Með feigðina að förunaut
18.12.2013 | 07:14
Í tíð síðustu ríkisstjórnar gumuðu andstæðingar hennar gjarnan af því hvað stjórnarandstaðan væri öflug. En var hún það? Henni tókst að vísu ansi oft að trufla störf ríkisstjórnar og Alþingis. En það var ekki út á styrk stjórnarandstöðunnar heldur miklu frekar fyrir veikleika ríkisstjórnarinnar, sem studdist við minnsta mögulega meirihluta misseri eftir misseri. Ríkisstjórnin átti, nánast dag hvern, líf sitt undir því hve vel henni gekk að smala villikattastóðinu þann daginn.
En núna er komin ný ríkisstjórn sem styðst við vægast sagt mjög góðan meirihluta, 38 þingmenn af 63. Ríkisstjórn með þann þingstyrk í vöggugjöf ætti að öllu jöfnu að vera sterk stjórn og geta látið verkin tala og sett stjórnarandstöðuna alveg út á kannt.
En hefur það gerst, er stjórnin að sýna styrk sinn og stjórna í krafti hans? Nei því fer víðs fjarri, veikri stjórnarandstöðunni hefur, með sína 25 þingmenn, tekist að beygja sterku stjórnina og beinlínis stilla henni upp við vegg í mörgum málum. Og ekki veitir af.
Þetta væri ekki hægt, væri stjórnin jafn sterk og þingmeirihlutinn segir til um. Hugsanleg skýring á þessu ráðaleysi ríkisstjórnarinnar er skortur á samvinnu og trúnaði milli stjórnarflokkanna vegna togstreitu þeirra á milli. Þaðan er stutt í tortryggni og fullt vantraust manna í milli.
Hvað sem því líður þá er þetta verkminnsta stjórn lýðveldisins. Aðeins tvö veigamikil mál hafa verið afgreidd, eitt gæluverkefni frá hvorum flokki. Forgangsmál sjálfstæðismanna lækkun skatta og afnám gjalda á auðmenn og stórgróðaútgerðir og skuldatilfærsla Framsóknar, sem sennilega verður misheppnaðasta efnahagsaðgerð sögunnar og skilar landsmönnum aðeins auknum ójöfnuði og sárindum þegar upp verður staðið.
Um önnur mál ríkisstjórnarinnar og aðrar úrlausnir ríkir í besta falli vopnaður friður milli stjórnarflokkanna og á meðan situr veik stjórnarandstaðan sterk við stýrið eftir að hafa náð fram m.a. desemberuppbótinni, endurskoðun veiðigjalda og afnámi sjúklingaskattana.
Silfurskeiðastjórnin ber í sér feigðina og hefur sennilega þegar lagst banaleguna. En hún mun örugglega reyna, af veikum mætti næstu daga, að þakka sér að stjórnarandstaðan kom vitinu fyrir hana.
Samþykkt að greiða desemberuppbót | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:06 | Facebook
Athugasemdir
Axel þú veizt eða ættir að vita, að þingstyrkur hefur ekkert að segja í sambandi við störf þingsins. Stjórnarandstaða á hverjum tíma hefur þennan rétt samkvæmt þingsköpum að setja þingmál í gíslingu með málþófi. Þess vegna verður að semja um störf þingsins. Ekki vegna þess að meirihlutinn sé ósamstíga.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.12.2013 kl. 09:04
Þetta er undarleg skýring Jóhannes. Stjórnarþingmenn samþykkja, að þínu mati, hundruð milljóna viðbótarútgjöld eingöngu til að komast tímalega heim fyrir jólin og fá órofið jólafrí fram í endaðan janúar. En ekki fyrir málefnið sem slíkt. Það væri sannarlega sjúkt!
Ég hef ekki vanist því að hægt sé að liggja á meltunni heima vikum saman ef verk er að vinna. Það þykir sjálfsagt og eðlilegt að verkalýðurinn kappkosti að bjarga verðmætum, eins og það er kallað, sama hvað dagarnir heita. Þingheimi er engin vorkunn að sitja fram að jólum og vinna á milli hátíðanna, nái þeir ekki að klára fyrir jól!
Axel Jóhann Hallgrímsson, 18.12.2013 kl. 09:33
Er ekki einhver meinvilla í þessu hjá þér Axel? Stjórnarþingmenn samþykktu kröfur stjórnarandstöðunnar vegna þess að það var aldrei ætlunin að gera neitt annað. Hins vegar þurfti að leggja þetta út sem brauðmola fyrir stjórnarandstöðuna til að stoppa málþóf sem var fyrirséð. Sem aftur leiðir til þeirrar ályktunar að í raun sé ekki mikill munur á hvaða flokkar fara með völdin hverju sinni. Þeir eru í grundvallaratriðum sammála um að breyta engu enda bera þeir jafna ábyrgð á að hafa búið til þetta þjóðfélagskerfi. Þessi sýndarágreiningur sem við verðum vitni að er bara populismi og ekkert annað.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.12.2013 kl. 10:13
Nei núna fórstu alveg með þetta Jóhannes. Það væri gaman að trúa því að Framsóknarsjallar séu viljandi farnir að gera sig að fíflum og aðhlátursefni fyrir framan alþjóð til að blekkja stjórnarandstöðuna. En því miður held ég að það sé hámark bjartsýninnar að ætla þeim slíka fórnfýsi.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 18.12.2013 kl. 11:10
Jamm, svona horfir þetta við mér enda hef ég jafn lítið álit á öllu þessu liði. Þú ættir að prufa að skríða upp úr skotgröfinni Axel. Ég held þú hefðir gott af því. Þessi andlega eymd sem ríkir í skotgröfunum er mannskemmandi.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.12.2013 kl. 11:27
Ef þú skoðar bloggið hjá mér Jóhannes aftur í tíman, þá sérðu að ég gagnrýndi Jóhönnustjórnina ekkert síður en stjórnarandstöðuna, væri ástæða til. Það verður eins núna ég mun hrósa stjórninni vinni hún til þess. Það hefur hún ekki gert fram að þessu. Meðan það gerist ekki verð ég í "skotgröfunum".
En takk fyrir innlitið og innleggin. Það væri lítið gaman af þessu vafstri ef allir væru sammála.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 18.12.2013 kl. 11:49
Jú, þingstyrkur hefur mikið að segja. En í annan stað skipti líka máli hve vel meirihlutinn stendur saman um ákveðin mál. Það ískyggilega núna er hve mikinn meirihluta ríkisstjórnin hefur - og það er alveg vitað hvernig framsjallar starfa á síðari árum. Allir skulu fylgja foryngjanum. Annars verður gefið út á þá veiðileifi.
Síðasta ríkisstjórn var lengst af nánast minnihlutastjórn sem þurfti að semja um öll sín mál.
Í byrjun klikkuðu sumir þingmenn nánast í byrjun. Þeir gáfu sjöllum og framsókn færi á sér og framsjallar fengu blóðbragð á tennurnar. Eftir það voru framsjallar bara eins og dýr merkurinnar í þingsal.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.12.2013 kl. 11:56
Takk fyrir þetta ágæta innlegg Ómar.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 18.12.2013 kl. 12:15
Þá get ég einbeitt mér að því að hræra í mörnum. það verður einhver að hugsa um smáfuglana þegar svona níðingar stjórna landinu
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.12.2013 kl. 12:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.