Hraðsubull!
20.4.2009 | 14:46
Ólafur Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Hellissands hf. og formaður Útvegsmannafélags Snæfellsness segir sjóða á mönnum á landsbyggðinni vegna hugmynda um fyrningu aflaheimilda.
Ólafur segir m.a.: Það sýður á mönnum vegna þessa 5% landsbyggðarskatts, sem við köllum þær fyrningarhugmyndir aflaheimilda sem Samfylkingin og VG hafa verið að boða. Þær eru aðför að ábyrgri fiskveiðistjórnun, aðför að rekstargrundvelli sjávarútvegsfyrirtækja, aðför að atvinnuöryggi sjómanna og fiskverkafólks og síðast en ekki síst ávísun á verðfall eigna fólks í NV-kjördæmi.
Þvílík samsuða á bulli, rökleysu og öfugmælum.
Ég held að ekki sjóði á öðrum landsmönnum en núverandi handhöfum aflaheimilda. Það er undarleg uppsetning að kalla það aðför að atvinnuöryggi sjómanna og fiskverkafólks verði kvótinn innkallaður á 20 árum og skilað aftur til þjóðarinnar. Er Ólafur að halda því fram að þessum 5% aflaheimilda sem innkölluð verða árlega, verði hent og engin fái í framtíðinni að veiða þann fisk?
Þessi málflutningur er með ólíkindum, ekki þarf annað en fara úr einu sjávarplássinu í annað og skoða þær afleiðingar sem frjálst framsal aflaheimilda hefur haft á byggðirnar.
Ekkert í Íslandssögunni að náttúruhamförum meðtöldum, hefur farið jafn eyðandi hendi um sjávarplássin en frjálst framsal kvótakerfisins, ekkert hefur orsakað meiri eignaupptöku, ekkert hefur haft verri félagslegar afleiðingar fyrir íbúa sjávarplássanna, sem hafa horft á kvótann, lífsbjörgina hverfa úr byggðunum.
Kvótagreifarnir seldu fjöregg þorpanna, hurfu á braut með fullar hendur fjár en eftir sat fólk án atvinnu og oftar en ekki bundið átthagafjötrum óseljanlegra eigna.
Þetta er það sem Ólafur og félagar bjóða uppá og vilja viðhalda og þróa áfram, sjálfum sér til hagsbóta, skítt með aðra. Er þetta það sem þjóðin vill?Það er öllu nær sanni að á þjóðinni sjóði vegna Ólafs og hans meðreiðarsveina.
Sýður á mönnum vegna 5% landsbyggðarskattsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:07 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er hárétt hjá þér.
Það vofir alltaf yfir sjávarbyggðunum að sægreifarnir selja kvótann úr byggðalaginu og það hefur gerst hringinn í kringum landið.
Það má segja að stanslausar náttúruhamfarir hafi dunið á Vestfirðingum síðustu tuttugu ár, kvótahamfarir.
Við höfum allt að vinna með breytingum á kvótakerfinu og engu að tapa.
Rögnvaldur Þór Óskarsson, 20.4.2009 kl. 14:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.