"Vita skaltu, góði minn, að þú ákveður ekki hvar ég kúka"!

„Sonurinn“, hann Bangsi, vakti mig um hálf níu í morgun með því að hamra í mig með trýninu. Ljóst var að hann þurfti að komast út enda komið langt fram yfir okkar venjulega fótaferðatíma. Ég spratt á fætur, snaraði mér í leppana og út með „drenginn“ enda virtist honum orðið illa mál.

Við fórum okkar hefðbundnu leið, út af lóðinni bakatil við húsið og settum stefnuna út í hraunið norðan við bæinn. En við vorum varla komir út á gangstéttina við Hópsbrautina þegar Bangsi snarar sér út á grasið milli götunnar og gangbrautarinnar og gerir sig líklegan að gera þarfir sínar þar. En ég gaf honum ekki færi á því enda vart mínútu gangur út í hraunið þar sem hann gæti valsað um að vild og gert allt það sem hundum er tamast. Aftur reyndi Bangsi við grasflötina við gangbrautina, en fékk ekki.

Þegar við komum út í hraunið, mínútu síðar, sleppti ég Bangsa lausum. Hann valsaði um, þefaði af hverri þúfu, merkti hér og þar en sýndi þess engin merki lengur að honum væri mál að kúka. Hann fór hratt yfir og hvarf brátt sjónum mínum. Ég labbaði áfram en mætti Bangsa fljótlega þar sem hann kom til baka með því látbragði að hafa að fullu lokið sínum erindum.

Við feðgarnir snérum því heim á leið í rólegheitunum. En við vorum varla komnir á heima slóðir þegar Bangsi snarar sér út á grasflötina við gangstéttina og gerir þar, án þess að vörnum yrði við komið á sama stað og hann varð áður frá að hverfa, þvílík stykki að það hálfa hefði verið nóg.  Meðan hann var að athafna sig leit hann á mig með prakkaralegum svip og glettnu augnaráði, sem sagði svo ekki varð um villst, „vita skaltu, góði minn, að þú ákveður ekki hvar ég kúka“.

 „Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni“, hugsaði ég á meðan ég sekkjaði „afurðir sonarins“. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahahaha skemmtileg saga af hvutta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.7.2012 kl. 14:21

2 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Hahaha.

Þetta hefðir þú nú átt að vita. ;)

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 23.7.2012 kl. 14:48

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Já, menn verða að standa sig, þeim er illa við að bregða mikið útaf vananum....................

Jóhann Elíasson, 23.7.2012 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband