Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Kúnstin að vera betri fasisti en Donald Trump

donald_prump.jpgBreska ríkisstjórnin íhugar að meina Donald Trump að koma til Bretlands í kjölfar undirskrifta- söfnunar þar að lútandi.

Ekki er ég neinn aðdáandi „risaeðlunar“ Donalds Trumps og fasískra skoðana hans. En að ætla að meina mannfýlunni að ferðast til Bretlands á grundvelli skoðana hans er hugmyndafræði af sama meiði og Trump sjálfur boðar.

En í góðum tilgangi auðvitað, athugið það!


mbl.is Útiloka ekki að banna Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þrímilljónasti" - í alvöru!

"Farþega­fjöldi Icelanda­ir á þessu ári fór í dag yfir þrjár millj­ón­ir. "Þrímillj­ón­asti" farþeg­inn reynd­ist vera......".

Á hvaða móðurmálsvegferð er Mogginn?


mbl.is Þrímilljónasti farþegi Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarleg ráðstöfun, en óhjákvæmileg

Flóttamannavandinn vindur upp á sig eins og snjóbolti, sem veltur niður bratta hlíð og getur ekki annað en vaxið og stækkað. Allskonar óþjóðalýður, sem makar krókinn á neyð fólks, etur því á foraðið og hraðar vexti vandans.

Þessi ráðstöfun Svía er aðeins fyrsta birtingarmyndin af því óhjákvæmilega. Öll lönd munu fyrr eða síðar setja lása og krossbönd á sín landamæri. Hversu sárt sem það annars kann að þykja.

Það gildir einu hversu viljugar þjóðir heims eru til móttöku flóttafólks, það kemur að þolmörkum og vandinn er nú þegar að verða ofvaxinn getu þeirra, margra hverra.

Það verður að ráðast að rót vandans, það er dugir ekki að setja endalaust plástur á sárið!


mbl.is Svíar gera skilríki að skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona gerum við ekki

Jæja, fékk Bjarni sting í steinrunnið hjartað? Það var lán fyrir ríkiskassann að þetta var ekki stingur frá Samtökum atvinnulífsins eða stóreignafólki. Þá hefði ekki staðið á viðbrögðum Bjarna og ekki verið horft í aurinn.

Það er aumara en allt aumt þegar ráðherrar fela sig bak við stofnanir sem undir þá heyra og vísa í lög og reglur sem þeir sjálfir setja.

Auðvitað þurfa að vera skýrar reglur um móttöku flóttamanna,sem annað, en reglur geta verið skýrar án þess að mannúð og mildi sé ýtt út af borðinu.

Svona gera menn ekki Bjarni!


mbl.is Bjarni Ben fékk sting í hjartað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Davíð toppar sjálfan sig

besservisser.jpgSigmundur Davíð forsætisráðherra hittir engan fyrir nema sig sjálfan með þessari árás á Kára Stefánsson.

Hvaða pólitíkus skyldi það vera sem hefur á síðustu árum staðið fremstur allra í því að vita og geta allt betur en aðrir?

Það er ljóst hver verður kjörinn blaður „toppari“ ársins - sjöunda árið í röð.


mbl.is Sigmundur Davíð: Toppari þráir athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tek ofan fyrir Kára Stefánssyni

Ríkisstjórnarflokkarnir fá það óþvegið frá Kára Stefánssyni í grein í Fréttablaðinu í dag. Kári gerir að umtalsefni glæpsamlegt skeytingarleysi fjárveitingarvaldsins gagnvart heilbrigðiskerfinu, sem Kári segir svartan blett á íslenskri menningu. Ljóst megi vera að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mun ekki sitja lengur en sem nemur kjörtímabilinu.

„Í málflutningi sínum fyrir síðustu alþingiskosningar gagnrýndu núverandi stjórnarflokkar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hola að innan heilbrigðiskerfið og hétu því að styðja það betur ef þeir kæmust á valdastóla. Þetta gladdi þá okkar sem eru nægilega vitgrannir til þess að hlusta á það sem stjórnmálamenn segja fyrir kosningar. Nú æxluðust mál þannig að afturendar hinna loforðaglöðu hafa vermt valdastóla í tvö og hálft ár en heilbrigðiskerfið er í engu minna rusli en áður og það horfir ekki til bóta nema síður sé."

Kári nefnir dæmi um fáránleika fjársveltisins:

„Gáttaflökt er algengast þeirra hjartsláttaróreglna sem koma þolendum í hendur heilbrigðiskerfisins. Um það bil 25% Íslendinga fá kast af gáttaflökti einhvern tíma á ævinni og þar af fær stór hundraðshluti endurtekin köst eða óreglan verður viðvarandi.

Einn af fylgifiskum gáttaflökts er heilablóðfall og er gáttaflöktið ábyrgt fyrir í það minnsta 30% þeirra. Þess vegna eru þolendur settir á blóðþynningu til þess að fyrirbyggja heilablóðföll og þegar þeir fá kast eru þeir svæfðir og þeim veitt rafstuð til þess að reyna að koma þeim í réttan takt, sem er kallaður sínus og það veit sá einn sem í flökti hefur lent hvað sínusinn er mikil blessun.

Nýverið hafa læknar á Landspítalanum, undir forystu Sigfúsar Gissurarsonar sem er ungur snillingur, farið að gera flókna brennsluaðgerð til þess að fyrirbyggja köst hjá þeim sem hafa fengið þau. Hann segir mér að á landi hér sé þörf á um það bil 150 slíkum aðgerðum á ári, en hann fær ekki leyfi til þess að gera nema 60. Það er sem sagt biðlisti fyrir þessar brennsluaðgerðir sem lengist um eitthvað minna en 90 á ári vegna þess að einhverjir á listanum deyja af sjúkdómnum eða öðru.

Hver aðgerð kostar um 700.000 krónur þannig að hann fær 42 milljónir á ári en þyrfti 105 milljónir til þess að sinna þörfinni. Afleiðingin af þessum 63 milljóna króna sparnaði er kostnaður sem er vafalítið margföld sú upphæð í lyfjum þeirra sem ekki þyrftu þau eftir aðgerð og í kostnaði við rafvendingarnar, að maður tali nú ekki um ávinninginn af vellíðan og starfsgetu þeirra sem eru allt í einu komnir í viðvarandi sínus. Sú staðreynd að ákvörðunin um að það megi ekki gera nema 60 brennsluaðgerðir á ári var tekin af skriffinni einhvers staðar í stofnun sem heitir Sjúkratryggingar Íslands breytir ekki því að það er á ábyrgð kjörinna fulltrúa fólksins í landinu að framselja valdið til þess að taka svona ákvarðanir. Þetta er ákvörðun sem endanlega kostar þjóð stórfé og einstaklinga þjáningu og jafnvel varanlega fötlun eða lífið.

Það væri sjálfsögð betrumbót á heilbrigðiskerfinu að leyfa Sigfúsi að mæta þörfinni fyrir brennsluaðgerðir að fullu þótt henni fylgi skammtímakostnaður“.

(Tilvitnun lýkur)

Það er rúmlega tveggja ára biðlisti eftir þessari aðgerð, sá biðlisti er dæmdur til að lengjast við óbreytt ástand. Það er lesendum slíkra frétta afar fjarlægt og ópersónulegt þótt einhver tala sé nefnd um lengd biðlista í heilbrigðiskerfinu.

Tölur án andlits segja lítið. Ég skrifa þetta hér til að ljá einni tölu á listanum andlit með því að upplýsa að ég er einn þeirra sem bíða eftir því að komast undir hendurnar á Sigfúsi Gissurarsyni og hans teymi.

Vonandi lifi ég biðina af.

Það má geta þess, til gamans, að fyrir þær tæpu tuttugu milljónir af opinberu fé sem Siv Friðleifsdóttir fékk frá flokkssystkinum sínum fyrir gæsku sína og góð ráð hefði mátt gera 28 svona aðgerðir.

En þetta er auðvitað alltaf spurning um forgangsröðun.

 

 


mbl.is Fjársveltið þjóðinni til skammar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómgreindarlausir sjálfstæðismenn

Fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins efast um dómgreind þingmanna Sjálfstæðisflokksins og forystusveitar hans í blogggrein sem hann ritar í dag.

Þegar Styrmir Gunnarsson, f.v. ritstjóri og forystugreinahöfundur Mbl til fjölda ára, gagnrýnir stefnu Sjálfstæðisflokksins væri forystu flokksins holt að leggja við hlustir.

Grein Styrmis, hér er skotið föstum skotum:

„Það er hart sótt að ríkisstjórninni úr tveimur áttum og af vaxandi þunga. Annars vegar frá þeim, sem telja fráleitt að ekki verði meira fé veitt til Landspítalans á fjárlögum næsta árs. Hins vegar frá samtökum aldraðra og öryrkja.

Hin efnislegu rök eru skýr af beggja hálfu.

Eftir stendur þá spurningin um pólitískt mat og dómgreind.

Í báðum tilvikum er um viðkvæm málefni að ræða ekki sízt fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur allt þetta kjörtímabil setið fastur í fylgi skv.könnunum, sem á árum áður hefði þótt skelfilegt.

Ef ekki væri fyrir stuðning hinna eldri væri flokkurinn kominn niður fyrir 20%. Hollusta eldri kjósenda við flokkinn er ekki takmarkalaus.

Komi brestur í þann stuðning geta enn válegri pólitísk tíðindi verið framundan.

Þetta er nauðsynlegt fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins að íhuga næstu daga áður en fjárlög næsta árs verða afgreidd“.


mbl.is Óþolandi að sitja undir sífelldum ákúrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í alvöru...

„Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem er stórmeistari íslensku fálkaorðunnar, hefur svipt Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, rétti til þess að bera fálkaorðuna, sem forsetinn sæmdi Sigurð hinn 1. janúar 2007“.

Ekki verður annað skilið af fréttinni en að Sigurður Einarsson hafi aðeins verið sviptur réttinum til að bera Fálkaorðuna, en haldi orðunni sjálfri, þurfi m.ö.o. ekki að skila henni.

Er svipting í orði nægjanleg til að Siggi skarti ekki krossinum þegar og ef honum hentar? Er maðurinn ekki í grjótinu einmitt vegna þess að hann gerði annað en ætlast var til?

Gott ef hann gengur ekki með kross skömmina á bringunni í grjótinu, dagsdaglega.


mbl.is Sviptur rétti til að bera orðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeðlið í kassanum

Rúmast það innan ramma laganna og almennrar siðferðisvitundar að míga, skíta og runka sér opinberlega undir yfirskyni listgjörnings?

Eflaust er það bara skortur á listskilningi hjá öllum þorra almennings að amast við iðju flassara og annarra óeðlisgemsa, þeir eru auðvitað, þegar betur er að gáð, aðeins að stunda og útbreiða list sína.

Það er að mínu mati merki úrkynjunar að kalla þetta óeðli í kassanum list.


mbl.is #Nakinníkassa kastaði upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband