Ég var tekinn af lífi!

Fyrirsögnin er undarleg en er eigi að síður alveg dag sönn. Ég var tekinn af lífi í gær og hefur það verið gert oftar gegnum tíðina, en ég vill muna. Þetta þarfnast útskýringa. Þannig er að ég er með hjartsláttaróreglu. Hún stríðir mér eitthvað flest alla daga. Við þessu verð ég að taka lyf daglega, út ævina.

Fyrir kemur að ég fæ köst þar sem allt fer í kaos. Og það gerðist einmitt í gær og þá er ekkert annað að gera en leggjast inn á sjúkrahús. Fyrst eru reyndir stórir skammtar af  lyfjum en ef það virkar ekki þá þarf að gefa mér rafstuð. Það er gert þannig að ég er svæfður stutta stund. Síðan er ég tekin af lífi með rafstuði og endurræstur aftur á sama hátt. Þetta er endurtekið, ef þarf, uns hjartað slær í réttum takti. Svo fæ ég að fara heim eftir tvo til þrjá tíma ef allt er í lagi.

Ég er ekki að skrifa þetta til að lýsa heilsufari mínu heldur vegna þess að nú varð ég fyrir reynslu sem ég hafði ekki reynt áður. Ég hef oft verið spurður að því hvort ég hafi „séð yfir“ eða hitt einhvern dauðann? Ég hef ætíð orðið að svara því neitandi, sannleikanum samkvæmt, enda trúi ég ekki á slíkt.

Ég hef aldrei haft neina minningu úr „dauðanum“. En nú varð heldur betur breyting á. Ég sá sýn og hún fyllti mig skelfingu.

Mér fannst í þann mund sem ég var að fá meðvitund að ég væri á tali við Binga. Og skelfingin sem gagntók mig, var að mér fannst ég vera Framsóknarmaður. Og sem meðvitundin jókst sannfærðist ég um að raflostið hefði hrært það illa upp í höfðinu á mér, að þar stæði ekki steinn yfir steini og útkoman væri Framsóknarmaður!

Ég hefði betur fengið að fara, hugsaði ég.

En sem betur fer rofaði til og við aukna meðvitund skynjaði ég að allt var með feldu í höfðinu, allir hlutir á sínum stað. Þetta var bara martröð. Ég var heill og óskemmdur. Lífsviljinn náði tökum á mér á ný.

Er ekki lífið dásamlegt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Axel,

Lofaðu almættið Axel fyrir að vera ekki framsóknarmaður. Mig grunar að þér hafi verið leyft að  kíkja á "híbýli" þeirra og dvalarstað þarna hinumegin. Ekki furða þótt þú yrðir skelfingu lostinn.

En vertu óhræddur, þú ferð á betri staðinn. En að öllu gamni slepptu, þá óska ég þér góðrar heilsu og vona að þessi krankleiki þinn láti sem minnst á sér kræla.

Jú lífið er dásamlegt, þrátt fyrir einn og einn framsóknarmann.

Kveðja,

Kári

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 20:59

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Eru framsóknarmenn fyrir handan?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.2.2008 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband