Auðbjörgin kveður

Auðbjörg HU 6 ex Hinrik, 22. tonna eikarbátur smíðaður á Akureyri 1960  fór í sína síðustu ferð í dag. Báturinn var keyptur til Skagastrandar 1977 en hefur verið munaðarlaus og staðið út á görðum í dráttarbrautinni á Skagaströnd í nokkur ár.

Í dag var hann dreginn yfir á sleða dráttarbrautarinnar og velt út af honum að austanverðu. Þar bíður öflugt tæki sem mun á morgun brjóta bátinn mélinu smærra og undirbúa hann fyrir útför og greftrun.

Fleiri myndir af atburðinum á myndasíðu síðuhöfundar.

Axel Johann 28-09-2009 005 

Axel Johann 28-09-2009 085

Axel Johann 28-09-2009 110

Fleiri myndir væntanlegar á morgun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

flott myndasyrpa á síðunni hjá þér-alltaf hálfsorglegt að sjá á efir þessum trébátum,viss sjarmi og partur af sögunni okkar.

zappa (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 00:02

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Takk fyrir það zappa. Þar sem ég er skipasmiður hef ég sterkar taugar til þessa báta.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 29.9.2009 kl. 00:11

3 identicon

Sæll Axel.

Kærar þakkir fyrir að taka þessar myndir og setja þær á vefinn þinn. Það eru að vísu blendnar tilfinningar sem bærast í hugskoti mínu þegar ég virði þær fyrir mér.

Fyrir rúmlega 20 árum síðan varð Auðbjörgin  fyrir töluverðum skemmdum. Rekstur Dráttarbrautarinnar hafði þá legið niðri um alllangt skeið, eftir gjaldþrot Mánavarar sálugu. Forystumenn bæjarins höfðu gert ítrekaðar tilraunir til að koma mannvirkinu í rekstur, en án árangurs. Þrátt fyrir langar fundarsetur og pælingar með hagsmunaaðilum og gáfnaljósum úr hópi iðnaðarmanna fannst enginn flötur á því að koma Dráttarbrautinni í rekstur á nýjan leik.

Nokkurt atvinnuleysi var hjá iðnaðarmönnum á Skagaströnd í upphafi árs 1989 og var mönnum því talsvert kappsmál að viðgerðin færi fram á Skagaströnd og verkið yrði unnið af heimamönnum.

En enginn var til að taka verkið að sér. Annaðhvort voru menn ekki tilbúnir til samstarfs eð þorðu hreinlega ekki að takast á við verkefnið.

Það var kafaldsbylur og frost þessa dagana á Skagaströnd og  slippurinn algerlega á kafi í snjó.

Á hreppsskrifstofunni sátu menn og horfðu í gaupnir sér. Lítið var um úrræði eins og vanalega á þeim bæ.

Þá datt einhverjum í hug það "neyðarúrræði" að hringja í mig og kanna hvort ég væri til viðræðu um að koma með einhverjum hætti að þessu verkefni.

Ég mætti á kontórin.

Og var fræddur um vandamálin.

Og var spurður hvort ég væri til í einhversskonar samstarf um viðgerðina á bátnum.

Ég kvaðst vera búinn að fá mig fullsaddan á samstarfi um atvinnurekstur og tæki ekki þátt í neinu slíku. Ég væri hinsvegar ekkert fráhverfur því að vinna að viðgerðinni hjá þeim sem tæki verkið að sér, ef það leysti einhver vandamál.

Eftir að ljóst varð, að enginn þorði að taka verkið að sér og samstöðuleysi var algert hjá fyrirtækjum sem höfðu einhverja hagsmuni af því að Dráttarbrautin væri í rekstri, voru góð ráð dýr.

Einhver stundi því þá upp hvort ég væri tilbúinn að taka verkið að mér -á eigin vegum.

Ég svaraði því jákvætt að því tilskyldu að samningar næðust milli mín og  sveitarstjórnar um aðstöðuna í Dráttarbrautinni.

Svo fór að samningar tókust og ég stofnaði Trésmiðju Kára Lárussonar ehf. sem sá um viðgerðina á  Auðbjörginni . Ég var heppinn með starfsmenn og viðgerðin tók tiltölulega skamman tíma miðað við aðstæður.

Þegar Auðbjörg  var tekinn í slipp í síðasta sinn  var hún sett út á hliðargarða til geymslu.

Svo háttar til í slippnum á Skagaströnd að hluti hliðargarðanna stendur á einkalóð, sem eigandinn hefur svo leigt sveitarfélaginu. Eigandi þess hluta slipplóðarinnar óskaði eindregið eftir því, að báturinn yrði staðsettur á  lóð sveitarfélagsins. Þar var gott pláss sem litlar líkur voru á að yrði nýtt  í þágu skipaviðgerða á komandi tíð.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var ekki orðið við  þessari bón lóðareigandans. Hann varð því að leita annara úrræða til að losna við ónýtan bát sem hamlaði aðgengi að húsi hans auk þess að vera lítið augnayndi.

Héraðsdómur Norðurlands vestra úrskurðaði þann 21. júní siðastliðinn, að Hafnarsjóður Skagastrandar skuli fjarlægja bátinn af hliðargörðunum.

Í dómsorðum stendur meðal annars:

"Viðurkennt er, að stefnda beri að fjarlægja á sinn kostnað bátinn Auðbjörgu HU-6 er stendur á hliðarfærslugörðum á eignarlóð stefnanda, Hafnarlóð 6, Skagaströnd. Skulu dagsektir að fjárhæð 20.000 krónur til stefnanda falla á stefnda frá 21. október 2009 að telja hafi hann ekki orðið við þessari skyldu fyrir þann tíma.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað."

Um dóminn má lesa hér.

Það er því ekki allskostar rétt sem fram kemur í færslu þinni Axel að Auðbjörgin hafi verið munaðarlaus í seinni tíð.  Aðstandendur hennar hafa nú verið dæmdir til að fjarlægja tákn illgirni sinnar og valdahroka, af lóð Rúnars Jóhannssonar. Vafalítið hefur það valdið þeim nokkrum kvíða og flýtt fyrir færslu bátsins, að þurfa að greiða Rúnari 20.000 þúsund krónur á dag eftir 21.október n.k.

Málskostnaður og væntanlega færsla bátsins og  förgun hans er svo tekið úr vasa skattgreiðenda á Skagaströnd.

Persónulega finnst mér, að þeir sem skemmta skrattanum með þessum hætti ættu að  sjá sóma sinn í að borga slíkt skemmtanahald úr eigin vasa.

Blessuð sé minning Auðbjargar HU-6

Beztu kveðjur til þín Axel .

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 12:26

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Sæll Kári, takk fyrir innlitið,  ítarlegt og greinagott innlegg. Ég hef ekki aðra athugasemd við innlegg þitt en að það sem ég meinti með munaðarleysi bátsins, var að ekki virðist ljóst hver sé lögformlegur eigandi bátsins.

Ekki get ég fullyrt hver greiðir förgun bátsins en hitt veit ég að sveitarfélagið gerði þá kröfu á Ólaf Guðmundsson sem var rekstraraðili dráttarbrautarinnar þegar Auðbjörgin var tekin upp að hann greiddi allan kostnaðinn við færslu bátsins. Niðurstaðan vað að Ólafur greiddi helming áætlaðs kostnaðar, eða kr. 250.000,00.

Skiptar skoðanir munu um þá niðurstöðu.

 

Axel Jóhann Hallgrímsson, 29.9.2009 kl. 13:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband