Hvað skal segja?
16.9.2010 | 10:47
Það eru blikur á lofti þessa dagana í Íslenskri pólitík. Á Alþingi standa þingmenn frammi fyrir þeim vanda að þurfa að ákæra samherja og vini fyrir vanrækslu og embættisafglöp. Þó það sé ekki öfundsvert hlutskipti verður ekki undan því vikist, því svo mæla lög fyrir um. Stundum þarf einfaldlega að gera fleira en gott þykir, líka á Alþingi.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar í heild sinni að bregðast skyldum sínum til að þjóna sérhagsmunum og er fátt fréttnæmt eða nýtt í því. En mér bregður að mörgum Samfylkingarmönnum virðist einnig súrna þessi skylda sín í augum og virðast á hröðu undanhaldi frá samvisku sinni.
Margt bendir því til þess að samstaða sé í uppsiglingu milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að sópa í heild sinni út af borðinu þeirri skyldu Alþingis að ákæra fyrir Landsdómi. Því til rökstuðnings er talað um að lögin séu úrelt og sýkna sakborninga fyrir Landsdómi yrði áfellisdómur yfir Alþingi! Eins og þessi staða sé það ekki?
Það er spurning hvort þessir flokkar eigi þá ekki hreinlega að stíga skrefið til fulls og mynda saman ríkisstjórn. Víst er að það myndi gleðja margan íhaldsmanninn, sem myndu þá stoltir nefna Samfylkinguna sínu rétta nafni og hætta að tala um Samspillinguna, þá fyrst þegar hún hefði unnið fyrir þeirri nafngift.
Verði ekki ákært eru lögin um ráðherraábyrgð einskis nýt og öllu siðferði og aðhaldi ráðherra á haug kastað. Vandséð er hvaða tilfelli í framtíðinni gæti kallað á framkvæmd ráðherraábyrgðar, gerist það ekki núna.
Hvað segir grasrótin í Samfylkingunni, er hún sátt við þessa þróun mála? Eru Samfylkingarmenn almennt þeirrar skoðunar að ákærur eigi að fara eftir flokksskýrteinum? Erum við komnir niður á það plan? Til hvers kjósa menn þá Samfylkinguna, væri ekki hreinlegra að kjósa helvítis Sjálfstæðisflokkinn og spillinguna beint, ef þetta er leiðin?
Fari Alþingismenn ekki að lögum og hlaupast frá skyldum sínum í þessu máli, rjúfa þeir öll grið.
Ég er rólyndismaður að upplagi og seinþreyttur til vandræða, en fari þetta svona, þá tekur steininn úr. Hugtakið bylting hlýtur að fá vaxandi vægi í hugum landsmanna.
Yrðu yfirheyrðir og gætu kallað til vitni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:52 | Facebook
Athugasemdir
Samkomulag SF og Sjálfstæðisflokks um að sópa ákærum út af borðinu, jafngildir stríðsyfirlýsingu gagnvart þjóðinni. Getur verið að SF telji það vera sem þjóðin þarf á að halda nú ?
Sjálfstæðisflokkurinn vill auðvitað valdaelítuna ósnertanlega.
En ef SF ætlar að rotta sig saman með D hvað þetta varðar, þá verður hér allt vitlaust.
Hélt satt best að segja að SF hefði lært sína lexíu í samsarfinu við D hér um árið.
hilmar jónsson, 16.9.2010 kl. 11:42
Mér er fyrirmunað að skilja þetta Hilmar.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 16.9.2010 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.