Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
Fé án hirðis.
11.4.2009 | 18:31
Jæja eftir mikla leit hafa fundist kappar tveir til að gangast við því að hafa safnað sjóðnum súra. Þeir félagar hafa sent frá sér yfirlýsingu um málið. En ég fæ ekki séð að neitt hafi breyst. Það er eitt að safna fé, eða vera tilbúnir að reiða það fram, allt annar handleggur er að taka við því.
Enn er óútskýrt hvernig þessum köppum tókst að lauma peningunum inn í Valhöll án þess að nokkur sála, að Geir frátöldum, yrði þess var, eða hefði yfir hugmynd um að þetta fé flæddi um ganga Valhallar, þetta hefur því sannanlega verið fé án hirðis.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að skila aurunum en ekki samt öllum. Flokkurinn tók á árinu 2006 við samtals 30 milljónum frá Landsbankanum í tveim greiðslum 5 milljónum og 25 milljónum. 5 milljónunum verður ekki skilað því þær eru innan eðlilegra marka að sögn flokksins.
Ekki ætla ég að gera ágreining um það, vel kann að vera að 5 milljónir sé eðlilegt framlag.
En þá vaknar sú spurning að hvort allar 30 milljónirnar frá Landsbankanum og sama upphæð frá FL- group hefðu ekki verið innan eðlilegra marka hefðu þær verið reiddar fram í 6 eða fleiri greiðslum?
Dugir þetta til að stinga upp í þjóðina? Spyr sá sem ekki veit.
Söfnuðu fé fyrir flokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
I´m not a crook !“
11.4.2009 | 17:47
Það má segja að ástandið innan veggja Valhallar núna sé ekki ósvipað og það var í Hvíta húsinu í Votatúni þegar Nixon reyndi hvað hann gat að ljúga sig frá Watergate málinu. Þá sagði hann m.a. þessa gullvægu setningu, sem fleyg varð I´m not a crook , en allt kom fyrir ekki, hann var kominn yfir þann vendipunkt að eiga möguleika á að geta sannfært þjóðina um að hann væri eitthvað annað en það, sem hann þóttist ekki vera.
Nixon glataði trúverðugleika sínum með því að koma ekki strax hreint fram, með hálfsannleik og útúrsnúningum.
Það vantar mikið á að trúverðugar skýringar á máli málanna hafi komið frá Valhöll, helst hefur borið á dylgjum, hálfsannleik og útúrsnúningi, eða algerri þögn.
Nauðsynlegt er að fá allt upp á borðið í þessu máli. Er krafa sem sett hefur verið fram af Sjálfstæðismönnum jafnt og öðrum landsmönnum, en fátt er um svör nema þá helst ekki benda á mig, I´m not a crook. Sjálfstæðismenn eru óðum að koma að þeim vendipunkti að geta ekki sannfært þjóðina um að þeir séu eitthvað annað en þeir líta út fyrir að vera þessa stundina.
Á síðasta ári voru um tíma uppi háværar umræður um vafasamt fjármálavafstur Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þá menntamálaráðherra og Kristjáns Arasonar eiginmanns hennar, varðandi Kaupþing, í gegnum eignarhaldsfélag í þeirra eigu. Þorgerður lagði ríka áherslu á að allt yrði opinberað og flutti hástemmda yfirlýsingu um að engu yrði reynt að leyna, allt yrði lagt á borðið.
Enn hefur ekkert verið dregið upp á borð Þorgerðar og með það á bakinu fór hún á Landsfund FL-okksins og var þar endurkjörin varaformaður með glæsibrag. Það var væntanlega þessi meinta hreingerning Þorgerðar sem þeir, sem nú standa blóðugir upp fyrir haus, áttu við þegar þeir töluðu um naflaskoðun og uppgjör við fortíðina eftir landsfundinn.
Eins og viðkomandi frétt fjallar um þá virðist allt bera að sama brunni hjá FL-okknum hvar sem borið er niður. Sannleikurinn og siðferði yfir höfuð sett til hliðar og í besta falli notast við hálfsannleik og útúrsnúninga.
Er Sjálfstæðisflokkurinn orðin að Sópranosflokknum?Frábiðja sér misnotkun í pólitískum tilgangi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gölluðu sæði skilað?
9.4.2009 | 12:42
Þegar menn fá gallaða vöru afhenta er það eðlilegast að henni sé skilað og ný og ógölluð vara fengin í staðinn.
Gaman verður að sjá hvernig það ferli verður útfært í þessu tilfelli.
.
Í mál vegna gallaðra sæðisfruma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvernig ávinna menn sér traust?
9.4.2009 | 12:16
Það er í besta falli barnalegt af Sjálfstæðismönnum að reyna að setja málið þannig upp að Geir Haarde hafi einn, samþykkt, tekið á móti og vitað af peningunum í sjóðum flokksins. Til að það sé mögulegt hlýtur flokkurinn að halda svokallað rassvasabókhald og vera með allt niður um sig í fjárreiðum sínum. Það er ekki beinlínis í stíl við þá ímynd sem Valhallarenglarnir hafa viljað draga upp af sér þegar þeir hafa fullyrt að engum öðrum væri treystandi að fara með fjármál Íslenska ríkisins!
Guðlaugur Þór Þórðarson, rétt eins og allir nema Geir, neitaði því að hafa haft vitneskju um styrk FL til Sjálfstæðisflokksins. Samkvæmt þessari frétt Mbl þá eru það ósannindi, vægt til orða tekið. Hann mun ekki aðeins hafa haft vitneskju um málið, heldur haft að því beina aðkomu og forgöngu.
G.Þ.Þ var á þessum tíma stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur og það var einmitt til aðkomu þar, sem FL voru á þessum tíma að kaupa sér velvild með þessu tilliðkunarfé.
G.Þ.Þ segist hafa fjarvistarsönnun, því á þessum tíma hafi hann legið á sjúkrahúsi með brenndan bossann! Nú hefur Guðlaugur hlotið öllu alvarlegri brunasár. Á sínum tíma var hart sótt að Guðmundi Árna Stefánssyni, þá ráðherra, þegar hann réð ættingja sinn sem bílstjóra korteri fyrir gildistöku nýrra reglna. Engin lög voru brotin þá frekar en nú, en málið snérist þá, rétt eins og núna, um siðferði. Málið endaði með afsögn Guðmundar Árna, sem kom verulega brenndur frá málinu og ekki bara á óæðriendanum. Ekki er við því að búast að kórdrengirnir í Valhöll telji að þessum málum sé saman að jafna.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að skila peningunum og birta hverjir lögðu fram meira en milljón (!!??) á árinu 2006! Það á sem sagt að birta það sem þegar er vitað! Þvílík opinberun, þvílík syndaaflausn. Hvað með árin á undan? Verður svo reynt að telja fólki trú um að þar allt sé í lagi, rétt eins og sagt var um 2006 áður en upp komst?
Peningunum verður skilað, gott og vel, er þá allt slétt og fellt aftur, málið jafnvel gerðist aldrei? Hvernig verður því sem keypt var fyrir peningana skilað?
Allir flokkar verða að leggja bókhald undanfarinna ára á borðið, hvað sem öllu tali um trúnað við fjárveitendur viðkemur. Flokkarnir verða að virða trúnað við þjóðina hærra en trúnað við einstaka aðila, sé það ætlan þeirra að ávinna sér aftur traust þjóðarinnar eftir þá bresti sem óneytanlega voru komnir í þau samskipti eftir atburði undanfarinna mánaða.
Pukur og leynd um fjármál flokkana getur aldrei gert annað en að ala á tortryggni og grunsemdum um misferli.
Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tilliðkunarfé?
8.4.2009 | 13:08
Í gegnum FL Group rétti Hannes Smárason Sjálfstæðisflokknum 30 milljónir, rétt sí svona, korteri áður en lög um 300 þús. kr. hámarksframlög til stjórnmálaflokka tók gildi um áramótin 2006 og 2007.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur hælt sér ósköpin öll af þessari lagasetningu og þeirri siðbót sem þau þóttu, en fyrir gildistöku lagana þótti greinilega ekki nauðsynlegt að saman færu orð og æði.
Það verður nú vart lengra seilst í spillingunni en að fara ekki eftir eigin siðbótahugmyndum fyrr en lög gera þeim það skylt. Og til að bíta höfuðið af skömminni mun Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur hafa haft frumkvæðið og óskað eftir umræddri greiðslu!
Tíu dögum eftir að Hannes snaraði þessari dúsu inn um gættina í Valhöll er REI stofnað þar sem meiningin var að afhenda honum og öðrum völdum gæðingum miljarða tugi af almannafé á silfurfati í gegnum Orkuveituna. Tilviljun? Ótengd mál?
Setti Sjálfstæðisflokkurinn umrædda greiðslu í flokkssjóðinn sem skilyrði fyrir flokkslegri velvild um framgang REI málsins? Forystumenn Sjálfstæðisflokksins keppast nú hver um annan þveran að afneita allri vitneskju um málið.
Í framhaldi af þessu hlýtur sú spurning að vakna hvort slíkt tilliðkunarfé hafi ekki líka í einhverjum mæli runnið milliliðalaust til stjórnmálamanna fyrir velvildina og greiðann?
Eru aðrar afgreiðslur frá þessum tíma, hjá hinu opinbera, sama marki brenndar?
Hafði ekki hugmynd um þetta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldhúsdagur á Alþingi.
7.4.2009 | 22:38
Bjarni Benediktsson flutti í kvöld á Alþingi sína fyrstu eldhúsdagsræðu sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég varð satt að segja undrandi á því hvað ræðan var máttlaus, innihaldsrýr og illa flutt, sannast sagna. Það var engu líkara en taugatrekkur unglingur, hikstandi af sviðsskrekk væri að lesa upp efni sem hann hafði engan áhuga á.
Ég hugsa að Sjálfstæðismenn muni fljótlega átta sig á að þeir hefðu á landsfundinum, betur valið Kristján Þór Júlíusson til að leiða flokkinn. En þeir kusu að velja ætterni fram yfir mannkosti þó sú tíð sé almennt liðin að menn upphefjist af mannkostum annarra. Ekki þarf að óttast að sá Bjarni sem birtist okkur á skjánum í kvöld muni sópa fylgi að Sjálfstæðisflokknum í komandi kosningum, til þess þarf öllu meiri bóg.
Birkir J. Jónsson Framsóknarflokki kom mér verulega á óvart með ágætri ræðu. En ræðu kvöldsins átti Steingrímur J. Sigfússon eins og svo oft áður, um það verður ekki deilt.
Byggja þarf velferðarbrú | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |