„Jólatréð“ Harpan

„Listaverkið“ Harpan er loks fullskapað, eftir að kveikt var á „ljósunum“  í glerhjúpnum. Miklar væntingar höfðu verið byggðar upp um mikilfengleikan og dýrðina.

Það var talið niður, allir héldu því niðri í sér andanum, .......svo var kveikt og það fæddist, ..........lítil jólasería.

Tendrun jólaseríunnar, sem gæti allt eins hafa verið keypt  á útsölumarkaði Byko, var lokahnykkurinn  á vígslu Hörpunnar sem staðið hefur í allt sumar. Núna er sú veislan búin og við tekur að sópa saman reikningunum og greiða þá. Ekki greiða þeir reikningana sem ábyrgðina á þessum skandal bera, það gerið þjóðin, nema hvað.

Ekkert stórfenglegt er við þessa aumu jólaseríu, eða þetta svokallaða „listaverk“ í heild sinni nema þá ef vera kynni tékkinn sem rann ofan í vasa, hins ofmetna listamanns Ólafs Elíassonar. Tékkinn sá verður hinsvegar ekki til sýnis, þó hann sé sagður bæði glæstur og gildur.

Nei tékkinn verður leynó, aðallega fyrir þá sök að hlutaðeigendur vilja auðvitað ekki fyrir nokkurn mun að upplýst verði hversu háar upphæðir þeir létu vélast til að greiða fyrir þennan skandal, skandal sem nú er fullkomnaður.

Þrátt fyrir, eða einmitt vegna opinberunar gærkveldsins heldur húsið enn sessi sínum sem ljótasta hús veraldar og aukinheldur geta Íslendingar núna montað sig af því að eiga stærsta ferkantaða jólatré í heimi.

Ekki ónýtt það, en dýrt er það!


mbl.is Glerhjúpur Hörpu tendraður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Kallast skemmtilega á við annan dökkan kumbalda handan kalkofnsvegar. Saman mynda þeir inngang í miðbæinn sem frá norðaustri lítur út eins og eitthvað sem gæti verið Mordor í Hringadróttinssögu.

Mikið er ég feginn að hafa misst af jólaseríunni.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.8.2011 kl. 13:34

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þú segir nokkuð Guðmundur, ég hafði ekki áttað mig á þessu samhengi.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 21.8.2011 kl. 13:38

3 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

sammála ykkur

Jón Snæbjörnsson, 21.8.2011 kl. 14:40

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ég áttaði mig á því allt í einu að þessi litla jólasería er að sjálfsögðu í fullu samræmi við þá ráðdeild og sparsemi sem uppi er í þjóðfélaginu þessi misserin.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 21.8.2011 kl. 16:22

5 identicon

Húsið er tónleikahús og heitir Harpa. Harpa var vígð ekki Harpan. Tónleikar eru haldnir í Hörpu ekki Hörpunni. Miðað við alla hneykslunina og gagnrýnina þá eru ótrúlega fáir aurateljararnir og sjálfskipuðu listrænu sérfræðingarnir sem vita hvað húsið heitir.

FassiT (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 22:13

6 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það má þá að þínu mati FassiT, ekki nota nafn tónleikahússins nema í eintölu án greinis og ekki sigbeygja nafnið.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 21.8.2011 kl. 22:28

7 identicon

Húsið heitir Harpa, kvenkynsnafninu Harpa. Og stigbeygist: Harpa, Hörpu, Hörpu, Hörpu, og tekur ekki greini frekar en önnur nöfn eins og Axel og Jóhann. Þegar önnur Harpa mætir á svæðið er vel hægt að tala um þær í fleirtölu. En sjálft tónleikahúsið Harpa er ætíð í eintölu án greinis. Það er ekki mitt mat, skoðun eða álit. Það er Íslenska.

FassiT (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 00:16

8 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

FassiT, er það þá stór misskilningur almennings  og þeirra sem sendu inn tillöguna að þessu nafni að nafnið sé komið af hljóðfærinu hörpu heldur þess í stað af kvenmannsnafninu? (sem raunar er nafn hljóðfærisins) Húsið hefði því allt eins getað, samkvæmt þinni kenningu, fengið nafnið Guðrún eða Bergþóra!

Hér má sjá útlistun starfshópsins,  sem vann úr innsendum tillögum, á merkingu nafnsins, þar er engin tenging við mannsnafnið Hörpu.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.8.2011 kl. 09:57

9 identicon

Nafnið er komið af hljóðfærinu hörpu eða er tilvísun í það. En húsið er ekki harpa það heitir Harpa. Það er munur á því að vera eitthvað og heita eitthvað. Rétt eins og maður sem heitir Örn, það sérnafn hagar sér ekki eins og tegundarheitið örn. Það er sama hvaða nafn húsið hefði fengið, það nafn hefði alltaf orðið sérnafn og lotið þeim reglum sem við eiga um sérnöfn. Til dæmis hefði húsið fengið nafnið Guðrún þá væri ég að segja þér að Guðrún hefði verið vígð en ekki Guðrúnin. 

FassiT (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 10:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband