Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

„Faðir“ líttu þér nær

Ég man ekki betur en það hafi verið frétt um það nýlega,  að hafin væri rannsókn á banka páfagarðs   vegna gruns um peningaþvott ( þoli ekki orðið þvætti) og aðrar lagalegar vafasamar „yfirsjónir.“

Það er því ljóst að „skömm hins illa“ stendur sumum nær en þeir vilja vera láta og í skugga þeirra hefur ýmislegt blómstrað, sem illa þolir dagsljósið, og hefur gert lengur en elstu menn kjósa að muna.

  


mbl.is Páfi fordæmir „skömm hins illa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sandurinn fyllir, að meðaltali, eina íbúð á dag.

Jæja það á að bjóða út dýpkun í Landeyjahöfn. Ekki þarf Siglingastofnunin að reikna með því að fá hagkvæm tilboð því magntölurnar eru slíkar og vegna legu hafnarinnar er ólíklegt að skipið geti sinnt  öðrum verkum samhliða.

Siglingastofnun áætlar að 285.000 rúmmetrum af sandi þurfi að dæla úr höfninni á næstu 3 árum. Það gerir 95.000 m3  á ári, 260 m3 á dag!  Hvað ætli það sé mikið magn af sandi góðir hálsar? Það magn stútfyllir eina  105m2 , 4ja herbergja íbúð á degi hverjum!

Ólíklegt er af viðbrögðum og hugmyndum Siglingastofnunar til þessa að hún ofmeti vandann.

Svo er það stóra spurningin hvort þessi hafnargerð hafi verið galin frá upphafi eða hvort ágalli hafnarinnar sé nýtilkominn?

 

mbl.is Útboð á dýpkun í Landeyjarhöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannfjandsamlegar og dauðans hugmyndir

Þessi fyrirhugaði niðurskurður í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni er stórhættulegur. Þar með verður þegnum landsins illilega, og enn frekar en verið hefur, mismunað eftir búsetu. Það skelfilegasta við þessar hugmyndir er sú hætta,  þó þetta sé hugsað sem tímabundið neyðarúrræði, að þjónustan og störfin gangi aldrei til baka aftur.

Þvert á móti mun verða talið nauðsynlegt að ganga hreint til verks og flytja þjónustuna alfarið á Höfuðbólið vegna þess hve óhagkvæmar litlar einingarnar á landsbyggðinni eru orðnar eftir þessar skerðingarnar og þannig geti þær hvort eð er ekki þjónað íbúunum.

Hver króna sem ríkið sker niður í þjónustu, framkvæmdum og hverju því sem heldur uppi atvinnustiginu, kallar, þegar á næsta ári, á aðra krónu í niðurskurði  vegna samlegðar- og margföldunaráhrifa og óhjákvæmilegs tekjusamdráttar ríkisins því samfara.

Ísland er atvinnulega séð orðið anorexíusjúklingur, frekara svelti, kann að slá á magapínuna tímabundið, en dregur sjúklinginn óhjákvæmilega til dauða.


mbl.is Mun endurmeta tillögurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leirkarlarnir klappa og kóa undir í Valhöll

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins lét fundarmenn, á hádegisverðarfundi í Valhöll, klappa fyrir Geir H. Haarde. Það er engin nýlunda, og þarf engum að koma á óvart,  að í sölum Valhallar sé klappað og hrópað húrra fyrir mistæku liði og sérgæðingum, sem valdið hafa landi sínu ómældum skaða.

Bjarni sagði á fundinum að hann hefði áhyggjur af því að Landsdómsákæran á hendur Geir H. Haarde skapi það fordæmi að núverandi valdhafar og stjórnmálamenn framtíðarinnar verði ákærðir fyrir embættisafglöp.

Rétt eins og það ætti að vera sérstakt áhyggjuefni að þeir sæti ábyrgð, hafi þeir gerst, eða gerist, brotlegir við lög og embættisskyldur sínar!

Það eitt að Landsdómur hafi verið virkjaður í fyrsta sinn, ætti, dugi ekki annað, að vera stjórnmálamönnum það aðhald að þeir haldi sér innan þess ramma sem þeim er ætlað að vinna. Hvers vegna hefur formaður Sjálfstæðisflokksins slíkan beyg af því að það gangi eftir?

Bjarni segir Sjálfstæðismenn ekki ætla að taka þátt í þeim leðjuslag  sem hann segir stjórnmálin vera orðin, þess vegna eru Sjálfstæðismenn ekki brjálaðir yfir útkomunni, þess vegna hafa þeir ekki lagt fæð á þá þingmenn sem ekki kusu „rétt“ og þess vegna hóta þeir ekki að virða þá ekki viðlits og sér í lagi þess vegna, eru þeir ekki að láta að því liggja, að þeir muni hefna sín með Landsrétti, þegar þeir komast í aðstöðu til þess.

Hann er nú meiri leirkallinn þessi Bjarni.

Fréttin á Vísir.is.

   


Mulningur #57

Prinsinn kom á sveitakránna  eftir reiðtúr í skóginum og virtist hálf leiður. Vertinn spurði hvað væri að.

 „Ég var í reiðtúr  í töfraskóginum þegar ég sá Mjallhvíti liggjandi  á beði úr stráum. Dvergurinn sem gætti hennar sagði að hún svæfi því hún hefði borðað eitrað epli og það væri aðeins hægt að vekja hana með kossi frá mér. Svo ég kyssti hana á kinnina, en ekkert gerðist.“

„Nú“, sagði barþjóninn.

„Þá kyssti ég hana almennilega á munninn.“

„Og hvað, vaknaði hún?“

„Ekkert, það gerðist ekkert, ég ákvað þá að strjúka henni um hárið og áður en varði var ég farinn að njóta ásta með henni. Og allt í einu hrópaði hún. –Já, já, ójá, oohjááá.“

„Virkilega. Það er frábært“, sagði barþjóninn.  „Hún er þá á lífi?“

„Nei,“ stundi prinsinn jafn dapur og áður, „Hún var að feika það.“

  


Matargjafir til þingmanna

Ég ætla rétt að vona að forsetahjónin hafi ekki orðið fyrir eggjum og öðrum skeytum, þau eiga það sannarlega ekki skilið.

Þarna fengu þingmenn að reyna á eigin skinni kvöl þess fólks, sem þarf í neyð sinni að þiggja matargjafir, þó afgreiðslan í dag væri með öðrum og öllu ósnyrtilegri hætti en hjá fjölskylduhjálpinni og mæðrastyrksnefnd.

   


mbl.is Eggjum rigndi yfir þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.