„Guð blessi Ísland“ , var það ósk eða staðreynd?

„Fréttaskýring: Athafnaleysi þriggja ráðherra jafngilti vanrækslu.“

Undarleg er hún þessi setning. Hvað getur  vanræksla verið annað en skortur á nauðsynlegum viðbrögðum, athöfnum eða aðgerðum o.s.f.v.,  hvað sem góðum ásetningi  kann að líða. Ráðherrar hafa í gegnum tíðina án efa og óhjákvæmilega gerst sekir um ýmiskonar vanrækslu en slíkt þarf í sjálfu sér ekki að vera alvarlegt nema af hljótist tjón.

Ekki fer á milli mála að tjón hlaust af þeirri vanrækslu sem til umræðu er, ekki lítið tjón eða smávægilegt, ekki nokkuð, ekki verulegt, ekki mikið - heldur tröllaukið og skelfilegt tjón.

Hvort sem menn vilja kalla það viðsnúning, bakslag, áfall, hamfarir eða hörmungar er ljóst að annað eins hefur aldrei yfir Ísland riðið frá upphafi byggðar.  Það skelfilegasta er að tjónið er allt manngert og heimasmíðað.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að þrír ráðherrar hefðu með aðgerðarleysi gerst sekir um vanrækslu. Geir H. Haarde forsætisráðherra, Árni Mathieesen fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.

Ábyrgðin liggur auðvitað óhjákvæmilega þyngst á forsætisráðherranum , sem verkstjóra stjórnarinnar og formanni og  ábyrgðarmanni annars stjórnarflokksins. Ábyrgð fjármálaráðherrans liggur í augum uppi stöðu hans vegna. Viðskiptaráðherrann er  auðvitað ábyrgur sem fagráðherra viðskipta og bankamála þótt fram hafi komið að honum hafi vísvitandi verið haldið utan við umræður og ákvarðanatöku.

Rannsóknarnefndin fór mildari höndum um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og taldi hana ekki beint ábyrga sem utanríkisráðherra. En það verður ekki framhjá því litið að hún var formaður annars stjórnarflokksins og ábyrgðarmaður hans og sem slík ber hún að sjálfsögðu fulla ábyrgð. Auk þess tók Ingibjörg sannarlega þátt í því, ásamt Geir, Árna og Seðlabankastjóranum,  að leyna upplýsingum fyrir viðskiptaráðherranum og hindra að hann rækti skyldur sínar.

Þáttur Seðlabankastjórans í því máli, þótt aðrar hans gerðir séu látnar liggja á milli hluta, er algerlega tekinn  út fyrir sviga og að engu gerður.  Af hverju, er maðurinn Guð, ósnertanlegur?

Það er mitt mat að sekt Björgvins G. Sigurðssonar sé minnst þeirra sem ég hef talið til sögunnar. Hin, forsætisráðherrann og þáv. formaður Sjálfstæðisflokksins Geir Haarde, fjármálaráðherrann Árni Matt, utanríkisráðherrann og þáv. formaður Samfylkingarnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Seðlabankastjórinn og þáv. formaður bankastjórnar Seðlabankans Davíð Oddson, beri öll ábyrgð að jöfnu.

En því má ekki gleyma að tjónið varð ekki til sem slíkt í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar undir forsæti Geirs H Haade, þótt það gerðist þá. Forsendur þess voru allar hannaðar og smíðaðar í ríkisstjórnartíð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, lengst undir forsæti Davíðs Oddsonar, með stuttu og örlagaríku inngripi Halldórs Ásgrímssonar. Hefur einhver gleymt honum?

Er ábyrgð þeirra og málið ekki nægjanlega alvarlegt til ákæru fyrir Landsdómi.  Hvað heldur þú?  Ef ekki,  tilhvers er þá Landsdómur og hvað gæti hugsanlega orðið nægjanlega tröllaukið fyrir göfugan tilgang hans?


mbl.is Athafnaleysi þriggja ráðherra jafngilti vanrækslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Góður samála því með Davíð, Ingibjörgu og Halldór einnig komu Jóhanna og Össur mikið að málum fyrir og eftir hrun því ættu tvö síðastnefndu að víkja nú þegar!

Sigurður Haraldsson, 11.9.2010 kl. 13:29

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Sigurður, fyrningartími ráðherraábyrgðar er 3 ár, og að hámarki 6 mánuðir fram yfir kosningar þannig að ákæra aftur fyrir 2007 er ekki inn í myndinni lögum samkvæmt.

Ráðherrar bera lögum samkvæmt ekki ábyrgð út fyrir sitt ráðuneyti.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 11.9.2010 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband