Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Demantur eða kolamoli

Mér fannst þessi frétt um demanta stjörnuna fjarlægu skemmtileg, þann auð og þá möguleika sem hún í hendi fyrir mannkynið, þó ferðalag þangað verði aldrei annað en draumsýn.

En sá draumur virðist samt mun nær raunveruleikanum en hugsýn þingflokks Vinstri Grænna að atvinnustefna þeirra komi þessu landi einhvern tíma að gagni.

  


mbl.is Demantastjarna í geimnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherraábyrgðin uppvakin

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ákvað að skipta um stjórn Byggðastofnunar í heild sinni, henda út pólitískum kommiserum og skipa stofnunni í staðin faglega stjórn.

Bravó, loksins eitthvað að viti, liggur manni við að segja. En starfsemi Byggðastofnunar er og hefur aldrei verið fagleg og ekki beinlínis til þess ætlast enda ekki eðli byggðaáætlana að vera einfaldar og faglegar reiknikúnstir.

Ákvörðun ráðherra er í sjálfu sér heilbrigðin ein að því leitinu að þetta þyrfti að gera víðar í stjórnkerfinu og þar sem það ætti betur við. En þetta gengur ekki upp nema ný stjórn virði pólitískan tilgang Byggðastofnunar og markmið stjórnvalda í þeim efnum.

Þessi ákvörðun skerpir pólitíska ábyrgð ráðherra, segir Katrín Júlíusdóttir. Gott eitt um það að segja og vonandi að hún muni eftir því ef þessi ráðstöfun springur í andlitið á henni


mbl.is VG gagnrýnir iðnaðarráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppa í Heimdalli

HeimdallurEkkert er gleggra merki  um ríkjandi áhugaleysi um félög og félagasamtök, en þegar  sjálfkjörið verður í stjórnir þeirra.

Það fer varla hrollur um landsmenn, svona almennt,  þó tilvistarkreppa og áhugaleysi hrjái Heimdall þessa dagana og eitthvað inn í framtíðina.

Það er varla skaði þó samdráttur verði í sorpinu, svo kostnaðarsöm sem sorphreinsunin hefur reynst.


mbl.is Sjálfkjörið í stjórn Heimdallar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðleg megrun Framsóknar

imagesCAKW8E27Það væri reynandi fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson að prufa Katie Holmes aðferðina á aukakílóin.

Þessi þjóðernisrembumegrunarkúr sem Sigmundur er á núna þrælvirkar að vísu, en ekki á Sigmund sjálfan,  heldur Fram- sóknarflokkinn, sem skreppur  saman og rýrnar hratt þessa dagana.

Framsóknarflokkurinn var raunar, fyrir þetta megrunarátak formannsins, þegar svo illahaldin af anorexíu að vart var á þau ósköp bætandi.

   


mbl.is Katie Holmes horast niður á hráfæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grefur Svandís Kvikmyndaskólann upp eða niður?

Með fullri virðingu fyrir Svandísi Svavarsdóttur, þá get ég ekki með nokkru móti séð hana fyrir mér leiða deiluna um Kvikmyndaskólann til lausnar og farsælla lykta.

Mér hefur alla tíð fundist Svandís og verk hennar sýna að hún sé þeirrar náttúru að kunna ekki annað  en dýpka þær holur sem hún álpast ofaní.

Vonandi afsannar Svandís þessa kenningu mína í þessu leiðinda máli.


mbl.is Náðu ekki saman við ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Bjarnason tekur snöggan framsóknarhælkrók á hag neytenda

Allir kannast við tvöfalt verðkerfi flutningafyrirtækja, ef pakkinn er stór miðað við þyngd, er borgað eftir rúmmáli, en ef pakkinn er lítill miðað við þyngd ræður þyngdin gjaldinu.  Þetta tryggir að alltaf er rukkað hæsta mögulega gjald.

Jón Bjarnason hefur áttað sig á þessu og tekið þetta upp á sína arma, enda kjörin aðferð til að slá í og úr, sem er ær og kýr landbúnaðarráðherrans.

Því tekur Jón núna snöggan framsóknarhælkrók á innflutning matvæla til að tryggja fæðuöryggið að hans sögn. Sennilega væri auðveldara og hagstæðara fyrir ríkið og almenning að tryggja fæðuöryggið með því einu að flytja aðeins minna út af niðurgreiddu kjöti.

Framsóknar hælkrókurinn tryggir að ávalt sé valin versti  kosturinn fyrir hag neytenda til verndar þröngum og annarlegum hagsmunum úrelts landbúnaðarkerfis. Jóni er manna best treystandi til að velja til skiptis magntoll eða verðtoll, taka framsóknarhælkróka hægri vinstri til að hindra sem mest og frekast framgang heilbrigðra viðskiptahátta sem yrðu neytendum til hagsbóta.

  

 


mbl.is Tók mið af gjaldeyrishöftum og fæðuöryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víða eru matarholurnar

Talsmenn sveitarfélagana ryðjast hver um annan þveran í fjölmiðlum og fréttatímum að útlista hve erfitt það verður sveitarfélögunum að mæta kostnaðinum við samningana sem þeir gerðu við leikskólakennarana.

Allir skulu fá að vita að afleit útkoma á rekstrareikningum sveitarfélagana verður ekki kjörnum stjórnendum þeirra að kenna heldur ósanngjörnum og frekum leikskólakennurum, þeir beri ábyrgð á niðurskurði framkvæmda og hækkunum á gjaldskrá og þjónustu.

Þessi fjölmiðla taktík  sveitarstjórnarmanna er farið að minna illa á Ernu Hauksdóttur talsmann ferðaþjónustunnar sem mætir inn á stofugólf með raunasögurnar um leið og einhverstaðar stíflast ræsi.

7% upphafshækkun launa eru nú ekki þau ósköpin að allt fari á hliðina. Ég minnist þess ekki að talsmenn sveitarfélagana fylli út í fréttatímana þegar þeir í annan tíma lauma hækkunum á gjöldum og þjónustu á íbúanna.

En niðurskurður er ekki alltaf af hinu illa, ef skorið er á réttum stöðum. 500 manna sveitarfélag eitt úti á landi gæti fjármagnað allan kostnaðinn og gott betur með smá „niðurskurði“. Hjá þessu sveitarfélagi starfar markaðsráðgjafi!  Hvorki meira né minna.

Enginn utan hreppsnefndarinnar virðist vita hlutverk hans og  verksvið, utan að makka rétt á fjögurra ára fresti. Telja mætti að varanleg tilfærsla hans úr starfi teldist frekar ráðdeild en niðurskurður.

Til að mynda eru hér í Grindavík 2 byggingarfulltrúar en aðeins tvö eða þrjú hús í smíðum. Þrátt fyrir kreppuna hefur engin breyting orðið á þessu sviði bæjarins frá því allt var sem vitlausast og brjálaðast í byggingariðnaðinum fyrir hrun.  Svo mikið er samt að gera hjá þeim köppum að byggingaraðili þurfti í nóvember s.l.  í tvígang að fá byggingarfulltrúa úr Reykjanesbæ fyrir  steypuúttekt.

Ég hef trú á að víða sé í yfirstjórnum sveitarfélaga slíkar matarholur, sem hægt væri sársaukalaust,  án þess að nokkur taki eftir því, að ráðstafa í launahækkun leikskólakennara.  


mbl.is Sveitarfélögin skoða hvernig launahækkun verður mætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann var hressilegur....

....kippurinn sem reið yfir rétt í þessu (Kl 22.14) hér í Grindavík.

Það var eins og húsinu væri hent til og síðan ruggaði það vel á eftir.

Allt hékk þó í hillum.

 

Táradalurinn mikli

Samtök atvinnulífsins tala aldrei um annað en erfiða tíma, hjá þeim eru aldrei góðæri, engu auðveldara er fyrir launþega eitthvað til þeirra að sækja þegar best lætur en verst.

Það er grátið út í eitt hjá SA, sama hvernig ástandið er. Þeir mega eiga það, að í grátinum standa þeir sig vel hjá SA, Grátmundur  formaður og Tárahjálmur framkvæmdastjóri. Tárahjálmur hefur sennilega landsins stærstu tárakyrtla síðan Kristján Ragnarsson var og hét hjá LÍÚ. Sá gat nú grátið, og grætt alla í kringum sig, gott ef hann var ekki ábyrgur fyrir syndaflóðinu forðum.

Hvergi er slegið af taumlausri græðgi og tilætlunarsemi þeirra ríku og kröfum þeirra á ríkið um ívilnanir og skattalækkanir hverskonar.

Til eru þeir stóreignamenn og atvinnujöfrar sem sjá ljósið, en andskoti eru þeir orðnir fáir. Warren Buffett hvatti nýverið til skattahækkana á sér og öðrum hátekju- og stóreignamönnum  í Bandaríkjunum.

Hann sagði þá ofurríku endalaust gera ósanngjarnar kröfur um skattalækkanir og ívilnanir hverskonar án þess að leggja nokkuð sem neinu næmi til samfélagsins og til varnar landinu meðan millistéttin og látekjufólk bæri byrðarnar og mannaði herinn, honum og öðrum efnamönnum til varnar.

Svona maður var Þorvaldur heitinn í Síld og Fisk, hann borgaði sína skatta og skyldur með bros á vör og glöðu geði og bað jafnvel um meira.

En síðan Þorvaldur hvarf yfir móðuna miklu hafa Íslendingar engan auðmann átt sem ekki telur verulega að sér vegið með sköttum og gjöldum hverskonar. Einu gildir hversu hratt, kröftuglega og vel auðmenn okkar hafa efnast. Hver króna sem samfélagið krefst af þeim er rán í þeirra augum, jafnvel þó þeim hafi áskotnast meira fé en þeim endist ævin til að eyða, þó þeir gerðu ekki annað.

Svo gráta þeir og gráta, búmennirnir í AS, sem sögðu vaxtalækkun í kjölfar hrunsins forsendu fyrir þeirra upprisu, vextirnir lækkuðu, en þeir liggja enn vælandi með nefið í sverðinum og krefjast þess að þeim verði snýtt, þegar þeim hentar.

  


mbl.is Mótmæla skattahækkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitaveita á Skagaströnd - Góð áform en ekki endilega þau bestu

Það var frétt á vef RUV nýlega og nú í dag á Vísir.is að viðræður væru í gangi milli Sveitarfélagsins Skagastrandar og RARIK um lagningu hitaveitu frá Reykjum, innan við Blönduós, og út á Skagaströnd.

SkagaströndEkki er vafamál að veruleg lækkun húshitunarkostnaðar yrði hreinn hvalreki fyrir Skagstrendinga. En er lagning 35 km langrar hitaveitulagnar og dreifikerfis um Skagaströnd besti kosturinn fyrir íbúana og samfélagið í heild?

Kastað hefur verið fram að þessi framkvæmd muni kosta á annan milljarð, það segir okkur að 2 milljarðar hið minnsta verði niðurstaðan. Þá er ekki talin kostnaður fjölmargra húseigenda að breyta úr rafmagnsþilofnum í vatnskerfi. Það er vart undir einni og hálfri milljón á hús og óvíst að allir verði sáttir þó tilneyddir verði. 

RARIK, sem á hitaveituna, selur nú þegar alla orku til húshitunar á Skagaströnd. Orku sem flutt er eftir raflögnum nákvæmlega þessa sömu leið. Hitaveita yrði þá ný orkulögn samhliða núverandi orkulögn til að flytja þessa sömu orku, sömu leið, en aðeins í öðru formi.

Áætlað er að heitavatnið yrði á þetta 30 til 40% lægra verði en rafmagnið. Gott og vel, en hvaða skynsemi er í því fyrir RARIK að leggja nýja lögn upp á tvo milljarða aðeins til þess að lækka verðið um 40%?

Miklu nær væri að RARIK lækkaði hreinlega verðið á raforkunni til húshitunar á Skagaströnd um þessa upphæð og sparaði sér miljarðana tvo. Raunar mætti lækka orkuna meira, jafnvel 50 til 60% til að koma út á sléttu, þar sem þá þyrfti ekki að greiða upp stofnkostnaðinn við hitaveituna.

Það kann að vera að lagabreytinga sé þörf til að þetta sé  mögulegt, en lagabreytingar hafa verið gerðar af minna tilefni en tveim milljörðum.

Þetta er óskaplega mikið 2007 og hreinlega galið að ætla að eyða 2 milljörðum til að lækka húshitunarkostnað á Skagaströnd þegar hægt er að fá sömu niðurstöðu fyrir íbúa Skagastrandar með einni stjórnarsamþykkt í RARIK, og kostar ekki krónu.

Fleiri fréttir um sama efni hér , og hér.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband