Þverrandi lyst á list
16.1.2016 | 18:26
Nokkur umræða hefur verið undanfarna daga um rithöfundarlaun og útdeilingu þeirra. Umræðan hefur verið nokkuð á einn veg þótt sitt sýnist hverjum.
Að mínu mati á fyrirkomulag eins og rithöfundarlaun fullan rétt á sér en fráleitt í þeirri mynd sem fyrirbærið er rekið í dag. Mig grunar að þeir sem, á sínum tíma, komu þessu kerfi á hafi ekki hugsað sér kerfið rekið með þeim hætti sem gert er í dag.
Líklegra er að þeir hafi hugsað það til hjálpar ungum og efnilegum listamönnum til sjálfbærni. Svo er að sjá að þeir listamenn sem helst eru sjálfbærir í sinni list, séu og hafi verið áskrifendur af þessum atvinnuleysisbótum listamanna.
Eðlilegt er að laun til listamanna væru, eins og í hinu almenna atvinnuleysisbótakerfi, greidd þeim sem litlar eða engar tekjur hafa af sinni listsköpun en ekki þeim sem nægar tekjur hafa og eru fullfærir að lifa af sinni list.
Í almenna atvinnuleysisbótakerfinu falla menn af bótum eftir tvö og hálft ár hvernig sem aðstæður bótaþegans eru , engin miskunn þar. Skilyrt er að bótaþegi tilkynni mánaðarlega að hann sé virkur í atvinnuleit og hver króna sem bótaþeginn vinnur sér inn er dregin frá bótum.
Eðlilega.
Ekkert slíkt þak eða skerðingarákvæði er á þessum svokölluðu listamannalaunum, ekki er spurt hvort eftirspurn sé eftir listsköpun viðkomandi. Ekki er gerð krafa um lágmarks framleiðni styrkþega eða þá að viðkomandi sinni listsköpun yfir höfuð.
Er það eðlilegt?
Nefna má dæmið um listamanninn sem kjörinn var á Alþingi, sjálfgefið þótti að hann hélt sínum heiðurslaunum óskertum þótt hann væri á sama tíma á ríflegum launum hjá ríkinu sem þingmaður.
Ýmislegt bendir til að ákveðið krosstengsla tryggingarkerfi hafi myndast varðandi úthlutun nefndra listamannalauna, án þess að fullyrt sé nokkuð í þá veru.
Svona "listileg" meðferð á almannafé er sannarlega ekki til þess fallin að auka lyst almennings á list.
Flokkur: Menning og listir | Breytt 17.1.2016 kl. 17:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.