Síðasti dansinn á ballinu á Bessastöðum
4.10.2011 | 08:57
Ég neita því ekki, að sem stuðningsmaður forsetans, er ég nokkuð hugsi yfir ræðu hans við setningu Alþingis.
Það er fullkomlega eðlilegt að mínu mati að forsetinn nýti sér ákvæði 26. gr. Stjórnarskrárinnar og undirriti ekki lög, telji hann ríka ástæðu til, og vísi þeim til þjóðarinnar til endanlegrar ákvörðunar. Til þess hefur umrædd grein einmitt verið hugsuð, annars væri hún ekki í Stjórnarskránni.
Þetta vald forsetans til áhrifa á lagasetningar, er þó takmarkað, það nær ekki til annars en að synja lögunum undirskriftar. Það veitir forsetanum ekki vald til inngripa í störf þingsins á nokkurn hátt. Þá fyrst, þegar Alþingi hefur samþykkt lög, kemur til kasta forsetans, fyrr ekki. Ef ætlunin hefði verið að forsetinn væri með fingurna í daglegum störfum þingsins, væri fyrir því mælt í Stjórnarskránni.
Það er alveg skýrt samkvæmt 9. gr. Stjórnarskrárinnar að forsetinn má ekki vera alþingismaður. Þetta ákvæði er þarna aðeins til að undirstrika að fullkomlega á að vera skilið milli starfa og valds þingsins annarsvegar og starfa og valds forseta hinsvegar. Forseti getur að vísu látið leggja frumvörp fyrir Alþingi (25.gr.), en hann mælir ekki fyrir þeim þar eða kemur að afgreiðslu þeirra á nokkurn hátt.
Það er því gersamlega á skjön við stjórnarskránna að forseti leggi Alþingi línurnar um starfsemi þess og lagasetningar, hvort heldur er í orði eða á borði.
Það er getur verið stutt á milli vinsælda og óvinsælda. Vinsældir forsetans virðast í auknum mæli stafa af vaxandi þörf hans að nudda sér utan í óánægju almennings með innihalds- og ábyrgðalausum yfirlýsingum sem láta vel í eyrum. Að sama skapi reytist af honum fasta fylgið.
Undan öllum lýðsskrumurum fjarar að lokum og undantekningarlaust hafa þeir þá brennt að baki sér allar brýr í fyrirhyggjulausu kappinu að kaupa sér vinsældir.
Það er hætt við að sumum geti þá orðið ansi kalt að koma út í kaldan næðinginn að loknu ballinu á Bessastöðum.
Forseta lagðar línur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill Axel.
hilmar jónsson, 4.10.2011 kl. 17:31
Hann er flottur Ólafur R.
Sigurður Haraldsson, 5.10.2011 kl. 09:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.