321 meðal Gunna = 1 ofur Jón !!

 

Samkvæmt upplýsingum frá ASÍ þiggur æðsti stjórnandi Kaupþings laun á ári hverju, sem nema 321 árslaunum verkakvenna.  Það tekur 7 konur alla starfsævina að vinna fyrir einum árlaunum hans.

Fyrr má nú rota en dauðrota!  

Það eru erfiðleikar hjá bönkunum núna samkvæmt fréttum. Erfiðleikar sem stjórnendur þeirra hafa komið þeim í með taumlausu bruðli, stjórlausri græðgi og fjárfestingasýki til hægri og vinstri. Og þegar kreppir að koma ráðamenn þjóðarinnar klappa þeim á bakið og dusta rykið af töfralausninni, þjóðarsátt er hún víst kölluð. Og fólk er hvatt til að sína aðhald og ráðdeild. Það hefði nú verið nær að beina þessum föðurlegu varnaðarorðum að bönkunum.

Þjóðarsáttin felst aðallega í því að á þessar 321 verkakonu eru lagðar auknar byrðar og kaup þeirra skert með verkfæri sem heitir gengissig eða öðru nafni verðbólga. Ríkissjóður stendur þessa dagana í mestu lántökum í sögu ríkisins til að „styðja við bankanna“ eins og það er kallað. Kostnaðinum af lántökunni verður ekki sendur bönkunum, það er nokkuð ljóst. Honum verður í anda þjóðarsáttar deilt bróðurlega  á allar  321 verkakonur þessa lands.  

Á meðan sitja höfundar og arkitektar kreppunnar áfram á friðarstóli og þiggja sín stjarnfræðilaun óskert  og standa nánast stikk frí á meðan kreppan gengur hjá garði. Gott ef að þeim verður ekki gaukað einhverjum bónusum  svo þeir fái nú ekki streituköst og niðurgang af áhyggjum að eiga ekki fyrir nýja Range Rovernum  um mánaðarmótin.

Nánast ríkir alkul á húsnæðismarkaðnum, þökk sé bönkunum. Íbúðalánasjóður hefur bjargað því sem bjargað verður. Bankarnir reyndu hvað þeir gátu  að sölsa undir sig sjóðinn með fulltingi íhaldsins en tókst ekki vegna andstöðu, fyrst Framsóknarflokksins sem hafði húsnæðismálin á sinni könnu í fyrri ríkisstjórn og nú andstöðu Jóhönnu Sigurðardóttur í núverandi stjórn.  

Ég nefni Jóhönnu en ekki Samfylkinguna, því ég veit klárlega afstöðu hennar í málinu en er ekki eins viss um heilindi flokksins í málinu. Jóhanna er eini ráðherrann og raunar eini þingmaðurinn, sem ég ber óskipta virðingu fyrir.

Þrátt fyrir að Íbúðalánasjóður hafi sannað gildi sitt svo um munar í þessu ástandi sem nú ríkir dúkkar upp einn og einn fulltrúi bankanna í fjölmiðlum og syngja hjáróma gamla sönginn að sjóðurinn verði lagður niður og starfsemi hans færð til bankana. Þessir menn kunna ekki að skammast sín.


mbl.is Sjöfaldar ævitekjur á einu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.