Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn
1.7.2012 | 11:40
Ég óska forsetanum til hamingju með sigurinn. Ég óska líka Hannesi Hólmsteini og Sjálfstæðisflokknum til hamingju með sigur þeirra frambjóðanda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá lýðveldisstofnunni, rembst eins og rjúpan við staurinn, að hlutast til um það á einn eða annan hátt hver sæti Bessastaði.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf, þar til núna, þurft að lúta í gras í þeirri baráttu. En núna rættist langþráður draumurinn og þeir unnu Bessastaði með því stórfenglega herbragði að fylkja sér að baki fyrrverandi formanni Alþýðubandalagsins, höfuð Óvininum sjálfum. Manninum sem forðum fór um landið á rauðu ljósi, manninum sem hefur aðeins einu sinni sagt satt á öllum sínum ferli, þegar hann sagði Davíð Oddson haldinn skítlegu eðli.
Það er því von að Hannes Hólmsteinn brosi hringinn og að kátt sé í Valhöll. Það var kómísk og sannarlega söguleg stund að sjá í sjónvarpinu í nótt inn í helbláa Valhöll, hvar menn fögnuðu ákaft árangri Ólafs Ragnars og svolgruðu mjöðinn af hofmóði miklum.
Ólafur Ragnar hefur víða komið við í pólitíkinni á sínu flokkaflakki, gengið í nánast alla flokka nema Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur núna leyst það vandamál með því hreinlega að ganga í heild sinni í Ólaf. Hætt er við að hnökrar og brestir muni koma í þann sælusamruna, fljótlega eftir að Sjálfstæðisflokkurinn fær lyklana að Stjórnarráðinu á næsta vori, gangi skoðanakannanir eftir.
![]() |
Segir sigur Ólafs ósigur stjórnarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)