Færsluflokkur: Dægurmál

Gott að eiga góða að

Nú stökkva olíufélögin væntanlega til og lækka verðið með sama hraði og um hækkun væri að ræða. Þau munu hugsa um hag viðskiptavina sinna nú sem fyrri daginn, sanniði til.

 


mbl.is Veruleg lækkun á olíuverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gula pressan

pamelaandersonxrayfi6Þær eru margar „örlátar“ stjörnurnar í Hollywood. Eða svo mætti ætla. En það er lítið gaman að vera stjarna og gefa í „gott málefni“  ef enginn veit af því. Tryggja þarf  pressunni allar upplýsingar, helst halda blaðamannafund, baða sig í fjölmiðlaljósinu svo allir geti notið þess með viðkomandi hve gott það er að vera ríkur og geta gefið „smáaura“,  af alsnægtum sínum.

Þegar „fátæka ekkjan“ úr hópi almennings gefur  „stórfé“  af skorti sínum, til góðs málefnis, er ekki boðað til blaðamannafunda,  enda hafa blaðamenn gulu pressunar og lesendur hennar ekki áhuga á slíku glamurleysi.   


mbl.is Gefur bílinn sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mánudagsmæðan

Ég var að viðra hundinn minn hann Bangsa eitt kvöldið fyrir stuttu. Við áttum leið framhjá girðingu þar sem nokkrir hestar voru á beit. Meðan við löbbuðum framhjá fór ég að veita  einum klárnum meiri athygli en hinum. Þetta var blesóttur jálkur, þreytulegur að sjá og hélt sig  nokkuð frá hinum hestunum. Ég gat ekki betur séð en hann væri að róta með snoppunni í einhverju rusli á túninu. Þá er ég horfi á þetta lýstur niður í huga mér minningu úr barnæsku, af Blesa, hesti á Skagaströnd sem var alveg í rusli, bókstaflega sagt.

Ég fór að grafa í fylgsnum hugans að því sem hann hafði að fela um þennan merka hest og þóttist þá muna þá að Rúnar Kristjánsson skáld og húsasmiður á Skagaströnd hafði skrifað grein um hestinn í Feyki, óháða fréttablaðið á norðurlandi vestra. Ég fór og grúskaði í gömlum Feykisblöðum og öðrum gögnum frá þessum tíma, sem ég varðveiti sem sjáöldur augna minna. Og greinin var þarna í Feyki frá 13. Sept. 1989.

Við lestur greinar Rúnars varð mér ljóst að hér var á ferð alger gimsteinn. Ég ætla að gerast svo djarfur að birta þessa grein Rúnars í heild hér á bloggi mínu að honum forspurðum og vona að hann fyrirgefi mér það.

Greinin er svohljóðandi:

Fyrir allmörgum árum var öllum íbúum Skagastrandar vel kunnur klár einn í eigu Sigurbjörns á Kárastöðum. Klár þessi hét Blesi, en sökum þess að hann sótti mjög í ruslatunnur bæjarbúa og sýndi mikla hugkvæmni í því að komast í góðgæti það sem þær höfðu að geyma, var nafn hans lengt og hann nefndur Tunnu-Blesi.

Jun09#01

Þarna var vissulega um mesta skynsemdarjálk að ræða, en ekki skorti hann þráann og einráðinn var hann í því alla sína tíð að fara helst sínar eigin leiðir.Athyglisvert var að fylgjast með honum þegar hann kom að ruslatunnu sem var með kyrfilega yfirfelldum hlemmi, þá var það venja hans að bera tanngarðana og leggja geiflur sínar snyrtilega um hölduna, kippa hlemminum upp með tilþrifum, henda honum til jarðar og stinga síðan hausnum niður í matvörudeildina. Aðrir ferfættir voru látnir skilja það, á ótvíræðan hátt, að hann ætlaði sér að sitja einn að krásunum.   (Hér var um að ræða tunnur gerðar úr olíutunnum með stálloki og því engin léttavara. Aths. Axel)

Tunnu-Blesi var  ekki gjarn á það að flýta sér, enda streitan í algjöru lágmarki hjá honum, hann var nefnilega heimspekilega sinnaður og spekúleraði áreiðanlega í mörgu. Mannlífið vakti greinilega áhuga hans og stundum var hann svo íhugull á svipinn, að sjá mátti að hann hugsaði bæði djúpt og fræðilega.

Oft stóð hann út við Norður- Skála, fyrir framan skrifstofur hreppsins og horfði inn um gluggana þar. Þorfinnur Bjarnason hefur áreiðanlega oft hugsað með sér; „hvað er þessi klár eiginlega að hugsa?“, því segja mátti að þeir Blesi horfðust stundum í augu í gegnum glerið. Hinsvegar mátti þá lesa úr svip þess ferfætta fyrir utan, að ólíkt hefðust þeir að, hann og oddvitinn þáverandi“.

Það vissu allir að Blesi var skynugur og vafalaust hefði hann orðið aðnjótandi hárra embætta, hefði hann verið uppi á dögum Caligula keisara, en þar sem Þorfinnur var og er allt önnur manngerð en umræddur keisari, var Blesa svo sem ekki gert hátt undir höfði. Hann varð að reyna að una glaður við sitt og labba frá tunnu til tunnu með alla sína hæfileika sem Þorfinnur aldrei viðurkenndi.

Börnum þótti gaman að koma á bak Blesa og var það hægðarleikur þegar hann var við tunnurnar, þá var hann það önnum kafinn að gramsa í þeim, að hann skeytti því oftast engu þó verið væri að príla upp á hann, en þó kom fyrir að hann sletti til taglinu og var það þá talandi tákn um að hætta skyldi leiknum.

Það var því almennt harmsefni yngri kynslóðarinnar þegar fréttist að Tunnu-Blesi væri horfinn og enginn vissi hvað af honum hefði orðið. Voru uppi ýmsar getgátur um hvarf hans og sumar þeirra ekki sérlega vel til þess fallnar að skýra málið. En svo var það uppgötvað að Blesi greyið hafði fallið ofan í alldjúpan skurð og skorðast þar svo illa að hann hefur sig hvergi getað hreyft. Mun hann við þær kringumstæður hafa beðið dauða síns, vafalaust með svipaðri sálarró og Skarphéðinn forðum við gaflhlaðið.

Þóttu endalok Blesa ill og ógæfuleg og þótti líklegt að hann hefði verið þungt hugsandi er hann átti leið þarna um og því ekki gætt að sér. Var bannsettur skurðurinn úthrópaður sem dauðagildra og gott ef hann var ekki fylltur upp fljótlega eftir þetta. Er nú mjög farið að fyrnast yfir feril Blesa og því þótti við hæfi að dusta rykið af minningu hans, eins kunnasta ferfætlings sem hér hefur alið aldur sinn og það við meiri vinsældir en margur tvífættur“.   

                                                             Rúnar Kristjánsson.  

Ég vona að lesendur hafi haft nokkuð gaman af þessari sögu af Tunnu-Blesa.


Sjómenn, til hamingju með daginn!

 

Mynd

Sjómannadagurinn er á morgun 1. júní. En víða um land eru aðalhátíðarhöldin  í dag. Svo er því háttað á Skagaströnd. Sjómenn og aðrir landsmenn, til hamingju með daginn!

 

Í dag 31. maí á dóttursonur minn og nafni Axel Þór Dunaway 4ja ára afmæli, það er því hátíð í bæ. Hann heldur upp á daginn hjá ömmu og afa á Skagaströnd. Til hamingju með daginn nafni.

Mynd 005


Algerlega fréttlaus ekki-frétt

Mér finnst Mbl.is óðum fara halloka gagnvart Vísi.is sem net og blogg miðill. Sumar fréttir virðast skila sér seint og illa inn á Mbl.is. Og renna svo sitt skeið á enda á örskömmum tíma.

Svo eru aðrar fréttir sem er haldið inni í langan tíma þrátt fyrir ótrúlega lítið fréttagildi og nánast ekkert innihald.

Það er ótrúlegt að sú frétt sem hér er vitnað í skuli yfir höfuð hafa komist á þrykk og hvað þá á Íslandi og sem úrval helstu frétta úr heimspressunni á Mbl.is, en umræddur atburður gerðist í krummaskuði í BNA.

Er heimsmynd ritstjóra Mbl.is  svo brengluð eða þokukennd að þetta sé í þeirra augum heimsviðburður og þungaviktarfrétt?


mbl.is Lögreglan rakti slóð sælgætisþjófanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær er klám list og hvenær er list klám?

Nú verða boðnar upp nektarmyndir af Carla Bruni forsetafrú Frakklands hjá Christie´s í Apríl og búist er við að rúm 300 þúsund fáist fyrir myndirnar!

„Milena Sales, talsmaður Christie's, sagði að ekkert væri óeðlilegt við að selja nektarmyndir af núverandi forsetafrú. Um væri að ræða listaverk, smekklega nektarmynd sem tekin væri af þekktum og virtum listamanni“ 

Takk fyrir. Verðið er hátt því hér er víst um list að ræða. En öðru gilti ef þessar myndir væru teknar af einhverjum Jóni Jónssyni út í bæ. Þá væri ekki farið í neinar grafgötur með að þar væri á ferðinni hreinræktað klám.

Ekki þarf að kaupa þessar myndir af forsetafrú Frakklands til að sjá hvernig hún lítur út á Evuklæðunum einum. Nægir að fara á Google og slá inn nafnið hennar til fá upp tugi ef ekki hundruð  síðna sem bjóða upp á slíkar myndir af frúnni.  En þær myndir eru örugglega klám sem eiga ekkert skylt við list, það hljóta allir að sjá.


mbl.is Nektarmynd af frönsku forsetafrúnni boðin upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algóður Guð

Út er komið 1. eintak tímaritsins SKAKKI TURNINN. Hið áhugaverðasta rit og lofar góðu. Í þessu blaði er m.a. grein sem ber nafnið VÍGAGUÐ eftir Illuga Jökulsson ritstjóra blaðsins. Þar er fjallað um textann í testamentunum eins og hann kemur fyrir, en ekki hentugleika túlkun eða seinni tíma skýringar.

„Guð Gamla testamentisins var ekkert lamb að leika sér við. Hann hvatti þjóð sína margsinnis til fjöldamorða og skipaði beinlínis svo fyrir að engum skyldi þyrmt. Ekki konum, ekki gamalmennum, ekki, börnum – drepið þau öll grenjaði Guð.Og Guð var líka liðtækur við manndrápin. Hann beitti þjóðernishreinsunum, efnavopnum, eiturhernaði og hryðjuverkum. Grimmd og miskunnarleysi voru einkenni hans þegar sá gállinn var á honum. Þegar Móses átti í höggi við faraó Egyptalands og faraó vildi láta undan kröfum Ísraelsmanna, þá herti Vígaguðinn hug hans á ný – í þeim eina tilgangi að hann gæti haldið áfram skefjalausum hermdarverkum sínum gegn Egyptum.

Þau hermdarverk og fjöldamorð lofsungu Ísraelsmenn síðar á páskahátíðinni og gera enn. Og íslensk börn læra enn sögu fjöldamorðanna á Egyptum eins og um hafi verið að ræða stórkostlegan sigur hins góða.

Vott um kærleika Guðs.“

Svona er upphaf þessarar greinar. Ekki er hægt að birta hana hér í heild sinni. Ég hvet alla að kaupa blaðið og lesa þess grein. Hún á erindi við alla hvort sem menn eru sammála því sem þar stendur eða ekki.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband