Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Auðvitað skilur Sigurður Kári þetta ekki frekar en annað

Það er auðskilið öllu venjulegu fólki af hverju stuðningsmenn Icesave-samningana birta ekki myndir af ráðherrum ríkisstjórnarinnar  í auglýsingum sínum, þó það haldi vöku fyrir Sigurði Kára Kristjánssyni.

Þeir sem að auglýsingunum standa eru það heiðarlegir að gera ekki upp á milli fólks. Ef þeir hefðu birt myndir af ráðherrum sem stuðningsmönnum Icesave í auglýsingunum þá hefðu þeir líka þurft að birta myndir af eftirtöldum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem líka studdu Icesave, með sama styrk og stjórnarþingmenn, einu atkvæði á mann:

  

Árni Johnsen,

Ásbjörn Óttarsson,

Bjarni Benediktsson,

Einar K. Guðfinnsson,

Jón Gunnarsson,

Kristján Þó Júlíusson,

Ólöf Norðdal,

Ragnheiður E. Árnadóttir,

Ragnheiður Ríkharðsdóttir,

Tryggvi Þór Herbertsson,

Þorgerður K. Gunnarsdóttir,

 

Myndbirting af stuðningsmönnum Icesave var útilokuð, því enginn heilvita maður auglýsir þinglið Sjálfstæðisflokksins ótilneyddur.

 

 
mbl.is Spyr um myndir af Jóhönnu og Steingrími
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver vakti Björninn af værum vetrardvalanum?

Birnir sem vaktir eru af værum vetrardvalanum, óvænt og fyrir tímann hafa allt á hornum sér, viðskotaillir og afundnir.  Björninn  Bjarnason er engin undantekning á því. Björn þessi er raunar alltaf svo stirður og fúll í skapi að engu er líkara en hann sé ætíð nývaknaður, árið um kring.

Eins og annarra fýlu bangsa er siður þá ræðst Björninn á þann sem hann telur liggja best  við höggi, fjármálaráðherrann. Nærtækara væri fyrir Björn að beina fýlu sinni og fúkyrðum að formanni sínum, sem samþykkti Icesave III á Alþingi og mælir með því, eins og Steingrímur, að þjóðin geri slíkt hið sama. Bjarni Ben formaður Sjálfstæðisflokksins leggur þá, ekki síður en Steingrímur Sigfússon, blessun sína yfir þessa forkastanlegu stjórnarhætti.

Það er draumur bjarnarins að Sjálfstæðisflokkurinn komist sem fyrst til valda aftur. Það kæmi þá í hlut Bjarna Ben að festa í sessi þess nýju og forkastanlegu stjórnarhætti um leið og þeir félagar hjálpast svo að við að endurreisa  „heilbrigt og ábyrgt“ bankakerfi, eins og var á Íslandi fyrir hrun, eins og Björninn lætur sig dreyma um í nýlegri bloggfærslu.

Með því að segja já við Icesave er löppunum ekki aðeins kippt undan heilbrigðri bankastarfsemi og ábyrgð bankastjórnenda gerð að engu heldur einnig lagður steinn í götu framfara með opnum og heilbrigðum stjórnarháttum.  

"......og ábyrgð bankastjórnenda..." !  Tókuð þið eftir því?

 
mbl.is Forkastanlegir stjórnarhættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekar skal veifa röngu tré en öngvu

Björn Bjarnason er og verður alltaf eins og asni. Þrár og þver en fylgin sér og að sama skapi staður og óhreyfanlegur til nokkurra hluta nema hann ákveði það sjálfur, rétt eins og asninn, það ágæta dýr, sem hefur í raun ekkert það til saka unnið að Birni Bjarnasyni sé til þess jafnað.

Trúr sinni frjálshyggju sannfæringu situr Björn Bjarnason fastur og óbifanlegur við sinn keip og kennir öllu öðru um núverandi ástand þjóðarskútunnar en því efnahagsstrandi sem 18 ára valdatíð og hugmyndafræði  Sjálfstæðisflokksins olli.

Vissulega var stigið eitt skref eða tvö fram á við í valdatíð Sjálfstæðisflokksins og það ætti vissulega að meta honum það til tekna, ef skrefin til baka í lok þeirrar valdatíðar hefðu ekki orðið 10.

Ekkert hefur breyst hjá Birni Bjarnasyni, hann situr enn á strandstað þjóðarskútunnar, hreytir og hrín ónotum og fúkyrðum í þá sem vinna hörðum höndum að ná þjóðarskútunni af strandstað sínum á  fjöru frjálshyggjunnar.  

Björn lætur eins og hann viti ekki að það hefur alltaf tekið til muna lengri tíma að ná skipum af strandstað en að stranda þeim.

Björn karlinn leggur allt traust sitt á að kjósendur séu fljótir að gleyma svo þeir feli Sjálfstæðisflokknum í næstu kosningum það vald að taka aftur upp sömu feigðarsiglinguna, siglinguna sem kom þjóðinni nákvæmlega þangað sem hún er stödd.

 


mbl.is Segir ríkisstjórnina standa atvinnulífinu fyrir þrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlegið gæti ég, væri mér skemmt

Iðnaðarráðherra hefur lagt fyrir ríkisstjórnina frumvarp um hámarksleigutíma á náttúruauðlindum landsins, til útlendinga væntanlega, eða til þess hljóta refirnir að vera skornir þó það komi ekki fram í fréttinni.

Verður afhending auðlinda landsins til útlendinga að góðu máli ef nýtingarleyfi þeirra verður stytt úr 65 árum í 30 eða  40 ár?  Verður sátt um það?

Rúsínan í pylsuendanum á þessari „lausn“ iðnaðarráðherra er að leigutaki getur svo sótt um framlengingu  á afnota réttinum um 20 ár. Heildarávinningurinn af þessu frumvarpi verður þá næsta lítill. 

Þessi lausn minnir mig á manninn sem sagði: „Betri er hálfur skaði en enginn.“


mbl.is Leigutími fari úr 65 árum í 30 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáum við Særýmisgæslu við Ísland?

Ég þykist skilja hvað þetta  stofnanaorðskrípi „loftrýmisgæsla“ eigi að merkja en ég skil ekki tilgang ráðuneytisins og fréttamanna að troða því stöðugt fram í stað þess ágæta  orðs lofthelgisgæsla, myndað af orðinu lofthelgi, sem segir og skýrir mun betur en loftrými, hvað um ræðir, samanber orðin landhelgi  og landhelgisgæsla.

Má kannski eiga von á því að stofnanamálsunnendur muni reyna að  útrýma orðinu landhelgi og innleiða í staðin orðið særými? Landhelgisgæslan verður þá væntanlega í framhaldinu Særýmisgæslan!

Svo má spyrja af hverju í ósköpunum er verið að eyða peningum í svona bull í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu,  nema auðvitað að þetta sé hluti af norrænu velferðarstefnunni til lausnar á vanda heimilana.


mbl.is Kanada sér um lofrýmisgæslu við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru hægt að lifa á því að eignast börn?

Útvarp Saga birtir daglega spurningu dagsins, oftast eru þær tengdar fjandskap útvarpsstöðvarinnar í garð ríkisstjórnarinnar og þannig orðaðar að niðurstaðan er giska fyrirsjáanleg. En í dag er aðeins sveigt af þeirri stefnu þótt illgirnin haldi sér.

Spurning dagsins á Útvarpi Sögu er: Telur þú að íslenskar konur séu að eignast börn til þess að gerast bótaþegar?

Undarlega er spurt, ætla mætti að sá eða sú sem spyr svona eigi engin börn og haldi að barneignir skapi foreldrum tekjur umfram gjöld.


mbl.is 4907 börn fæddust árið 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Femínfasisminn er feigðarflan

Það hvarflar ekki að mér hálft andartak að Jóhönnu Sigurðardóttur hafi dottið það í hug í sekúndubrot, að brjóta jafnréttislög , hvað þá að gera það vitandi vits.

Það verður ekki annað séð en farið hafi verið að lögum og vel vandað til verka við ráðningu skrifstofustjórans í forsætisráðuneytinu.  Kærunefnd jafnréttismála hefur þó komist að annarri niðurstöðu og það er vissulega alvarlegt mál. Því þarf að kryfja þetta mál til mergjar, fá óvilhalla aðila til að fara yfir vinnuferlið hjá ráðuneytinu sem og vinnubrögð kærunefndar og fá úrskurð dómstóla ef ekki vill betur til, þetta mál þarf að leiða til lykta, öll jafnréttislöggjöfin og framkvæmd hennar er undir.

Jafnréttislögin eiga að tryggja jafnrétti kynjanna og þá með jákvæðri mismunun ef ekki vill betur.  Jákvæð mismunun er þó í mínum augum ekkert annað en hrein mismunun, sama hvaða viðskeyti er hengt við hana og hversu jákvætt það er látið hljóma.  Þessari jákvæðu mismunun átti, ef ég hef skilið lögin rétt, aðeins að beita stæði valið, að mati loknu um jafn hæfa konu og karl.

En eitthvað virkar greinilega ekki í þessu ferli eins og til er ætlast svo jafnrétti kynjanna sé tryggt í embættisveitingum.  Eitthvað hefur illa brugðist og snúist upp í andhverfu sína eða hvernig  í ósköpunum getur kærunefndin túlkað það sem jafnréttisbrot á konu, sem metin var af sérfræðingum sem 5. hæfasti umsækjandinn, að hún hafi ekki verið tekin fram yfir alla hæfari en hana.

Ég tel mig hafa skýringuna, sá femínfasismi sem rekin er og dýrkaður af Jafnréttisstofu vegna „jákvæðrar“ oftúlkunar þeirrar stofnunar á jafnréttislögum og hefur tekið af mönnum völdin.  Augljóst er að þessi femínstofa hefur aðeins einn skilning á mannaráðningum hjá hinu opinbera:

Aldrei má ráða karla í störf hjá hinu opinbera, sæki kona um. Sæki engin kona um starfið skal auglýsa aftur og svo oft sem þarf til að tryggja konu í starfið. Verði því ekki við komið skal beita þeim ráðum sem best duga.

Það er svo vægast sagt stórfurðulegt að sjá fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem kölluðu ekki allt ömmu sína í pólitískum embættisveitingum og gengu oftar en ekki þvert á matsnefndir og álitsgjafa, jafnvel þvert á álit Hæstaréttar,  stíga fram núna, berja sér á brjóst af heilagri vandlætingu og kasta steinum í þá konu sem öðrum fremur hefur þokað jafnréttismálum á Íslandi fram á veg.

Þekkist eitthvað aumara? 


mbl.is Veit varla hvaðan á mig stendur veðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur þjóðin næga lyst á list?

Það er ekkert sem gefur tilefni til að ætla, þegar nýjabrumið verður farið af Hörpunni,  að aðsókn í þá liststarfsemi  sem þar fer fram, verði framvegis eitthvað umtalsvert meiri en hún er í sömu list í dag.

Ég held að menn ættu að halda sig á jörðunni og sjá hvernig mál þróast með aðsókn í Hörpuna áður en stokkið verður til og hafnar framkvæmdir við stækkun bílastæða og tilheyrandi gatnagerð, sem kannski verður ekki nein þörf fyrir, er frá líður.

Húsið, bygging þess, staðsetning og hugmyndafræðin öll að baki því, er stórslys í öllum skilningi. Það er glæpsamlegt, liggur mér við að segja, að bera það á borð fyrir þjóðina að húsið verði sjálfbært. Engin bygging á Íslandi sem hýsir liststarfsemi rekur sig og sína starfsemi sjálf. Þetta hús verður, því miður ekki bara baggi, heldur klafi á þjóðinni um ókomna tíð.  


mbl.is Setja á fót starfshóp um skipulag við Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af fýlunni má þekkja þá

Maður hefði nú haldið að hægribloggarar myndu fagna þessum skatta-lækkunaráformum, svo mög sem þeir hafa hamast gegn hækkuðum sköttum. En það er öðru nær, þeir eru hundfúlir, beinlínis argir, rétt eins og glæpnum hafi verið stolið frá þeim.

Grey skinnin, ætli séu verkir með þessu?


mbl.is Stefnt að lækkun skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi mér áður brá

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir stöðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, ekki aðeins neyðarlega heldur grafalvarlega. 

Eru ekki fleiri en ég sem lyfta brúnum og finnst það ofurlítið neyðarlegt þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, grafalvarleg í fasi, stendur upp á Alþingi og veitir öðrum þingmönnum siðferðisádrepur?

 


mbl.is Grafalvarleg staða ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband