Ef þessi frétt flytur óklippta og rétta túlkun Guðna Th. Jóhannessonar þá þykir mér sagnfræðingurinn skauta létt yfir sviðið. Deila milli forseta og þings, eða hluta þess, er ekki ný af nálinni og á sér heldur betur forsögu.
Sveinn Björnsson skipaði, sem ríkisstjóri, utanþingsstjórn 1942 þar sem Alþingi virtist ófært um að gegna þeirri skyldu sinni að mynda ríkisstjórn. Það getuleysi stafaði aðallega af persónulegu hatri millum forystumanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.
Stóð sú pattstaða fram yfir lýðveldisstofnun eða til október 1944 að Alþingi tókst loksins að mynda meirihlutastjórn, en á meðan sat utanþingsstjórnin, sem var eitur í beinum Ólafs Thors.
Þegar Alþingi kom saman á Þingvöllum 17. Júní 1944 og kaus hinu nýstofnaða lýðveldi sinn fyrsta forseta féllu atkvæði þannig að Sveinn Björnsson ríkisstjóri fékk 30 atkvæði, Jón Sigurðsson skrifstofustjóri Alþingis fékk 5 atkvæði og 15 seðlar voru auðir.
Ólafur Thors bar haturshug til Sveins fyrir skipun utanþingsstjórnarinnar og fylgdi flokkurinn foringja sínum. Það skilaði sér í því að 15 af 20 þingmönnum flokksins skiluðu auðu í forsetakosningunni á Þingvöllum 1944 og restin kaus skrifstofustjóra þingsins.
Þó þær deilur væru ekki reknar í fjölmiðlum þá líkt og nú, voru þær staðreynd eigi að síður. Embætti forseta Íslenska lýðveldisins var stofnað í miðjum heiftúðlegum illindum milli Sjálfstæðismanna og forsetans.
Ef núverandi forseti fengi hliðstæð skilaboð frá Alþingi, og Sveinn Björnsson fékk í atkvæðagreiðslunni á Þingvöllum, er ég hræddur um að sagnfræðingum þætti þær kytrur sem nú eru uppi á milli forseta og einstakra ráðherra harla léttvægar.
Forsetadeila á sér dýpri rætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Axel, mikið vildi ég að núverandi forseti fetaði í fótspor okkar fyrsta forseta og skipaði utanþingsstjórn. Hafi verið þörf þá er þörfin ekki minni í dag.
Munum svo að fjórflokkurinn var 14-15 ára gamall við stofnun lýðveldisins. Það apparat er enn að!
Kolbrún Hilmars, 13.9.2011 kl. 16:55
Kolbrún, þessi utanþingsstjórnarhugmynd er andvana fædd og ekki annað en draumórar og um leið gagnslausasta tillagan sem upp hefur komið til lausnar á okkar vandamálum, því miður. Því hvert ætti slík stjórn, stjórnskipulega séð, að sækja sitt vald og afl til góðra verka?
Engan hef ég séð halda öðru fram, í ræðu eða riti, en utanþingsstjórnin 1942 til 1944 hafi verið gersamlega handónýt til allra verka. Hún var fyrst og fremst starfsstjórn, skipuð í neyð til að annast daglegan rekstur ríkisins í yfirstandandi stjórnarkreppu.
Vald stjórnarinnar þá náði ekki inn á Alþingi til nauðsynlegra lagasetninga til að koma einhverju í framkvæmd, ekki léttum málum hvað þá erfiðum, sem núverandi ástand kallar á.
Þingið stæði saman 63:0 á móti utanþingsstjórn í dag, pottþétt. Ekki þarf annað en líta yfir framagosahópinn til að sjá það.
Raunar hefur forsetinn ekki vald til slíkra hluta meðan starfandi er stjórn með meirihluta Alþingis á bak við sig, þó naumur sé. Ef forsetinn ætlaði að gera eitthvað slíkt, sem hann hefur ekki vald til - væri það valdarán.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.9.2011 kl. 17:28
Við fengum að prófa tvo "utanþings"-ráðherra hér um árið. Þau stóðu sig í sjálfu sér ágætlega, en höfðu einmitt ekki pólitískt umboð frá kjósendum til neinna stórra verka, frekar að þau höfðu bara umboð til að framkvæma stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem þau tilheyrðu, þ.e. umboð þeirra kom frá ríkisstjórn sem skipuð var samkvæmt þingræðisreglu okkar stjórnskipunar.
Vilja einhverjir utangþingsstjórn, sem hefur sitt pólitíska umboð beint úr hendi Ólafs Ragnars Grímsonar?
Skeggi Skaftason, 13.9.2011 kl. 17:41
Axel, núverandi stjórnarskrá veitir forsetanum afar víðtækar heimildir. Það þarf mikið til að þær kallist valdarán.
Kolbrún Hilmars, 13.9.2011 kl. 17:48
Skeggi, forsetinn GÆTI ekki myndað verri stjórn en þá sem nú situr. Né þá síðustu. Eða næstsíðustu.
Eflaust segir þetta eitthvað um trú mína á þeim forseta sem ég studdi ekki til embættis.
Fyrir utan auðvitað álit mitt á nú- og fyrrverandi ríkisstjórnum...
Kolbrún Hilmars, 13.9.2011 kl. 17:55
Utanþingsstjórn skipuð af forsetanum, hver sem hann er, hefur ekki vald eða getu til neins eða neins, hafi hún ekki stuðning þingsins, það ættu allir að sjá eftir smá umhugsun.
Það er Alþingi sem fær löggjafavaldið frá þjóðinni í kosningum. Þingið felur síðan ríkisstjórninni (framkvæmdavaldinu) að framkvæma vald sitt.
Meirihluti Alþingis sem myndar ríkistjórn getur valið einn, tvo eða jafnvel alla ráðherra utan sinna raða. Þannig skipuð stjórn er samt ekki utanþingsstjórn því hún sækir eftir sem áður vald sitt til meirihluta þingsins, (sem hefur vald sitt fá þjóðinni) og framkvæmir og setur lög í krafti þingmeirihluta síns.
Forsetinn hefur vald til að skipa utanþingsstjórn að því tilskyldu að ekki hafi tekist eða útlit sé á að takist að mynda stjórn sem nýtur stuðnings meirihluta Alþingis. Forsetinn hefur ekki vald til að fara gegn meirihluta Alþingis og setja ríkisstjórn af, slíkt er bara óskhyggja.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.9.2011 kl. 18:25
Axel, Alþingi/löggjafinn er ekki sjálfstætt fyrirbæri. Í 2.gr. stjórnarskrárinnar segir: "Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið".
Alþingi stýrir samt ekki framkvæmdavaldinu. Það gerir
forsetinn. Eða eins og segir í 15.gr. stjórnarskrárinnar; "Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn."
Það var ekki að ástæðulausu að núverandi framkvæmdavald vildi ráðast í stjórnarskrárbreytingar...
Kolbrún Hilmars, 13.9.2011 kl. 18:49
2. grein er svona orðuð því undirskrift forsetans þarf til að lög öðlist gildi.
Samkvæmt 15. gr. skipar forsetinn ráðherra, en það er aðeins formsatriði til fullgildingar á ákvörðun Alþingis eins og segir í 13. gr. að ráðherrar framkvæmi vald forseta.
Það segir líka í 21.gr. að forsetinn geri samninga við erlend ríki, enginn lítur samt svo á að það sé hans hlutverk, heldur Alþingis, þó svona sé þetta orðað.
Þessi 19. aldar stjórnarskrá okkar er barn síns tíma þar sem margar greinar hennar reka sig á hvers annars horn. Það var löngu tímabært að endurskoða hana eða semja nýja.
Það er raunar búin að vera nefnd á vegum Alþingis starfandi allan lýðveldistímann að basla við endurskoðun á Stjórnarskránni en hvorki gengið né rekið. Alltaf hefur strandað á pólitískum hagsmunum stjórnmálaflokkana sem skipuðu nefndina.
Stjórnlagaráðið er því nýbreytni og sorglegt ef við nýtum ekki vinnu þess til nauðsynlegra breytinga. Takist það ekki núna, hvenær þá og undir hvaða formerkjum? Á að fela Alþingi aftur að endurskoða stjórnarskránna og verja til þess öðru 66 ára tímabili, án árangurs.
Enginn segir að tillögur Stjórnlagaráðs séu fullkomnar, en þær eru vísir í rétta átt. En sú gamla er ekki á vetur setjandi, enda var hún bráðabirgðalausn á sínum tíma, sett í tímaþröng. Engin stjórnarskrá er svo fullkomin að hún þurfi ekki endurnýjunar við eftir reynslutíma og reglulega eftir það.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.9.2011 kl. 19:38
Axel, ég er alveg sammála þér um þörfina á endurskoðun stjórnarskrárinnar. En nýafstaðin tilraun var misheppnuð, illa ígrunduð skyndiákvörðun.
Samt er svolítið merkilegt að margir íslendingar halda að við búum við þingræði. Eða jafnvel framkvæmdavaldsræði. Sýnir bara hvað lýðræðið er viðkvæmt og óljóst fyrirbæri ef það er ekki ræktað.
Kolbrún Hilmars, 13.9.2011 kl. 20:03
Hvað er misheppnað við frumvarpið?
Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.9.2011 kl. 20:16
Axel, það að hvorki Alþingi né almenningur mun samþykkja það.
Kolbrún Hilmars, 13.9.2011 kl. 20:35
....og af hverju ekki?
Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.9.2011 kl. 20:44
Axel:
held samt að Guðni hafi alls ekki verið að gera lítið úr illindum Ólafs Thors og Sveins, en það sem hann sagði að þeir hefðu aldrei farið að rífast og munnhöggvast og opinberað þannig með berum hætti stirt samband sitt.
Skeggi Skaftason, 13.9.2011 kl. 20:47
Það vissu allir Skeggi, sem vildu vita af ósætti Ólafs og forsetans. En það var bara ekki til siðs í þá daga að setja slíkt á prent, líkt og núna. Hvort sem það var af einhverri ofurvirðingu sem borið var fyrir þessum mönnum eða öðru. Almenningur leit örlítið "royal" á forsetann í þá daga og það var ekki vel séð að "illa" væri skrifað um það "dót" allt.
Það væri fróðlegt að lesa og sjá fréttirnar af samskiptum Ólafs og forsetans í fréttum núna væru þeir atburðir að gerast í dag.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.9.2011 kl. 21:22
Axel,
við skulum nú ekki kenna sendiboðunum um, fjölmiðlunum, fyrir að setja á prent það sem Ólafur Ragnar segir í útvarpsviðtölum.
Kannski báðu mennirnir sjálfir, þ.e. Óli Thors og Sveinn, meiri virðingu fyrir Forsetaembættinu, en að þeir létu persónulegar og pólitískar illdeilur varpa skugga á það.
Skeggi Skaftason, 14.9.2011 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.