Færsluflokkur: Mulningur

Mulningur #13

stressKunningi minn vann um tíma mjög mikið og var gangandi auglýsing á stress- og þreytueinkennum. Þegar honum var boðið að taka þátt í námskeiði í slökun og streitulosun var hann fljótur að þiggja það.

En hann komst fljótt að því að námskeiðið var ekki rétta svarið við vandamálum hans,  þegar leiðbeinandinn kom allt of seint í fyrsta tímann, móður og másandi og tilkynnti:

„Til þess að koma til móts við þá mörgu sem hafa mjög nauman tíma verður þessu fimm daga námskeiði hraðað svo við getum lokið því á tveim dögum.“  

 

 


Mulningur #12

Fyrir nokkrum árum þurfti stjórn dýragarðsins í Kirby Misperton í Englandi að greiða fólki bætur fyrir muni sem aparnir í dýragarðinum þrifu af því.

Menn furðuðu sig á því hve mikið af því sem þurfti að bæta voru gleraugu. Rannsóknarnefnd var sett á laggirnar og eftir ýtarlega rannsókn leysti hún málið.

Aparnir náðu gleraugunum af fólkinu þegar það laut fram til að sjá á lítið skilti, með enn minna letri, sem fest var á apabúrið.

Á skiltinu stóð:

„VARÚÐ ÞESSIR APAR STELA GLERAUGUM.“

 

Mulningur #11

Hestamenn á Héraði buðu eitt sinn þeim snjalla og landskunna hagyrðingi Hákoni Aðalsteinssyni að koma með þeim í útreiðatúr. Hákon var ekki mjög áhugasamur og afþakkaði boðið með þessari vísu:

Týndir og slasaðir bíða menn bana,

sem bægslast á hestum um grundir og hlíð.

Ég hef til þessa haft fyrir vana

að horfast í augu við það sem ég ríð.


Mulningur #10

„Er ekki enn búið að finna manninn sem henti Sigmundi Davíð í höfnina?“

„Nei, allt kapp hefur verið lagt á að finna fíflið sem bjargaði honum.“

 

Mulningur #9

Fátt er  skemmtilegra en geta gert grín að sjálfum sér eða sínum. 

Nafni minn og dóttursonur, sem er 6 ára gutti er dýrðarinnar barn rétt eins og hin barnabörnin mín. Margt ótrúlegt ratar úr hans munni.

Hann var á ferðinni eftir Reykjanesbrautinni ásamt móður sinni og hennar manni. Hann tók upp á því að telja ljósastaurana sem þutu hjá.

1..2..3..4..5..6.... ....26..27..,og nú er komið að bónustölu kvöldsins, sem er 28,, ..29..30..31!

 

Mulnigur #8

Margar sögur eru til af því hve Sovéska kerfið var rotið meðan það var og hét. Hér er ein.

Maður einn hafði bækistöð í Gorkigarðinum í Moskvu og stóð þar daglangt og seldi ónýtar ljósaperur . Þær voru orðnar svartar að innan og hringlaði í þeim væru þær hristar.

Rússarnir keyptu þessar perur og fóru með þær í vinnuna þar sem þeir skrúfuðu heilar perur úr perustæðum og settu þær ónýtu í staðinn. Heilu perurnar fóru þeir með heim og voru þar komnir með heilar perur fyrir lítið.

Húsvörðum sem skiptu um perur, var ljóst að sprungnu perurnar voru ekki þær sem þeir voru nýbúnir að skipta um, en þeim var alveg sama því þeir fóru með sprungnu perurnar og seldu þær manninum í Gorkígarðinum.

 

Mulningur #7

     „Ég þori að veðja að þú manst ekki hvaða dagur er í dag.“ Sagði konan við Hannes manninn sinn þegar hann var að fara út úr dyrunum í vinnuna.

   „Víst man ég það ,“ svaraði Hannes önugur. „Heldur þú að ég sé algjör pappakassi?“

    Um tíuleytið var dyrabjöllunni hringt og þegar konan opnaði dyrnar var þar sendill sem rétti henni vönd með tíu stilklöngum rósum. Um eittleytið kom stærðar askja af eftirlætis konfektinu hennar og um fjögurleytið kom afskaplega fallegur og að sama skapi rándýr kjóll.

   Konan gat varla beðið eftir að Hannes  kæmi heim.

 „Þvílíkur dagur Hannes!“ Hrópaði hún.    „Fyrst blóm, svo konfekt og loks þessi æðislegi kjóll! Ég hef aldrei á ævi minni vitað betri 1. Apríl.“


Mulningur #6

  Skurðlækningar Skurðlæknir á sjúkrahúsi var á stofugangi. Hann kom að einum sjúklinga sinna, sem hann hafði skorið upp við kviðsliti þrem dögum áður. Læknirinn las manninum pistilinn fyrir að hafa ekki farið fram úr eins og fyrir hann var lagt. 

„Þú getur trútt um talað,“ svaraði sjúklingurinn önugur. „Þú veist ekkert hvernig þetta er.“ 

„Ég veit nákvæmlega hvernig þetta er,“ svaraði læknirinn jafnsnúðugur. „Ég gekkst undir sömu aðgerð í síðasta mánuði og var kominn aftur til vinnu á þriðja degi eftir það. Það var enginn munur á aðgerðinni sem var gerð á mér og þeirri sem var gerð á þér.“

  „Jú einn að minnsta kosti,“ svaraði sjúklingurinn, „þú hafðir annan lækni.“


Mulningur #5

   RA-856TUPOLEV Íslendingur var í viðskiptaferð í Sovét- ríkjunum og þurfti að fljúga með Аэрофлот (Aeroflot  Sovéska ríkisflugfélagið) á milli borga innanlands.

Landanum var ekki rótt, því margar ljótar  sögurnar hafði hann heyrt af slæmu viðhaldi á vélum flugfélagsins. En annar valkostur var ekki í boði, svo hann varð að láta slag standa.   

   Þegar farþegarnir voru komnir um borð var flugvélinni ekið út á brautarendann. Hreyflarnir voru þandir á brautarendanum og flugtak undirbúið. En skyndilega var hætt við flugtak og vélinni ekið aftur upp að flugstöðinni.    

   Vinur okkar hóaði í eina flugfreyjuna og spurði hvað væri í gangi.    

  „Þegar var verið að reyna hreyflana þá líkaði flugmönnunum ekki hljóðið í þeim svo við urðum að hætta við flugtak.“ Sagði flugfreyjan og brosti sínu breiðasta.  

   "Er þá verið að snúa við til viðgerðar?“ spurði vinurinn.

   „Nei, nei, það á að skipta um flugmenn.“ Svaraði flugfreyjan hin rólegasta.

 

Mulningur #4

   Saga af sjónum.

  USS_Reeves_(CG-24)Sjóliði á USS Reeves á siglingu frá Bandaríkjunum til Japan var sekur fundinn um minni háttar yfirsjón, lækkaður um eitt þrep í tign, dæmdur í sekt og til að ganga aukavaktir í þrjár vikur.

  Inn í þetta tímabil kom afmælið hans, 2. júlí, sem hann hlakkaði mikið til. Þess vegna stappaði hann í sig stálinu með því að þrástaglast á hverri aukavakt á því sama: „Þeir geta dæmt mig, þeir geta sektað mig, en þeir geta aldrei tekið af mér afmælisdaginn minn.“ 

  Spennan magnaðist eftir því sem nær dró afmælisdeginum.  Þegar pilturinn skreið í koju að kvöldi 1. júlí fór hann með þuluna sína venju samkvæmt:  „Þeir geta dæmt mig, þeir geta sektað mig, en þeir geta aldrei tekið af mér afmælisdaginn minn.“

  En næsta morgun komst hann að því að um nóttina hafði skipið farið vestur yfir daglínuna – svo nú var allt í einu kominn 3. Júlí.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband