Kappróðrabátarnir Gustur og Gola.

Til meiriháttar dýrgripa í eigu Skagstrendinga verður að telja kappróðrabáta staðarins þá Gust og Golu. Þeir voru smíðaðir fyrir 60 árum af Nóa, þeim þekkta bátasmið á Akureyri. Þetta eru óvenju fallegir, vel lagaðir og formaðir bátar, völundarsmíð, algerir dýrgripir. Með bátana og umsjón þeirra lengst af fór svo kallað Sjómannadagsráð. Þótt það húsnæði sem hýsti bátana, uppfyllti ekki ströngustu kröfur, virðast þeir hafa staðist tímans tönn allsæmilega.

Svo langt sem ég man eftir mér hafa bæjarbúar talað um Gust og Golu með virðingu og stolti.

Fyrir allnokkrum árum tók Slysavarnafélagið á Skagaströnd að sér framkvæmd Sjómannadagsins á staðnum, til fjáröflunar og þá um leið umsjón bátana.  En nú hafa bátarnir misst húsnæði sitt og eru á hrakhólum.

Þegar ég var á ferð á Skagaströnd á Kántrýdögum sá ég að þeir höfðu þeir ekki verið teknir á land aftur eftir hátíðahöld sjómannadagsins og lágu eins og hver önnur reköld í höfninni hálffullir af sjó og umhirðulausir. Það var döpur sjón.  Ég var á Skagaströnd nú um helgina og rak í rogastans þegar ég sá hvernig komið var fyrir Gusti og Golu. Nú hafa þeir verið teknir á land og þá var farið úr öskunni í eldinn.

 ajh 054ajh 053

Þeim hefur verið skotið á bak við slorgám, milli Ketilhússins og Einbúans. Það var rétt eins og þeim hefði verið hent eins og hverju öðru rusli svo lítið bæri á. Þarna liggja þeir umkomulausir og eymdin ein með árum stýri og öllum búnaði í grasinu.

ajh 052ajh 051

Fyrirlitningin og virðingarleysið sem þeim er sýnd er með ólíkindum, ekki var haft fyrir því að setja undir þá hlunna og búkka svo þeir stæðu réttir og frýir við jörð. Það er vísasti vegurinn að kalla fram fúa að láta við liggja í grasi. Þeir hefðu betur verið í höfninni áfram. Ekki er óeðlilegt miðað við áhugaleysið fram að þessu að ætla að þarna liggi þeir einhvern tíma, nema inn í málið verði gripið.

ajh 049

Þeir sem Slysavarnardeildinni stjórna nú um stundir virðast hafa mestan áhuga á tryllitækja þætti starfseminnar en öllu minni áhuga á  öðru sem með lafir. Ég hef heyrt að sumir þjáist mjög af bakverkjum þegar eitthvað þarf að gera en séu hinir hressustu þegar þarf að þenja bíla deildarinnar eða þeytast um fjöll á fjórhjólum. Deildin er að sögn að þróast í þröngan sérhagsmunaklúbb fámennrar klíku.

ajh 050

Ekki verður annað séð en þeim sem trúað er fyrir kappróðrabátunum, sé alveg sama um þá og virðast ekki hafa af þeim annað en ama. Þetta er til háborinnar skammar og þeim sem hlut eiga að máli til minnkunar. Nú er mál að linni og þeir sem til þess hafa vald og getu hysji upp um sig leppana og taki í taumana.  Það verður að taka bátana úr umsjá þessara manna og koma þeim í viðunandi húsnæði, ekki seinna en í gær, ef ætlunin er að þeir eigi sér einhverja framtíð.

 

Þeir eiga sér ekki framtíð ef hugmyndin er að geyma þá í lítt eða illa loftræstum gámi út á túni, eins og spurst hefur.

 

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Illt er ad heyra Axel....

Gulli litli, 1.9.2008 kl. 22:42

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Rétt er það Gulli en svona er þetta á Skagaströnd í dag.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 1.9.2008 kl. 22:56

3 identicon

Sæll Axel.

Það er þarft verk hjá þér að taka upp hanzkannn fyrir Golu og Gust. Þessir bátar eru að sönnu mikil menningarverðmæti og mér var nokkuð brugðið, ekki síður en þér, þegar ég sá þá enn á floti tveimur mánuðum eftir sjómannadag.

Þessir bátar eiga það skilið að þeim sé sómi sýndur í allri umhirðu og geymslu. Ég geri mér ekki grein fyrir hverjir eru raunverulegir eigendur bátanna, en allavegana er Slysavarnarfélagið það ekki. Ef bátarnir eru í umsjón þess félagsskapar, þá ber þeim skilyrðislaust að skjóta yfir þá skjólshúsi og sýna þeim fullan sóma í viðhaldi öllu, ella segja sig frá vörzlu þeirra tafarlaust.

En kannski hefur nýja fallbyssan tekið alla orku frá "rétt búsettum" Skagstrendingum. Mér hefur skilist að "við hinir", sem höfum kosið okkur það hlutskipti að vera ekki eilífðar heimagangar, megum helzt ekki hafa neinar skoðanir á málefnum okkar Skagstrendinga.

Kveðja,

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 22:00

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Sæll Kári.

Þakka innlitið og undirtektir. Það er undarlegt að þeir einu sem hafa áhyggjur af bátunum eða skoðun á málinu séu þrír brottfluttir Skaggar. Ekki hef ég heyrt múkk frá einum eða neinum á Skagaströnd.

Kannski eru menn að losa sig við þyrnótta fortíðina, slor og slark og stefna á nýja tíð. Blómumprýdda tíð þar sem menn lifa af listum og annarri hámenningu.

Kveðja,

Axel Jóhann Hallgrímsson, 2.9.2008 kl. 22:36

5 identicon

Sæll Axel!

Þessir bátar eiga eitthvað betur skilið, þeir eru hluti af menningu Skagastrandar, við sem vorum aldir þarna upp eigum yfirleitt góða minningu um þessa báta, það var beðið með eftirvæntingu á vorin að þeir yrðu sjósettir svo hægt væri að æfa sig fyrir Sjómannadaginn, stofnaðar voru unlingasveitir eða sveitir frá hinum ýmsum fyrirtækjum til að etja keppni við hina galvösku togarasjómenn.   Ef einhver vandræði eru með húsnæði fyrir þessa báta þá er hægt að koma þeim fyrir í góðri geymslu hér vestur í Hrútafirði, annars held ég að menn hljóti að fara að koma þeim fyrir á góðum stað á Skagaströnd, þetta getur verið hluti af listinni.

Kristinn Guðmundsson (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 00:26

6 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Sæll Kristinn og góðar kveðjur í Hrútafjörðinn.

Þakka þér gott innlegg. Satt er það, margir eru þau orðin í tímans rás sem hafa lifað svita, tár og andnauð undir árum Gusts og Golu. Fagnað sætum sigri eða sopið af súrum bikar ósigurs. Sá sem þetta skrifar var í ófá skipti með skjálfta í leggjum og blóðbragð í munni eftir atganginn.

Ég hefði talið að sveitarfélagið yrði að koma til lausnar á málinu, því ef einhver eigandi er að bátunum þá er það Skagaströnd. Það ætti að standa því nær að sjá húsnæðislausum lögbýlingum í hreppnum til 60 ára fyrir húsnæði en einhverjum farandlistamönnum frá Logalandi, Ástralíu eða Langtíburtistan eða hvaðan það ágæta fólk annars kemur.

Gott tilboð þitt um húsnæði hlýtur að verða tekið til athugunar ef nærtækari lausnir reynast mönnum ofviða. 

Bestu kveðjur,

Axel Jóhann Hallgrímsson, 3.9.2008 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.