Leynipósthúsið

Holskefla þjónustuskerðingar gengur yfir hjá Póstinum um alla landsbyggðina. Pósturinn er svo léttur á bárunni og gamansamur að kalla þessar breytingar „hagræðingu“. Með góðum vilja má samþykkja þá nafngift í einstaka tilfellum.

En víðast hvar væri nær að kalla aðgerðir fyrirtækisins svívirðu og dónaskap í orðanna sterkustu meiningu. T.a.m. þar sem póstafgreiðslunum hefur alfarið verið lokað en íbúunum, sem áttu og byggðu upp þetta fyrirtæki á sínum tíma, er ætlað að grípa póstinn sinn af einhverjum bíl sem brunar hjá og kyngja því sem eðlilegri þjónustu.

Í Grindavík fengu íbúarnir sína póstlegu hagræðingu þegar pósthúsinu var lokað fyrir fullt og fast 19. janúar s.l. og flutt í bás í Landsbankanum. Það kann að vera að þetta gangi með tímanum, en undarleg eru vinnubrögðin og skipulagið á því „pósthúsi“.

Það er ekki kassi eða sjóður í afgreiðslubás póstsins! Þurfi menn að leysa út kröfu eða inna af hendi greiðslu, setja bréf í póst þarf fyrst að fara í biðröðina hjá bankagjaldkeranum greiða kröfuna, kaupa frímerkið og fara síðan í biðröðina hjá póstinum með kvittun bankans eða frímerkið og fá sína póstlegu afgreiðslu á bás póstsins. Nú er mánuður liðinn frá hagræðingunni en enn hafa Landsbankamenn ekki áttað sig á fáránleika þessa afgreiðslukerfis.  Allavega æpir ekki hagræðingin á viðskiptavinina.

Strax daginn sem Pósturinn flutti voru merkingar póstsins fjarlægðar af gamla pósthúsinu en núna,  mánuði síðar,  hefur merki póstsins ekki enn verið sett á Landsbankahúsið. Það er ekkert sem bendir til þess að í þessu húsi sé póstafgreiðslan í Grindavíkurbæ, ef frá er talin lítill og illa staðsettur póstkassi.

Til að bíta hattinn af skömminni þá var þetta illa kynnt eða auglýst. Ég bý beint á móti gamla pósthúsinu og er enn að sjá fólk koma og ætla að snara sér inn á sitt pósthús en það kemur að sjálfsögðu að lokuðum dyrum. Til að fullgera ruddaskapinn þá höfðu þeir hjá Póstinum ekki einu sinni fyrir því að setja tilkynningu í glugga á húsinu til leiðbeiningar, t.a.m. með staðsetningu nýju afgreiðslunnar. Þá vandast málið, það gagnar ekki fyrir viðskiptavininn að keyra um í leit að pósthúsinu, því merkingarlega séð er engin póstafgreiðsla í Grindavík.

240_Grindavik_LBEf farið er inn á heimasíðu póstsins og póstafgreiðslur landsins skoðaðar og Grindavíkur afgreiðslan valin má sjá mynd af Landsbankanum og á myndina hafa Póstmenn af miklum myndarskap sett inn lógó Póstsins á gafl hússins. Kannski það verði látið duga og teljist partur af allri hagræðingunni.

.

Myndir: Landsbankahúsið á heimasíðu Póstsins og myndir af sama húsi teknar í dag.

©Axel Jóhann 2011 029©Axel Jóhann 2011 026 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Jæja, Pósturinn brást við og setti upp merkið í morgun, prik fyrir það.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 18.2.2011 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband