Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn
1.7.2012 | 11:40
Ég óska forsetanum til hamingju með sigurinn. Ég óska líka Hannesi Hólmsteini og Sjálfstæðisflokknum til hamingju með sigur þeirra frambjóðanda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá lýðveldisstofnunni, rembst eins og rjúpan við staurinn, að hlutast til um það á einn eða annan hátt hver sæti Bessastaði.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf, þar til núna, þurft að lúta í gras í þeirri baráttu. En núna rættist langþráður draumurinn og þeir unnu Bessastaði með því stórfenglega herbragði að fylkja sér að baki fyrrverandi formanni Alþýðubandalagsins, höfuð Óvininum sjálfum. Manninum sem forðum fór um landið á rauðu ljósi, manninum sem hefur aðeins einu sinni sagt satt á öllum sínum ferli, þegar hann sagði Davíð Oddson haldinn skítlegu eðli.
Það er því von að Hannes Hólmsteinn brosi hringinn og að kátt sé í Valhöll. Það var kómísk og sannarlega söguleg stund að sjá í sjónvarpinu í nótt inn í helbláa Valhöll, hvar menn fögnuðu ákaft árangri Ólafs Ragnars og svolgruðu mjöðinn af hofmóði miklum.
Ólafur Ragnar hefur víða komið við í pólitíkinni á sínu flokkaflakki, gengið í nánast alla flokka nema Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur núna leyst það vandamál með því hreinlega að ganga í heild sinni í Ólaf. Hætt er við að hnökrar og brestir muni koma í þann sælusamruna, fljótlega eftir að Sjálfstæðisflokkurinn fær lyklana að Stjórnarráðinu á næsta vori, gangi skoðanakannanir eftir.
Segir sigur Ólafs ósigur stjórnarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:18 | Facebook
Athugasemdir
Axel, hversvegna ert þú svo viss um að Sjálfstæðisflokkurinn verði við völd eftir næstu kosningar?
Það bendir til að þú hafir vantraust á núverandi stjórnvöldum, eða er það ekki Axel?
Loksins þegar landinn fékk að segja álit sitt þá ferð þú í fýlu, hversvegna er það Axel?
Hrólfur Þ Hraundal, 1.7.2012 kl. 14:20
Að venju túlkar þú að vild skrifin Hrólfur. Lest aðeins það sem þér best henntar úr auðskyldu rituðu máli.
Hvað segja feitletruðu orðin í tilvitnunni þér?
Ég hef ekki vantrú á núverandi stjórnvöldum Hrólfur, hana hef ég hinsvegar ósvikið á þér og þínum skoðanbræðrum.
Ég er ekki í fýlu yfir kosningaúrslitunum, ég gleðst raunar í hjarta mínu, vitandi að forsetinn verði innan árs ekki vinsælasti maðurinn í ykkar hópi.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 1.7.2012 kl. 14:35
Æ Axel minn þú byrjaðir svo flott en svo fórstu ofan í skotgröfina. Elsku karlinn..
Sigur Ólafs er sigur lýðræðisins, ekki Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks né neins annarf flokks. Í þetta sinn höfum við vit á því að velja okkur forseta sem hefur sýnt að hann mun svo sannarlega virkja lýðræðið. Ekki falla í þessa gröf þíns fólks sem eru ekkert annað en hælbítar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.7.2012 kl. 00:23
Ég hélt að öll kosningaúrslit, hvernig sem þau eru, væru val fólksins og þannig sigur lýðræðisins. Halda mætti af umræðunni að Ólafur Ragnar hafi fundið upp lýðræðið, en það mun vera misskilningur.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 2.7.2012 kl. 07:43
Frá afar þröngu sjónarhorni gæti þetta virst satt hjá þér. En er það samt ekki.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.7.2012 kl. 10:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.