Hve djúpt getur hatrið rist?

Það vantar ekki samsæriskenningarnar þessar stundirnar á blogginu um ástæður sinnaskipta Sjálfstæðisflokksins í Icesave-málsins og þá ekki hvað síst á útvarpi Sögu, sem er einhver öflugasta sorauppspretta sem þekkist á Íslenskri grund nú um stundir.

Auk Arnþrúðar Karlsdóttur, Sögueiganda, sem ekki dregur af sér í skítkastinu, er óhætt að segja að á Sögu fari fremstur meðal jafningja þáttastjórnandinn, lögfræðingurinn og stjórnlagaþingsmaðurinn Pétur Gunnlaugsson.

Sálfræðimat á Pétri byrjaði líklega á því að engu væri líklegra en hann ætti einhverra harma að hefna en hefði ekki kjark eða vit til að beina þeim ofsa í réttan farveg en léti þess í stað heift sína bitna á  því sem best lægi við höggi í það og það skiptið. Rétt eins og þegar hann varð sér til skammar á fréttamannafundinum við kynningu  á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Svo tekur lögfræðingurinn við innhringingum frá hlustendum og hafi sá er inn hringir eitthvað annað til málana að leggja en þema Péturs þá yfirkjaftar Pétur viðkomandi með langlokuræðu um sína skoðun. En merkilegt nokk hvorki hann sjálfur eða viðmælendur virðast taka eftir því að hann skiptir iðurlega um skoðun í miðri setningu.

Samsæriskenningarnar á Sögu og bloggheimum um sinnaskipti Sjálfstæðisflokksins í Icesave málinu ganga helst út á að fyrir stuðninginn við Icesave hafi stjórnarflokkarnir lofað Sjálfstæðisflokknum að:

..hætt yrði við kvótainnköllunaráform ríkisstjórnarinnar.

..frekari stjórnlagaþingshugmyndir yrðu slegnar af.

..undirbúningur sé hafinn að stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og svo framvegis og svo framvegis.

Svo gáfulega sem þetta hljómar!

Sjá menn ekki í gegnum svona bull áður en þeir útvarpa því áfram eða er það hrein illgirni og hatur sem ræður því að svona er látið í loftið eins og virðist raunin. Bera þeir sem svona haga sér enga ábyrgð?

Gæti ég haldið úti linnulausum áróðri gegn nágranna mínum, með dylgjum, hálfsannleik og beinlínis lygum, ef það væri einungis gert gegnum hlustendaþátt á opinberlega úthlutaðri  útvarpsrás?

Ég spurði í fyrirsögninni hve djúpt hatrið gæti rist. Ég náði því miður því stigi í denn að hata annan mann. Hatrið grasseraði innra með mér, át mig að innan en gerði „mínum manni“ ekkert, honum var örugglega sama, hataði mig örugglega líka og hafði líklegast ekki áhyggjur af því hvernig ég hugsaði til hans.

Ég gerði heiðarlega tilraun til að fyrirgefa, gaf m.a. út blogglega tilkynningu þess efnis að viðkomandi væri fyrirgefið, en áttaði mig þó á við nánari skoðun að hugur hafði ekki fylgt máli og dró allt til baka.

Ég  hef núna áttað mig á því að ég er hættur að hata viðkomandi, en í hjarta mínu fyrirgef ég ekki og geri sennilega aldrei, ég get lifað við það, en hatrið er ég laus við, sem betur fer.

Hatur er ekki gjörvulegur förunautur, trúið mér, það ristir enga í sundur, nema okkur sjálf.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband