samkvæmt. Við hjúin ákváðum að sleppa ballinu og fórum því heim að borðhaldi loknu. Við fórum rúnt um bæinn áður en við snérum heim. Nokkur skafhríð var fyrir Víkina og í útbænum.

Ég hætti við að stoppa á Mánabrautinni og ákvað  að enda rúntinn í Bankastrætinu. Beygði inn á Vetrarbrautina á milli Mánabrautar og Skagavegar. Þá kom snörp vindkviða, við það jókst kófið þannig að ég sá illa á veginn framundan. Allt í einu sat bíllinn fastur.

Þegar rofaði til sást að „skaflinn“ stóð vart undir nafni og engum manni sæmandi að festa sig í honum. En flughálka var undir snjónum og  Cherokeenum varð ekki haggað. Ekki var um annað að ræða en að ná í skóflu, þannig að við röltum þessa fáu metra heim. Ég ákvað að láta bílinn ganga á meðan.

Ég snaraði mér til baka með skófluna og byrjaði moksturinn. Þegar mokað hafði verið um hríð hringdi síminn. Ég ætlaði að snara mér inn í bílinn til að svara en.......... HALLÓ.... bíllinn var LÆSTUR!  Mér hafði einhvernvegin tekist að læsa bílnum þegar ég fór út úr honum..takk fyrir!

Svona gera bara snillingar. Fyrir utan lykilinn í svissinum  var næsti lykill suður í Grindavík.

Ég gerði strax ráðstafanir að fá hann norður með rútunni. Þar til hann kemur síðar í dag mun bíllinn mala í skaflinum. Það ætti að vera heitt og notalegt að setjast upp í hann. Þetta er bara gaman.


Myndir þú þora .............?

Mikið hefur verið ritað um mál Ólafs F. Magnússonar og veikindi hans frá því hann myndaði meirihlutann með Sjálfstæðismönnum. Mest hafa þó lætin orðið á blogg síðum þar sem menn hneykslast ógurlega á umfjöllun Spaugstofunnar á málinu. Spaugstofan fjallaði aðeins um fréttir liðinnar viku þar sem meint veikindi Ólafs spiluðu ekki svo lítið hlutverk.  Nefnt hefur verið að ekki hafi verið gantast með veikindi Davíðs og Halldórs á sínum tíma í Spaugstofunni. Það er rangt, það var gert. Menn hafa kannski gleymt því – einmitt vegna þess hve eðlilegt það var talið.

En nú þegar veikindin eru andlegs eðlis en ekki líkamleg þá má varla tala um, hvað þá gantast með þau - þau eru tabú.   Ég man þá tíma þegar fólk hvíslaðist á þegar einhver fékk krabba. Ekki mátti nefna það upphátt, það var eins og drýgður hefði verið glæpur. Nú gera menn góðlátlegt grín að þeim sjúkdómi, sem betur fer. Það er eins og umræðan um andlega sjúkdóma sé enn á því stigi sem krabbinn var forðum. Einmitt þegar ýmiskonar samtök hafa verið stofnuð til að draga umfjöllun um þessa sjúkdóma út úr þeim skuggasundum sem þau hafa verið í.

Talað er um fordóma í þessu sambandi. Orðið fordómar er einmitt notað í tíma og ótíma þegar á að drepa einhverri umræðu á dreif. Og dugir undarlega vel því fáir vilja láta bendla sig við fordóma til að vera ekki úthrópaðir sem slíkir. Einmitt þannig er verið gera ýmiskonar óeðli, eðlilegt og sé einhver á annarri skoðun og lætur hana í ljós er hann úthrópaður.

Mér en rétt sama hvort menn kalla mig fordómafullan en þegar kemur að fólki sem á við geðræn vandamál set ég stórt ? , hvort ég geti treyst því? Hvort ég geti átt allt mitt undir því? O.s.f.v.

Þegar einhver fótbrotnar, þá fara menn ekki bara eftir læknisvottorði til að vita að viðkomandi hafi náð sér, menn sjá það. Svo er um flesta líkamlega krankleika, það sést á líkamlegu atgerði hvort þeir hafa náð sér eða séu á góðri leið með það. Því ekki þannig háttað,  með andlega sjúkleika, því miður. Það þarf ekki endilega að sjást hvort þú ert með „fulle fem“ eða ekki. Menn fá kannski læknisvottorð um að vera í lagi. En þá þarf viðkomandi kannski að taka lyf að staðaldri um lengri eða skemmri tíma, kannski það sem hann á eftir ólifað. En ef viðkomandi hættir að taka lyfin, gildir vottorðið áfram? Og svo hafa læknisvottorð því miður ekki verið laus við að vera gölluð vara.

Það gerðist í Boeing 767  flugvél Air Canada, sem var á leið frá Toronto til London í liðinni viku, að aðstoðarflugmaðurinn fór að haga sér undarlegar og undarlegar og ákallaði að lokum Guð. Flugstjórinn varð að fá aðstoð flugþjóna til að fjarlægja manninn úr flugstjórnarklefanum. Það varð að járna hann við sæti í farþegaklefanum. Vélin varð að lenda á Shannon flugvelli á Írlandi, þar tóku nýir flugmenn við og luku fluginu. Flugmaðurinn var fluttur frá borði og komið undir læknishendur og fær vonandi meðferð við hæfi.

Nú er það spurningin, hvort þeir, sem hvað harðast hafa hneykslast á umfjölluninni um Ólaf F.M. og því meintu ranglæti sem hann var beittur og spurningunni hvort hann valdi embætti borgarstjóra, séu tilbúnir til þess að fara í flug með þessum flugmanni, þegar hann hefur fengið læknisvottorð um að hann geti flogið á ný?

Þeir sem segja já ættu að snúa sér að næsta spegli og skoða í sér tunguna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband