Íslensku kvikmyndaverðlaunin – made in China!
11.2.2011 | 07:48
Ég varð undrandi þegar ég las þá frétt í Fréttablaðinu í morgun að nær allar Eddustytturnar hefðu brotnað í flutningnum frá Kína til Íslands. Af því að ég er frekar einföld sál hafði ég gengið að því sem vísu að Eddan, þessi Óskar íslenskrar kvikmyndagerðar, væri íslensk framleiðsla, ekkert minna.
Það er óneytanlega svolítið hjákátlegt að Íslenska sjónvarps- og kvikmyndaakademían skuli nota kínverskt handverk til að verðlauna íslenskt kvikmyndagerðarfólk fyrir vinnu sína og nokkuð á skjön við baráttu aðstandenda akademíunnar fyrir eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar svo ekki sé meira sagt.
Á heimasíðu akademíunnar segir m.a.:Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían er sameiginlegur vettvangur hagsmunafélaga kvikmyndagerðarmanna í landinu til að stuðla að eflingu íslenska kvikmynda- og sjónvarpsgeirans. Í þessu skyni stendur akademían m.a. fyrir veitingu Eddunnar, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna, ár hvert. Edduverðlaunin eru uppskeruhátíð íslenska kvikmynda- og sjónvarpsgeirans, haldin með það að markmiði að efla hann og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða.
Í gegnum árin hefur óneitanlega nokkuð borið á yfirlýsingum kvikmyndagerðarfólks hér á landi um lítinn skilning íslenskra stjórnvalda og annarra á þessum iðnaði. Það kann að vera að það hafi nokkuð til síns máls, en það hlýtur að vera lágmarkskrafa að þeir sem þannig tala gangi sjálfir á undan með góðu fordæmi og efli sjálfir annan iðnað íslenskan, aðeins þannig efla þeir getu annarra að styðja þá.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:02 | Facebook
Athugasemdir
Er ekki möguleiki að þarna ráði allverulegur verðmunur ferðinni. Eru ekki allir að reyna að spara. Ég veit fyrir víst að þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru unnin í Kína.
Bergljót Gunnarsdóttir, 11.2.2011 kl. 11:07
Jú vafalaust er það þannig vaxið, en á þá íslensk kvikmyndagerð rétt á sér yfir höfuð?
Það væri vafalaust hægt að framleiða allar "íslenskar" myndir í Kína fyrir minni pening en hér á landi, ef það er málið.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 11.2.2011 kl. 12:36
Þetta er alveg tvennu gjörólíku saman að líkja. Íslensk kvikmyndagerð á fullan rétt á sér, eins og flestir vita sem sækja bíóin á annað borð. Ég trúi varla að þú meinir þetta, eins snarpur og greindarlegur þú ert alltaf í þínum skrifum.
Annars er ég alveg sammála þér í að æskilegast væri að verðlaunin séu alíslensk, þó það komi íslenskri kvikmyndagerð ekkert við. Þetta er nánast eins og spyrða saman forsetan og fálkaorðuna eða eitthvað viðíka.
Bergljót Gunnarsdóttir, 11.2.2011 kl. 17:24
Ég held að þú misskiljir mig Bergljót, ég hef sjálfsagt ekki orðað hugsun mína nægjanlega vel. Auðvitað tel ég íslenska kvikmyndagerð eiga rétt á sér ekki spurning um það. Öll íslensk störf eiga það.
En í baráttunni fyrir eflingu kvikmyndagerðar sem íslensks iðnaðar mega menn í þeirri grein ekki komast í mótsögn við sjálfa sig með því að ganga framhjá íslensku og velja erlent, hvort heldur það er efni eða vinnuafl. Með því hafna þeir sjálfir íslenskum störfum fyrir erlend.
Við fáum mest út úr því að klóra hvert öðru og leita ekki langt fyrir skammt.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 11.2.2011 kl. 18:43
Flott!
Bergljót Gunnarsdóttir, 11.2.2011 kl. 19:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.