Sjálfstæðisflokkurinn er gersamlega út á túni, stefnulaus, ráðvilltur og veruleikafyrtur
20.4.2009 | 20:06
Ég hlustaði á pistil sem Jón Magnússon flutti á útvarpi Sögu eftir hádegið í dag. Við hlustunina varð mér endanlega ljóst hvers vegna Jón hefur aldrei þrifist í pólitísku samstarfi. Það er sama hvar Jón hefur fundið sér náttstað, allstaðar hefur hann fyrr en síðar komist upp á kant við aðra og þá ekki síður samherja en andstæðinga.
Það gilti einu hvar Jón bar niður í þessum pistli sínum, öllu snéri hann á haus, meira að segja hans eigin sannfæringu frá tíð hans í Frjálslindaflokknum.
Jón sagði m.a. að Sjálfstæðisflokkurinn væri eini flokkurinn sem hefði skýra stefnu í peninga- og gjaldeyrismálum! Ja, mikill er andskotinn, eins og konan sagði.
Grunnurinn í þessari skýru peningamálastefnu flokksins eru í besta falli óljósar, óútfærðar og illa grundaðar hugmyndir um að taka einhliða upp Evru. Evrópusambandið hefur áður slegið allar slíkar hugmyndir út af borðinu, það breytist ekki hversu oft sem Sjálfstæðismönnum kann að detta þessi snilld í hug.
Nýjasta viðbótin við snilldina var sú hugljómun að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að leggja málinu lið. Hversu raunhæft ætli Valhallar vitringarnir hafi í raun og veru talið þann möguleika að AGS myndi aðstoða okkur við einhliða upptöku á Evrunni í óþökk Evrópusambandsins?
Mun líklegra mátti telja að Sjálfstæðisflokkurinn færi að boða Marxísk fræði áður en það gerist. Enda hefur AGS nú skotið þessa efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins í kaf. Flokkurinn verður núna að prjóna nýtt viðhengi við ráðaleysið.
Gefum okkur að þessi leið verði farin. Í umferð eru 22 milljarðar í seðlum og mynt í Íslenskum krónum. Í startinu þarf að skipta öllum krónunum út fyrir Evrur. Til þess þurfum við að kaupa Evrur.
Með hverju á að borga fyrir þær? Er hugmyndin að greiða fyrir þær með krónum? Eða á að skipta á þeim og ónotaðri viðskiptavild og öðrum loftbólu hagstærðum þess fjármálakerfis sem nú er hrunið og hefur valdið þjóðinni mesta böli sem hún hefur staðið frammi fyrir frá upphafi landnáms?
Annað sem Jón Magnússon deildi með hlustendum af sinni dýpstu sannfæringu var sú staðreynd að það er Samfylkingunni að kenna hversu skýr stefna Sjálfstæðisflokksins er í þessum málaflokki. Ef hún hefði hokrað áfram í stjórnarsamstarfinu, en ekki hrokkið upp af standinum, þá hefði Landsfundur Sjálfstæðisflokksins að öllum líkindum tekið annan pól í hæðina og lagt blessun sína yfir Evrópustefnu Samfylkingarinnar!! Svo mörg voru þau orð.
Það vantar mikið á að ég sé sannfærður Evrópusinni. Mig skortir allar forsendur til að geta tekið afstöðu með eða móti. Það hafa komið fram miklir spámenn og vitringar sem vita allt um Evrópusambandið, ýmist með eða á móti.
Sannleikurinn verður almenningi ekki ljós nema að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og séð hvað samningar í kjölfarið færa okkur. Fyrr vitum við ekki hvort berin séu súr eða sæt.
Það er ábyrgðarhluti af stjórnmálamönnum, sem vilja láta taka sig alvarlega, að hafna alfarið að óathuguðu máli þeim möguleika að Evrópusambandsaðild geti verið vænleg leið fyrir Ísland út úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.
En um eitt virðast allir flokkar vera sammála. Það er að lokaákvörðunartaka um aðild verði í höndum þjóðarinnar. Ef þeir meina það, hver er þá áhættan að kanna málið og afhenda svo þjóðinni málið til ákvörðunar?
AGS getur ekki haft milligöngu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.