Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

SáddíÍsland ?

Frétt á Vísi.is;„Karlmaður var í Hæstarétti í dag dæmdur til átján mánaða fangelsisvistar fyrir líkamsárás á unnustu sína. Var talið að árásin hefði staðið yfir í að minnsta kosti hálfa klukkustund.

Meðal annars hafi maðurinn sest ofan á bak stúlkunnar, vafið sæng um höfuð hennar og þrýst andliti hennar svo henni hafi legið við köfnun.

Auk fangelsisvistarinnar var maðurinn dæmdur til þess að greiða unnustunni miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur. Var við ákvörðun bóta litið til þess að andlegar afleiðingar árásarinnar hafi háð stúlkunni mikið og árásin hafi verið heiftúðleg.“

 

Samkvæmt nýjustu fréttum  eru lífskjör á Íslandi þau bestu í heimi hér.  Gaman væri að vita hvaða gildi eru  tekin  inn í þá reikniformúlu , sem gefa þessa niðurstöðu. Réttarfarsleg staða kvenna hér á landi getur ekki verið  liður í því dæmi, svo mikið er víst. Ekki ætla ég að segja að við séum  á sama plani og Sáddíarabar, bandamenn okkar og BNA í baráttunni fyrir auknu lýðræði og mannréttindum í Írak!  Sádar  dæmdu nýlega,  konu til hýðingar fyrir þá sök að hafa látið nauðga sér.

Nei við erum ekki á svo lágu plani, eða hvað? Nei Íslenska þjóðin er það ekki, en það virðist ekki alveg jafn ljóst hvað dómstólana varðar.  Í fréttinni af Vísi.is, hér á undan,  var hrotti á ferð sem misþyrmdi unnustu sinni á grófan og ógeðslegan hátt. Eða eins og segir í dómsorði , að “árásin hafi verið heiftúðleg og  andlegar afleiðingar árásarinnar hafi háð stúlkunni mikið”. !!!!!!

Halló, !!!! 18 mánuðir !!!!.  Situr inni í 6 til 7 mánuði, hámark!    Stúlkan þjáist  ævilangt!  Það er engin lækning til við svona, því miður. Ef einhver gerði  dætrum mínum þetta  væri best fyrir þann sama að óska sér ævilangs dóms og að honum yrði aldrei sleppt  út aftur.

Hér á landi er líf og limir kvenna sem verða fórnarlömb , hrotta, nauðgara og eiginmannsómenna lítilsvirt rétt eins og í Sáddiarabíu. Nei þær eru ekki hýddar hér með svipu eins og tíðskast þar. Hér á landi  eru þær hýddar með  dómum sem eru ekki bara vægir heldur beinlínis hlægilegir.  Dómum sem fórnarlambinu svíður undan  sem svipuhögg væri.

Dómarar,  er ykkur alveg sama um konur ykkar og dætur? Takið ykkur tak.

"Við kveikjum í hádeginu"

Þannig er aðalmálsgrein heilsíðuauglýsingar á bls. 39 í Mogganum í dag (26.nóv). En þar auglýsir Mogginn sjálfur nýja sjónvarpsstöð á Mbl.is. Ég var smá stund að „kveikja“ en áttaði mig síðan á því hvað þeir ætluðu að gera. 

Þeir ætluðu sem sagt ekki að bera eld að hádeginu og brenna það eins og fullyrt er í fyrirsögninni,  heldur ætluðu þeir að kveikja á nýju sjónvarpsstöðinni í hádeginu. !!

Mogginn ætti kannski frekar að huga að málskilningi fréttamanna sinna  en að hanga eins og hundur á roði, á Z unni, sem enginn hefur áhuga á.


Mismunandi gildismat

Í föstudagsblaði 24ja stunda var stutt grein á forsíðunni sem vakti athygli mína.

„Kynmök við girðingu.“ En þar segir frá manni sem sætir ákæru vegna meintra kynmaka hans við girðingu í miðborg Lundúna. Sakborningurinn  segir málið á misskilningi byggt.  Svo lýkur fréttinni á því að karlmaður í Skotlandi, hafi í síðustu viku verið dæmdur í þriggja ára fangelsi, skilorðsbundið, fyrir að hafa kynmök við reiðhjól.  Ekki var þess getið hvort hjólinu og girðingunni hafi verið boðið upp á áfallahjálp og sálfræðiaðstoð.

Þetta er allt dálítið broslegt svo ekki sé meira sagt.

En það er hinsvegar ekki broslegt að Íslenskir dómstólar skuli telja það minna mál og léttvægara að nauðga konum og misnota börn en Bretar telja kynferðislegt fitl við girðingar og reiðhjól!

 En af dómum, mörgum hverjum hér á landi, sem kveðnir hafa verið upp í nauðgunar-  og misnotkunarmálum, verður ekki annað séð en að akkúrat þannig sé það.  

Dómar í þessum málum hér á landi eru þjóðarskömm!

"Dokkimenntað og grínlætað"

Þegar þetta er skrifað er dagur íslenskrar tungu,  16. nóvember  2007 og  200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar. Í  fréttum RUV í morgun var sagt að í tilefni dagsins  muni  íslenska verða  í hávegum höfð. Það hefur sem sagt verið tekin sú ákvörðun að í dag verði töluð íslenska í ríkisútvarpinu!  Gott og vel, hugsaði ég og ákvað að leggja við hlustir.  Ekki fannst mér íslenskan vera í einhverjum hávegum, hvað þá höfð þar.  Það er ljóst að sá málfarsráðunautur, sem tíðrætt var um hér á árum áður hefur annað hvort verið látinn hverfa til annarra starfa eða dáið drottni sínum og enginn ráðinn í hans stað. Í það minnsta virðist engin tilraun gerð til málfarsbóta á RUV. Það er umhugsunar atriði hvaða  tungumál sumir þáttastjórnendurnir tala. Þó er ástandið á RUV til muna betra en á litlu stöðvunum mörgum hverjum. Ég myndi ekki treysta flestum sem þar eru í loftinu til að skrifa fyrir mig jólakort, þ.e.a.s ef það ætti að skiljast sem slíkt. Á degi íslenskrar tungu hefði t.d. einhver hjá RUV átt að benda Óla Palla á að til er skínandi íslenskt orð yfir „músík“ sem hann tönglast á í tíma og ótíma. Og orðið er tónlist.   

Það er deginum ljósara að þeir sem sinna því sem í dag  kallast „menning“  og annast framleiðslu hennar og matreiðslu ofan í okkur almenninginn,  eru skúrkar málsins.  Allt er „ameríkanserað“ bæði í orði og verki . Það er eins og menn haldi að þeir verði eitthvað menningarlegri með því að slá um sig með slettum  og orðum sem almenningur skilur ekki. Og nú er toppurinn að  þýða íslensk orðtæki eða máltæki yfir á ensku, og   „íslenska“  svo   þýðinguna  aftur til baka, bæta við hana  greini eða öðrum endingum sem hæfa málinu. Og útkoman er alltaf eitthvert orðskrípi sem á að dekka eitthvað sem yfirleitt  eru til að jafnaði, 4 til 8 orð,  yfir í íslensku. Það er ekki spurningin,  spurningin er bara  að nota þau.  Tökum t.d. enska orðið „tail“. Það merkir nánast allt sem er aftast á  skepnu hvort sem hún syndir, flýgur eða hleypur. 

Íslenskan er sem betur fer öllu nákvæmari. Í henni er gerður greinarmunur á, hvert dýrið er. Um leið og við heyrum orðið, vitum við um leið hvernig eða hvaða dýr er um að ræða.  Þ.e.a.s. Sporður, tagl, rófa, skott, dindill, stertur, hali, stýri,stél, o.s.f.v.  Þetta er ekki tæmandi listi, ég man ekki fleiri orð í bili en heyrt hef ég að til séu um 25 til 30 orð í málinu fyrir þetta eina  í ensku. Þetta er aðeins eitt dæmi yfir glæsilega málauðgi íslenskrar tungu umfram  þá ensku.  Vilja menn skipta?

MS hefur unnið stórvirki í málefnum tungunnar. Í tilefni dagsins opnuðu þeir stórkostlegan vef um Jónas Hallgrímsson.   jonas.ms.is -  Á mjólkurfernunum frá þeim hefur  íslenskt mál leikið aðalhlutverkið.  Framsetningin hefur verið stórskemmtileg og  fræðandi og um leið lesandanum hvatning að taka sig saman í andlitinu, málfarslega séð.  Þeir eiga heiður skilið og þeirra framlag er lýsandi dæmi þess hvernig fyrirtæki geta notað hluta hagnaðar síns til góðra verka. Þ.e.a.s. ef eigendur þeirra eru ekki of  uppteknir af „gróða og græðgi“.

Ég tók saman síðdegis þær slettur og ambögur sem ég heyrði í stuttri hlustun á RUV í dag, á degi íslenskrar tungu , og setti saman úr þeim ímyndaðan texta. Vafalaust  gleymi ég einhverju en til viðbótar greip ég til tveggja eða þriggja  óorða sem ég hef heyrt á síðustu dögum.

„Ég fékk brilljant  ídeu í dag. Að ræta um hvernig menn fökka Íslensku sproki með slettum.  Þegar ég hafði ræterað töluvert um sprokið,  ídeaði ég hvort ég ætti ekki að meila þetta til vinar míns og láta hann analísera og kvalítæta stöffið.  Ef hann bakk  dokkimenntaði og  fílaði stöffið  og grínlætaði á það, nítaði ég ekki annað en másera smástund á kompjútinu til að klósera stöffinu. Þannig má klósa á að málið verði teilerað.“Þýðing óskast.

Smá viðbótar Nöldur

Sæll Axel
Þér til fróðleiks eru pistlar Nölda á ábyrgð ritstjórnar Húnahornsins. Nafnlausir pistlar í fjölmiðlum er ekki eitthvað sem viðgengist hefur eingöngu á síðustu öld eins og þú nefnir í þínum skrifum. Sem dæmi get ég bent þér á Staksteina Morgunblaðsins, Svarthöfða DV og Víkverja í Morgunblaðinu. Þessir nafnlausu pistlar eru aðvitað á ábyrgð þeirra sem gefa út viðkomandi blöð. Sama gildir um Húnahorns Nöldra.

Kveðja,
Ragnar Z.
Ritstjóri Húnahornsins

Ég sendi Húnahorninu greinina sem ég birti í gær og þetta hér fyrir ofan er  svarið sem ég fékk í tölvupósti.    Amen.

Það er athyglisvert  að í svari sínu skuli ritstjóri Húnahornsins réttlæta nafnlaus skrif á vef sínum með því að nefna til sögunnar Staksteina og Víkverja Morgunblaðsins og  Svarthöfða DV. 

 Nafnlaus skrif voru býsna algeng í blöðunum á liðinni öld. Sér í lagi ef þau þjónuðu ritstjórnarstefnu viðkomandi blaðs. Sem voru þó mest pólitísks eðlis.  

Nú heyrir  þetta allt sögunni til  nema  hvað  Nátttröllin „Staksteina, Víkverjia og Svarthöfða“ varðar. Þar hanga pólitískir hundar enn  á roði.

„Sjaldan lýgur almanna rómur“  segir máltækið. Og það er einmitt almannarómur sem segir að það hafi verið ritstjórar Mbl sem hafi í gegnum tíðina skrifað Staksteina og Víkverja.  Með þeim hætti hafi þeir, með skrifum sínum,  getað fjallað um menn og málefni  á þann hátt,  sem að öðrum kosti  þættu ekki mjög ritstjórnarleg vinnubrögð. Hvað Svarthöfða DV varðar veit ég ekkert um,  en ekki er óeðlilegt að ætla að svipað sé uppi á teningnum þar. Því þrátt fyrir eigendaskipti fram og aftur, gjaldþrot, ritstjóraflipp og ritstjórnarleg bakföll  blaðsins,  þá er Svarthöfði alltaf á sínum stað. Þannig að vart er hægt  að draga aðra ályktun en þá,   að Svarthöfði  hafi á DV, rétt eins og Staksteinar og Víkverji á Mogganum,  einmitt haft  mjög áþekka kennitölu og ritstjóri blaðsins á hverjum tíma. Ritstjórar beggja blaðana hafa á hverjum tíma sagst bera ábyrgð á skrifum viðkomandi pistlahöfunda.   

 -Hallelúja, þó það nú væri að þeir ábyrgðust eigin skrif!

Viðbrögð ritstjóra Húnahornsins hér að framan og rökstuðningur hans fyrir skrifunum,  gera manni ekki annað fært en álykta að bakvið skrif Nöldra í Húnahornið leynist  ritstjórinn sjálfur, „Hr. Z“,  sem ekki hefur dug í sér að skrifa þessa pistla undir nafni. ???  Dæmi nú hver fyrir sig. „Svo skal böl bæta að benda á annað verra“, segir máltækið. Það gerir ritstjóri Húnahornsins þegar hann ber fyrir sig fyrrgreinda pistla í Mbl. Og DV. En það breytir ekki því að það verður áfram og alltaf heigulsháttur að skrifa undir nafnleysi eða  dulnefni hvort sem miðillinn heitir Morgunblaðið, DV eða Húnahornið.  Hvað hefur Nöldri  að fela?Kveðja Axel Jóhann. 

Oft veltir lítil .... ..... ...... .

Glugginn er dagskrár og auglýsingablað gefið út af Fjölritunarstofunni Gretti sf. á Blönduósi. Markaðssvæðið er A-Húnavatnssýsla.  Í  Glugganum, sem er vinsælt og þarft blað og kemur út vikulega er alltaf „vísa vikunnar“ . Þar hafa birst vísur eftir fjölda manna en eins og oft vill verða  er það  lítill hópur manna og kvenna sem heldur þessu gangandi. Einn þessara aðila er RK sem ég tel víst að sé Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd.  Í 35. Tbl Gluggans á þessu ári birtist eftirfarandi vísa eftir RK.

Í Blönduóskirkju víst ég vil    

virða menntir slyngar. 

En þaðan fara foldar til  

fáir Skagstrendingar.

Mér undirrituðum fannst um leið og ég sá vísuna að hún gæti ekki hafa átt að vera öðru vísi en svona:     

Í Blönduóskirkju víst ég vil  

virða menntir slyngar. 

Því þaðan fara fjandans til   

flestir Blönduósingar.

Þetta sendi ég Glugganum og var vísan birt endurbætt í 37. tbl. Ég  á aðeins seinnipart vísunnar þótt umræðan hafi verðið þannig að ég ætti hana alla. Og þvílík viðbrögð. Sævar bróðir á Skagaströnd  var ítrekað spurður á Blönduósi um þennan gerning. Hvort mér væri illa við þá? Hvað mér gengi til? Hvað þeir hefðu gert mér?  O.s.f.v.  Hann var þannig beint og óbeint skammaður fyrir mína hönd. En engum datt í hug að hringja í mig. Ég er í símaskránni og til að ekkert færi á milli mála lét ég,  ásamt nafni og heimilisfangi, fylgja símanúmer þegar ég sendi Glugganum vísuna. Viðbrögðin virðast mér dæmigerð fyrir innibyrgða minnimáttarkennd örfárra Blönduósinga, þótt mér sé hulin ráðgáta hvernig hún er tilkomin.  Einmitt í þeim anda  skrifar „Nöldri“  í Húnahornið og lætur í ljós þykka vandlætingu á þessum ósóma og undrast því meir að Glugginn hafi birt „eitthvað sem ekki flokkist sem englasöngur um Blönduósinga“.  „Sannleikanum verður hver sárreiðastur“  segir einhversstaðar. Ekki það að ég líti á efni vísunar sem einhvern sannleik, þvert á móti. Kannski varð Nöldri og aðrir svona fúlir af því akkúrat þannig líta þeir á málið, tekið vísuna til sín og að í henni  leynist sannleikskorn, hvað þá  varðar í það minnsta. Hafi hann og einhverjir aðrir gert það,  þá er það þeirra  vandamál. Ég get þó huggað hann og aðra með því að ég held að hvorki hann né aðrir Blönduósingar hafni  í neðra, né eigi þangað erindi,  frekar en aðrir landsmenn. Kannski hefur Nöldri  og  einhverjir sveitungar hans óskað mér þangað. Ég tek því með stóískri ró, hafi það verið gert, því allir sæmilega gefnir menn vita að hvorki ég eða aðrir dauðlegir menn gefa út vegabréfsáritanir þangað, hvað sem öllum vísum og öðrum skrifum líður. En að það er rit - og prentfrelsi á Íslandi, sem betur fer.  –Ennþá-.  En ekki mikið lengur ef Nöldri fengi að ráða, ef marka má skrif hans. Og menn verða að standa og falla með skrifum sínum. Svo eitt að lokum Nöldri, það kann að vera að nafnlaus skrif eða undir dulnefni hafi viðgengist á síðustu öld, en ekki í dag. Og „þú, „ Nöldri““ undrast að Glugginn hafi birt vísuna. Hún var í það minnsta send undir fullu nafni og heimils fangi. Þú ættir frekar að undra þig á að Húnahornið birti nafnlausar greinar eftir þig. Ég segi nafnlausar þótt undir dulnefni sé.  Skrif undir dulnefni eru að því leitinu til meiri heigulsháttur  en nafnlaus skrif, því þá þykjast menn vera aðrir en þeir eru.  Skrifaðu undir nafni eða láttu það ógert. 

 Axel Jóhann Hallgrímsson

Víkurbraut 28

240 Grindavík

698 00 80   863 07 80  421 72 22


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband