Hitaveita á Skagaströnd - Góð áform en ekki endilega þau bestu

Það var frétt á vef RUV nýlega og nú í dag á Vísir.is að viðræður væru í gangi milli Sveitarfélagsins Skagastrandar og RARIK um lagningu hitaveitu frá Reykjum, innan við Blönduós, og út á Skagaströnd.

SkagaströndEkki er vafamál að veruleg lækkun húshitunarkostnaðar yrði hreinn hvalreki fyrir Skagstrendinga. En er lagning 35 km langrar hitaveitulagnar og dreifikerfis um Skagaströnd besti kosturinn fyrir íbúana og samfélagið í heild?

Kastað hefur verið fram að þessi framkvæmd muni kosta á annan milljarð, það segir okkur að 2 milljarðar hið minnsta verði niðurstaðan. Þá er ekki talin kostnaður fjölmargra húseigenda að breyta úr rafmagnsþilofnum í vatnskerfi. Það er vart undir einni og hálfri milljón á hús og óvíst að allir verði sáttir þó tilneyddir verði. 

RARIK, sem á hitaveituna, selur nú þegar alla orku til húshitunar á Skagaströnd. Orku sem flutt er eftir raflögnum nákvæmlega þessa sömu leið. Hitaveita yrði þá ný orkulögn samhliða núverandi orkulögn til að flytja þessa sömu orku, sömu leið, en aðeins í öðru formi.

Áætlað er að heitavatnið yrði á þetta 30 til 40% lægra verði en rafmagnið. Gott og vel, en hvaða skynsemi er í því fyrir RARIK að leggja nýja lögn upp á tvo milljarða aðeins til þess að lækka verðið um 40%?

Miklu nær væri að RARIK lækkaði hreinlega verðið á raforkunni til húshitunar á Skagaströnd um þessa upphæð og sparaði sér miljarðana tvo. Raunar mætti lækka orkuna meira, jafnvel 50 til 60% til að koma út á sléttu, þar sem þá þyrfti ekki að greiða upp stofnkostnaðinn við hitaveituna.

Það kann að vera að lagabreytinga sé þörf til að þetta sé  mögulegt, en lagabreytingar hafa verið gerðar af minna tilefni en tveim milljörðum.

Þetta er óskaplega mikið 2007 og hreinlega galið að ætla að eyða 2 milljörðum til að lækka húshitunarkostnað á Skagaströnd þegar hægt er að fá sömu niðurstöðu fyrir íbúa Skagastrandar með einni stjórnarsamþykkt í RARIK, og kostar ekki krónu.

Fleiri fréttir um sama efni hér , og hér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það má við þetta bæta að það liggur í hlutarins eðli að hvert kílówatt orku, sem RARIK afhendir kaupenda  til húshitunar,  ætti að sjálfsögðu að vera á sama verði, hvert sem form orkunnar er.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 12.8.2011 kl. 15:34

2 identicon

Frábært ef þetta lækkar kostnað fyrir bæjarbúa á Skagaströnd. En ætli þetta 40% lægra verð sé reiknað með öllum tilheyrandi kostnaði við verkefnið ?

Hallgrímur Þór Axelsson (IP-tala skráð) 12.8.2011 kl. 19:41

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ég er ansi hræddur um að í þann útreikning vanti kostnað húseigenda við breytingar á ofnakerfinu.

En af hverju að eyða 2 milljörðum til að lækka hitunarkostnaðinn ef hægt er að gera það strax á morgun án þess að kosta til krónu?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 12.8.2011 kl. 19:45

4 identicon

2 milljarðar eru mikið af peningum og ég sé hvað þú ert að fara með þetta, en ég er nú ekki svo viss um að málið sé nú svo einfalt þó það líti kannski svoleiðis út.

Rekstrar og framleiðslukostnaður á raforkunni er sennilega talvert hærri og góðar líkur á því að þetta verkefni muni borga sig til lengri tíma litið þótt það komi kannski ekki til með að skila sér strax.

Það væri gaman að sjá sundurliðað uppkast af kostnaðaráætlun um þetta verkefni til þess að geta myndað sér almennilega skoðun.

En það er nokkuð víst að það mun ekki borga sig til skemmri tíma ef bæjarbúar þurfa að endurleggja/skipta um ofnakerfi í öllu húsinu hjá sér og jafnvel að blæða fyrir að fá nýja lögn inn að dyrum.

Hallgrímur Þór Axelsson (IP-tala skráð) 12.8.2011 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.