Fálkaorðan
1.12.2007 | 21:49
Nú líður að veitingu Fálkaorðunnar um áramótin. Ef að líkum lætur verða embættismenn og aðrir starfsmenn Ríkisins framalega á lista nú sem áður. Slíkar færibanda orðu veitingar til embættismanna, fyrir það eitt að hafa hengt jakkana sína á ráðuneytisstólbök og eða verið á launaskrá Ríkisins, hefur veikt gildi og ímynd orðunnar í augum almennings.
Ef hún heldur áfram að vera sá árlegur bónus til ríkisstarfsmanna sem hún virðist hafa verið, má alveg eins sleppa þessum fréttum í sjónvarpi af ánægjulegum orðuhreppingum og senda orðuna reglubundið með launaumslaginu. Nema það sé hluti af forframningunni að birta myndir í sjónvarpi af þessum hetjum samfélagsins, sem hafa á liðnu ári átt hvað mestan og bestan þátt í því að skapa á landi þessu aukið og bætt samfélag með því einu að vera áskrifendur að kaupinu sínu, án þess endilega að hafa endilega unnið fyrir því.
Þetta er farið að minna á Sovét, þar sem orður voru hengdar í það óendanlega á menn í hernum og stjórnkerfinu, uns þeir gátu vart staðið undir þunganum. Það án nokkurrar skiljanlegrar ástæðu.
Hér er ég ekki að gagnrýna Forsetaembættið sem slíkt eða forsetann. Það er orðuveitingarnefnd sem ákveður þetta. Þar sitja fyrrverandi og núverandi embættismenn sem passa sitt.
Orðunefnd skipa eftirfarandi:
Ólafur G. Einarsson, fyrrv. ráðherra og fyrrv. forseti Alþingis, formaður orðunefndar
Jón Helgason, fyrrv. ráðherra
Rakel Olsen, framkvæmdastjóri
Ólafur Egilsson, fyrrv. sendiherra
Þórunn Sigurðardóttir, stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík
Örnólfur Thorsson, orðuritari
Um orðuveitinguna segir m.a. á heimasíðu forsetans:
Forseti Íslands sæmir íslenska ríkisborgara fálkaorðunni tvisvar á ári, 1. janúar og 17. júní. Orðuþegar hvert sinn eru að jafnaði ríflega tugur.
Í ljósi þessa kvóta er ekki mikið svigrúm fyrir alþýðuhetjur þessa lands að detta inn á borð orðunefndar sem verðugir kandídatar hinnar íslensku Fálkaorðu. Í mínum huga á röðunin að vera alveg þveröfug. Það kæmi mér ekki á óvart þótt öll þau sem í orðuveitingarnefnd sitja hafi fengið orðuna innan 5 ára ef einhver þeirra hafi ekki þegar fengið hana.
Nei Fálkaorðan á að sjálfsögðu að vera það tákn sem við öll getum verið stolt af. Tákn þess að við metum störf og framlag þiggjanda í þágu þjóðar þannig, að við getum kinnroðalaust nælt þetta æðsta merki Íslands í barm þeirra. Ekki hef ég trú á því að heltin af orðuþegum undanfarnandi ára geti horft kinnroðalaust í augu þjóðarinnar og sagt: Ég átti þetta skilið.
Í umsögn um orðuna segir ennfremur m.a.:
Öllum er frjálst að tilnefna einstaklinga sem þeir telja verðuga orðuþega. Sérstök nefnd, orðunefnd, fjallar um tilnefningar til orðunnar og gerir tillögur til forseta um hverja skuli sæma henni. Nánari upplýsingar um starfsemi orðunefndar veitir orðuritari og hann veitir einnig viðtöku tillögum um orðuveitingar. Orðuritari er nú ávallt starfandi forsetaritari.
Ég undirritaður legg það til við orðuveitingarnefnd að Hallbjörn J. Hjartarson Skagaströnd hljóti ekki minna en stórriddarakross fyrir framlag sitt til Íslenskrar tónlistar. Og ekki hvað síst sökum þess að hann hefur haldið úti útvarpsstöð á Skagaströnd í 15 ár, sem náðst hefur allt frá Holtavörðuheiði, norður um allar Strandir, um báðar Húnavatnssýslur og Skagafjarðarsýslu og allt að mörkum Öxnadalsheiðar. Þessi stöð hefur verið íbúum hlustunarsvæðisins ómæld ánægja svo ekki sé talað um þann fjölda fólks sem rennir í gegn á bílum sínum og nýtur þess eyrnakonfekts sem stöðin býður uppá . Útvarpsstöðina hefur hann svo til alfarið rekið fyrir eigið fé. Litlar eða engar tekur hafa verið af rekstrinum. Hallbjörn er ekki maður sem hengir jakka sinn á stólbak einhverrar stofnunar. Hallbjörn er hugsjónamaður, hann er maður sem lætur draumana rætast, draumanna sem við þörfnumst svo öll.
Ég legg það til að allir sem styðja þetta mál sendi áskorun þess efnis á forseti@forseti.is .
Hef fengið póst frá forsetaembættinu að ekki sé tekið á móti tilnefningum í rafpósti. Það verður að berast í venjulegum pósti og gera "skilmerkilega grein fyrir tilnefningunni."
Heimilisfangið er:
Orðunefnd
Sóleyjargötu 1
150 Reykjavík
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.