Undirskriftasöfnun á fölskum forsendum
7.6.2011 | 15:14
Undarleg undirskriftasöfnun er í gangi á MÁLSVÖRN.IS. Þar er safnað undirskriftum til stuðnings þess að Geir H. Haarde fái réttláta málsmeðferð fyrir Landsdómi ásamt fjársöfnun honum til handa. Þar segir m.a.:
Félagið ber heitið Málsvörn og er félagsskapur um réttláta málsmeðferð í máli Alþingis gegn Geir H. Haarde. Megintilgangur félagsins er að safna fé til að standa straum af kostnaði við málsvörnina og tryggja að hann standi sem næst jafnfætis ríkisvaldinu í málsvörn sinni.
-------
Ef þú styður réttláta málsmeðferð bjóðum við þér að skrá þig á listann hér til hliðar.
Auðvitað hópast fólk til að skrifa undir að Geir H. Haarde eigi rétt á eðlilegri og réttlátri málsmeðferð. Það geta allir skrifað undir, það er eðlileg og sjálfsögð krafa enda grunnur íslensks hugsunarháttar og réttarfars.
Það þýðir ekki sjálfgefið að undirritaðir vilji að viðkomandi sakborningurinn sleppi alfarið við dóm og refsingu, hafi hann til hennar unnið, eins og Morgunblaðið og Sjálfstæðismenn hafa gert sér far um að túlka undirskriftasöfnunina.
Flokkshollustan ræður þó hjá flestum, enda boðskapur Geirs að Landsdómurinn væru pólitísk réttarhöld og nefndi ofsækjendur sína, sem var afar ósmekklegt.
Til hvers eru dómstólar, hvert er þeirra hlutverk? Eru þeir ekki til þess að skera úr um sekt eða sakleysi ákærðu?
Það hafa flestir talið fram að þessu, en forsætisráðherrann fyrrverandi, sem nú sætir ákæru um vanrækslu og embættisafglöp fyrir Landsdómi, virðist hafa aðra skoðun.
Hann kaus á blaðamannafundi að kalla Landsdóminn fyrirbæri-, dómstól sem hann tók þátt í að manna meðan hann sat á þingi og bar sjálfsagt virðingu fyrir áður en hann fékk þann vafasama heiður að vera fyrsti mörlandinn sem stefnt er fyrir þann dóm.
Hvernig ætlar Geir H. Haarde, verði hann sýknaður, að túlka þá sýknu frá dómstólnum sem hann kallar fyrirbæri? Sé Landsdómur fyrirbæri hefur sýkna hans auðvitað enga merkingu og Geir verður áfram í augum almennings sekur samkvæmt ákæru.
Ég hef áður viðrað þá skoðun mína að fleirum en Geir hafi átt að stefna fyrir Landsdóm, en þar brást Alþingi, þar brugðust sumir Samfylkingarmanna sem umfram aðra mátu sekt manna mismunandi eftir lit, það er ófyrirgefanlegt. Ingibjörg Sólrún, Árni M. og Björgvin G. hefði eflaust líka átt að stefna svo og ráðherrum fjær í tíma, en lög leyfðu það ekki.
Alþingi á auðvitað ekki að dæma í eigin sök, frekar en aðrir.
Þau rök að ákæra hafi átt alla eða engan í þessu máli eru fáránleg og fella sig sjálf. Ef fjórir menn brjótast inn til þín, en aðeins tekst, af einhverjum ástæðum, að ákæra einn þeirra, á þá að sleppa honum við málsókn og refsingu af því að ekki tókst að saksækja hina félagana þrjá?
Krefst frávísunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:26 | Facebook
Athugasemdir
Skandallin er að mínu mati að hann situr þarna einn, auðvitað er hann sekur, en það voru fleiri. Ég vona að þessi dómur verði til þess að hinir verði líka gripnir og þurfi að axla sína ábyrgð í samræmi við brot sín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.6.2011 kl. 21:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.