Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Sér á svörtu?

Guðmundur Kristjánsson í Brimi hefur ákveðið að stefna Elliða bæjarstjóra í Vestmannaeyjum fyrir rógburð. Guðmundur segir Elliða hafa gert tilraun til að sverta mannorð sitt.

Það verður gaman að fylgjast með framvindu þessa máls og sér í lagi niðurstöðu dómstóla, hvort og hvernig Elliði sverti mannorð Guðmundar.  Því það hefur hingað til verið trú manna að ekki sjái  á svörtu.


Stóra ÉG - UM MIG - FRÁ MÉR - TIL MÍN málið

Á maður að trúa því að í Sjálfstæðisflokknum sé enginn svo aumingjagóður að hann reyni að koma vitinu fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, áður en hún mokar endanlega yfir sig?

Eða er öllum skít sama?

 

 


mbl.is „Ég hef ekki gert neitt rangt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantraust boðað á hálfan ráðherra

Hanna Birna Kristjánsdóttir er hálf í öllu tilliti, eftir að hafa sagt sig frá dómsmálahluta innanríkisráðuneytisins.

Upp er komin undarleg staða og fróðlegt verður að fylgjast með vegferð ráðuneytisins á næstunni. Ráðherraparturinn ætlar eftir sem áður að halda um stýrið í skrykkjóttum akstri ráðuneytisins, með sprungið á öllum, en öðrum ráðherra verður falið að sjá um bremsur og stefnuljós úr aftursætinu.

Það er greinilega allt hægt og leyfilegt, til að lafa á völdunum, trausti rúin.

Í ljósi þessa ætti að nægja Pírötum að leggja fram hálfa vantrausttillögu á restina  af ráðherranum.



mbl.is Lýsa yfir vantrausti á Hönnu Birnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðleysi Sigmundar og Bjarna?

Af gefnu tilefni hafa siðareglur ríkisstjórnarinnar, eða öllu heldur skortur á þeim, verið í brennidepli undanfarið. Ríkisstjórninni ber samkvæmt lögum að setja sér siðareglur en hefur ekki enn drattast til þess þó hún nálgist að hafa setið þriðjung kjörtímabilsins.

Siðareglur geta klárlega hjálpað ráðherrum að breyta rétt og forðað þeim frá því að lenda í siðferðiskrísu og þannig eflt traust almennings á stjórnsýslunni.

En af hverju þarf hver ríkisstjórn að setja sjálfri sér siðareglur, er ekki eðlilegast að Alþingi setji ríkistjórnum siðareglur í eitt skipti fyrir öll? Getur það verið að tvær ríkisstjórnir geti ekki starfað eftir sömu grunnhugmyndum almenns siðferiðs? Þarf Bjarni Ben aðrar siðareglur en Steingrímur J og Sigmundur aðrar en Jóhanna? Ef því er þannig  varið er þá nokkur ástæða til að sömu lög gildi um alla Íslendinga? Að vísu má færa fyrir því nokkur rök,  þó það sé ekki grunnhugsunin, að fyrir lögunum séu sumir töluvert jafnari en aðrir.

Svo er alveg eins víst að ráðherrar, sem hirða ekki um að fara að lögum og setja sér siðareglur, séu ekki líklegir til að fara eftir slíkum reglum, ef þær eru þeim ekki meira kappsmál en raun ber vitni.


Ærandi þögnin

Fátt hefur verið meira í umræðunni undanfarið en völt staða Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Hanna Birna þvertekur fyrir að hafa aðhafst eitthvað aðfinnsluvert í rannsókn lekamálsins. Hún viðurkennir  jú, jú, að hafa hringt í lögreglustjóra á rannsóknartímanum! En alls ekki undir því yfirskini að ræða lekamálið nei, nei! Þó hafi málið verið rætt, já, já, mikil ósköp! En þó alveg án þess að hún væri nokkuð að skipta sér af rannsókninni!  Alveg magnað!

Á Moggablogginu hafa hægrimenn farið mikinn og ásakað  vonda vinstrafólkið um skipulagða aðför að  vammlausri heiðurskonunni.  Sumir fara hamförum og senda frá sér stöðugt nýjar samsæriskenningar eftir því hvaðan vindurinn blæs.  Allir sem koma að málinu eru gerðir tortryggilegir og ekki hvað síst embættismenn,  t.a.m. Umboðsmaður Alþingis og  Saksóknari, sem er jú víst sérleg senditík  vinstri klíkunnar. Svo er ráðherrann auðvitað á aftökulista RUV!

En þessir bloggarar minnast ekki einu orði á eitt hrópandi atriði, stóru þögnina. Hina ærandi þögn formanns Sjálfstæðisflokksins og annarra forystumanna flokksins.

Hanna Birna segist hafa fullan stuðning ríkisstjórnarinnar og flokksins. Hún virðist ein til frásagnar um það því enginn hefur stigið fram í þeim tilgangi. Frá Bjarna Ben og nánustu klíkunni í kringum hann heyrist  ekkert. Nákvæmlega EKKERT til stuðnings Hönnu Birnu. Frá þeim fróma hópi heyrist aðeins ærandi þögnin. Það segir manni að ef ekki  er beinlínis róið gegn Hönnu Birnu á þeim bæjunum, þá  grætur Bjarni og hirð hans krókódílatárum yfir stöðugt versnandi stöðu ráðherrans.

Hver hagnast mest á því að undan innanríkisráðherranum fjari sem mest og að hún komi á rassgatinu út úr þessu máli? Að Hönnu Birnu pólitískt genginni er í bráð enginn sýnilegur kandídat í Sjálfstæðisflokknum til að ógna formannstöðu Bjarna Ben.

Fyrir nokkrum mánuðum var staða Hönnu Birnu hinsvegar svo sterk innan flokksins gagnvart veikri stöðu Bjarna að Hanna Birna hefði aðeins þurft að gefa merkið og hallarbylting í Sjálfstæðisflokknum verið staðreynd, en hún þorði ekki. Bjarni vill eðlilega ekki vinna að því að fá þá stöðu upp aftur.

Núna þorir Hanna Birna ekki heldur að gera það eina rétta því þá væri hún, að eigin sögn, að svíkja allt það góða fólk sem treystir á hana.

Það er sannarlega böl að vera ómissandi.


mbl.is Valtýr segir Hönnu Birnu eiga að víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband