Fjandfrændi

Þegar ég skrifaði mitt fyrsta blogg voru í slóð minni byrjandamistök. M.a.  „fyrirgaf“ ég fjandfrænda mínum allar hans misgjörðir í minn garð. Sem voru aðallega illt umtal, rógur og lýi og tilraun til mannorðs morðs, svo fátt eitt sé talið. Ég hélt að ég væri loksins tilbúinn að fyrirgefa og lét vaða. Það voru mikil mistök.

Ég tók þessa grein út af blogginu því ég skammaðist mín í sannleika sagt fyrir að halda að ég hefði meyrnað svona og ekki hvað síst fyrir að hafa opinberað það.

Ég bið hlutaðeigandi innilegrar afsökunar á þessu frumhlaupi mínu og lofa því að þetta mun ekki koma fyrir aftur og meina það.

Ég  áttaði mig á því að ég hafði lesið sjálfan mig algerlega rangt. Eftir að ég hafði látið frá mér þessi skrif var eitthvað að angra mig meir og meir. Svo rann upp ljósið.  Það hafði aðeins fallrið ryk á minninguna,  hjarta mitt er ekki tilbúið í svona útlát og verður í sannleika sagt, sennilega aldrei. Það er og verður algert sáluhjálparatriði að leggja fæð á þennan fjandfrænda minn ævilangt.

 Það segja  mér vitrari menn, að fyrir það sem hann iðkar virka daga vikunnar dugi það honum ekki að sækja kirkju á sunnudögum til að komast á betri staðinn. En þar sem ég er hreint ekki  kirkjunnar maður ætla ég ekki að leggja mat á það.

Úr því herbergi, sem þessar línur eru skrifaðar, er hreint úrvalsútsýni yfir í vestari endann á Bankastrætinu og sem ég horfi þangað koma mér í hug orð vinar míns, Sveinbjarnar Blöndal, sem voru að vísu sögð um annan stað og af öðru tilefni. „Að tilfinningin væri eins og að hafa útsýni yfir anddyri andskotans“.

Sá sem þar býr verður sennilega ekki þekktastur fyrir að sjá eða finna fyrir bjálkanum í eigin auga þótt hann geti  vart svefni haldið yfir flísinni í auga náungans.  Og vart  verður sagt  að „eðal“  eplið hafi rúllað langt.


Kominn heim!

Heddý, konan mín fyrrverandi þurfti að flytja á milli húsa á Skagaströnd. Hana vantaði aðstoð og leitaði til mín. Samband okkar hefur, sem betur fer, alltaf verið gott eftir og þrátt fyrir skilnaðinn.

Þar sem þetta var rétt fyrir jólin og þau alveg að ganga í garð, bauð hún mér að vera yfir jólin og áramótin. Sem ég þáði með þökkum. Inga dóttir okkar og hennar kærasti  Carsten Timmerman frá Danmörku voru með okkur. Þetta var háðtíðleg stund, en það vantaði eitthvað. Það vantaði fjörið, það vantaði  börnin.

Þetta var í  fyrsta skipti  í langan,  langan tíma sem engin börn voru í okkar jólum. Hálf  tómlegt.  Litli Axel Þór hennar Ingu er hjá pabba sínum þessi jól en kemur á annan í jólum og verður hjá mömmu sinni,  afa og ömmu fram yfir áramót.

Kara Lind hennar Bryndísar er hjá henni og hennar manni, honum Magga í nýju íbúðinni þeirra í Grafarvoginum.

Hallgrímur og Nicole eru og halda sín jól í Kópavoginum. Þau eiga von á sínu fyrsta barni í endaðan febrúar.

Mér hefur ekki liðið betur í langan tíma,  en þessa daga á Skagaströnd. Það er gott að vera „kominn heim“ þótt tímabundið sé. Þegar maður, eftir langa fjarveru,  stendur á „Húnverskri grund“ eins og sagt er í útvarpinu okkar hér við flóann, þá skynjar maður hversu djúpt ræturnar raunverulega liggja.

 

Bloggfærslur 25. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.