Kúnstin að breyta rómantík í hverfislegt ógeð!

Kamínur geta verið skemmtileg tæki, skapað góða stemningu jafnvel rómantík, þegar þannig háttar til á tyllidögum og  hátíðum. Ef þessi tæki eru notuð í þeim tilgangi eingöngu, er ekki margt við þau að athuga.

En þegar fólk fer að nota þessar græjur til upphitunar á húsum sínum þar sem völ er á, eða gert ráð fyrir, öðrum umhverfisvænni orkugjöfum fer skörin að færast upp í bekkinn.

Því miður voru fyrrum nágranar mínir á Skagaströnd ekki svo heimskir, eins og fólkið í fréttinni, að vita ekki að kamínur á auðvitað að tengja við reykrör áður en kveikt er upp í þeim. Staðfestingu á þeirri skynsemi kamínueigendanna fengum við nágrannarnir daglega, á miður skemmtilegan hátt. 

Reykur nágrannanna skilaði sér skilmerkilega upp um reykháfinn þeirra, en virtist hafa sömu náttúru og reykurinn hans Kains forðum, að vilja ekki upp í loftið,  en hafði þess í stað þá leiðu tilhneigingu að leita inn um opna glugga næstu húsa.

Kaldhæðnin í málinu var að fyrirvinnan á heimili kamínunágranna minna vann í Blönduvirkjun við framleiðslu rafmagnsins sem m.a. er notað til upphitunar á  flestum heimilum á Skagaströnd. Það var umtalað að nágrannar mínir tímdu ekki að kaupa rafmagnið til upphitunar, sem maðurinn, þó hafði laun sín af að framleiða,  en kyntu þess í stað meira og minna með brenni sem þau fengu frítt.

Klögumál streymdu til sveitarstjórnar, sem á einhvern óskiljanlegan hátt kom sér hjá að taka á málinu, þrátt fyrir að aldrei hefði verið sótt um leyfi fyrir reykröri á umræddu húsi. Þannig virtist réttur rykframleiðendanna ná með formlegum hætti inn á lóðir okkar nágrannana og alveg upp að  opnanlegum fögum og þar, og fyrst þar,  byrjaði réttur okkar hinna, sem virtist aðallega felast í því vali að hafa alla glugga kirfilega lokaða,  ætti húsið ekki að lykta eins og brunarústir þegar fólk kæmi heim úr vinnu á kvöldin.

Þeir sem voru áhættufíklar hengdu þvott á snúrur. 


mbl.is Kúnstin að kveikja upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert skemmtileg týpa eins og fleiri smábæjarbúar landsins. Náungakærleikurinn blómstrar norðurundir Skaga. Það sem gleymdist að þýða í fréttinni, er það fréttnæma. Það verður að brenna vel þurran eldivið og má ekki brenna rusl, dagblöð eða blautar spýtur. Það er það sem skapar ólykt og orsakar svifryk. Þetta er allt í: aftenposten.no . Góður vel þurr eldiviður svo sem birki veldur sáralítilli lykt og brennur nánast sót og reyklaust. Íslendingar notuðu lengst af olíu og kol og fáir kunna til verka með kamínur. Norðmenn jafnvel búnir að gleyma kúnstinni. Til að það borgi sig að hita hús með viði þarftu að eiga skóg. Eldiviðarpoki kostar yfir 3000. kr svo Blönduvirkjunar nágranni þinn hefur brennt einhverju öðru. Rekaviður eyðileggur alla ofna og rör úr málmi svo nú er bara að rækta garðinn sinn, jafnt á Skagaströnd ,sem í Grindavík, þar sem fiskur er undir steini. Rafmagnið fer hvort eð er í ál og útlendinga, niðurgreitt.

XO (IP-tala skráð) 24.11.2010 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband