Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Sjómenn, til hamingju með daginn!

 

Mynd

Sjómannadagurinn er á morgun 1. júní. En víða um land eru aðalhátíðarhöldin  í dag. Svo er því háttað á Skagaströnd. Sjómenn og aðrir landsmenn, til hamingju með daginn!

 

Í dag 31. maí á dóttursonur minn og nafni Axel Þór Dunaway 4ja ára afmæli, það er því hátíð í bæ. Hann heldur upp á daginn hjá ömmu og afa á Skagaströnd. Til hamingju með daginn nafni.

Mynd 005


Flagð undir fögru skinni

 Condoleezza Rice

Það hefði einhvertíma verið kallaður einbeittur brotavilji sú afstaða  Condoleezzu Rice að sjá ekkert  athugavert við meðhöndlun Bandaríkjanna á föngum í fangabúðunum við Guantánamoflóa á Kúbu. Þar sem föngum hefur verið haldið árum saman án dóms og laga. Með því að geyma þá á Kúbu hafa þeir getað skáskotið sér undan eigin lögum um meðferð fanga.

Þeir eru fljótir að sjá flísina í auga náungans Kanarnir, en sjá ekki bjálkann í eigin auga. Frú Rice er vissulega flagð undir fögru skinni.


mbl.is Mannréttindabrotum vísað á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lán í óláni

jardskjalfti

Annar Suðurlandsskjálftinn á 8 árum reið yfir um miðjan dag í gær, eins og hvert mannsbarn á Íslandi veit. Það var mikil mildi að ekkert manntjón varð en 28 slösuðust, enginn alvarlega eftir því sem best er vitað. Þessi skjálfti var álíka sterkur og 17. júní skjálftinn árið 2000 en olli miklu meira tjóni, þar sem upptök hans voru miklu nær byggð.

Það var gífurlegt lán í öllu óláninu að báðir þessir skjálftar urðu að sumarlægi við bestu hugsanlegu veðurskilyrði. Það væri ekkert grín að fá slíkan skjálfta í slæmu veðri um hávetur.

 
mbl.is Afar öflugur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukaverkanir lyfja

 lyf 001

Þó ég neyti lyfja að staðaldri, hef ég lítið spáð í lyfin, verkan og andverkan. Hef kosið að treysta læknunum og geri enn. Ég var að byrja á nýju lyfi  í vikunni. Lyfinu fylgdu ýtarlegar upplýsingar, ég gluggaði í listann og kaflinn um aukaverkanir vakti athygli  mína. Um aukaverkanir segir þar:

Algengar aukaverkanir:

Bólgnir ökklar, höfuðverkur, ógleði, svimi, þreyta, syfja, magaverkir, hjartsláttarónot  og roði í andliti.

Sjaldgæfar aukaverkanir:

Skyndilegt meðvitundarleysi, brjóstverkur, munnþurrkur, aukin svitamyndun, snertiskynsminnkun, breytt húðskyn, skjálfti, kraftleysi, bakverkir, slappleiki, verkir, þyngdaraukning, lágþrýstingur, breyttar hægðavenjur, meltingartruflanir, uppköst, getuleysi, svefnleysi, skapbreytingar,  vöðva- og liðverkir, vöðvakrampar, æðaslit, andnauð, nefkvef, hárlos, kláði, útbrot, litabreytingar á húð, tíðari þvaglát, truflanir á þvaglátum, næturþvaglát, sjóntruflanir, eyrnasuð, breytingar á bragðskyni.

Örfá tilvik:

Ofsakláði, þyngdartap, ofvöxtur í tannholdi, æðabólga, brjóstastækkun hjá körlum, hækkaður blóðsykur, einkenni frá taugakerfi með breytingum á tilfinningum og kraftleysi, hósti.

Í einstaka tilfellum hafa komið fram aðrar en ekki alvarlegar aukaverkanir!

Svo mörg voru þau orð.

Nú kynni einhver að spyrja hvort þetta lyf geri meira gagn en ógagn. Spyr sá sem ekki veit. Það væri þokkalegt að fá allan „pakkann“.


Fyrirmyndarráðherra

 

Ég myndi seint velja Sturlu og félaga til forystu í hagsmunafélagi sem ég ætti aðild að. En ég get verið sammála þeim hvað Jóhönnu Sigurðardóttur varðar. Hún er eini núverandi þingmaður og ráðherra sem ég ber óskipta virðingu fyrir. Þingmenn aðrir gætu margt af henni lært og ættu að taka hana sér til fyrirmyndar.

Jóhanna fær líka rósir frá mér.

  





mbl.is Fyrst og fremst táknræn athöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

321 meðal Gunna = 1 ofur Jón !!

 

Samkvæmt upplýsingum frá ASÍ þiggur æðsti stjórnandi Kaupþings laun á ári hverju, sem nema 321 árslaunum verkakvenna.  Það tekur 7 konur alla starfsævina að vinna fyrir einum árlaunum hans.

Fyrr má nú rota en dauðrota!  

Það eru erfiðleikar hjá bönkunum núna samkvæmt fréttum. Erfiðleikar sem stjórnendur þeirra hafa komið þeim í með taumlausu bruðli, stjórlausri græðgi og fjárfestingasýki til hægri og vinstri. Og þegar kreppir að koma ráðamenn þjóðarinnar klappa þeim á bakið og dusta rykið af töfralausninni, þjóðarsátt er hún víst kölluð. Og fólk er hvatt til að sína aðhald og ráðdeild. Það hefði nú verið nær að beina þessum föðurlegu varnaðarorðum að bönkunum.

Þjóðarsáttin felst aðallega í því að á þessar 321 verkakonu eru lagðar auknar byrðar og kaup þeirra skert með verkfæri sem heitir gengissig eða öðru nafni verðbólga. Ríkissjóður stendur þessa dagana í mestu lántökum í sögu ríkisins til að „styðja við bankanna“ eins og það er kallað. Kostnaðinum af lántökunni verður ekki sendur bönkunum, það er nokkuð ljóst. Honum verður í anda þjóðarsáttar deilt bróðurlega  á allar  321 verkakonur þessa lands.  

Á meðan sitja höfundar og arkitektar kreppunnar áfram á friðarstóli og þiggja sín stjarnfræðilaun óskert  og standa nánast stikk frí á meðan kreppan gengur hjá garði. Gott ef að þeim verður ekki gaukað einhverjum bónusum  svo þeir fái nú ekki streituköst og niðurgang af áhyggjum að eiga ekki fyrir nýja Range Rovernum  um mánaðarmótin.

Nánast ríkir alkul á húsnæðismarkaðnum, þökk sé bönkunum. Íbúðalánasjóður hefur bjargað því sem bjargað verður. Bankarnir reyndu hvað þeir gátu  að sölsa undir sig sjóðinn með fulltingi íhaldsins en tókst ekki vegna andstöðu, fyrst Framsóknarflokksins sem hafði húsnæðismálin á sinni könnu í fyrri ríkisstjórn og nú andstöðu Jóhönnu Sigurðardóttur í núverandi stjórn.  

Ég nefni Jóhönnu en ekki Samfylkinguna, því ég veit klárlega afstöðu hennar í málinu en er ekki eins viss um heilindi flokksins í málinu. Jóhanna er eini ráðherrann og raunar eini þingmaðurinn, sem ég ber óskipta virðingu fyrir.

Þrátt fyrir að Íbúðalánasjóður hafi sannað gildi sitt svo um munar í þessu ástandi sem nú ríkir dúkkar upp einn og einn fulltrúi bankanna í fjölmiðlum og syngja hjáróma gamla sönginn að sjóðurinn verði lagður niður og starfsemi hans færð til bankana. Þessir menn kunna ekki að skammast sín.


mbl.is Sjöfaldar ævitekjur á einu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mengaður rétttrúnaður

Það er deginum ljósara að þarna hefur heilagri jörð verið spillt af óguðlegri návist kvennanna. Sennilega þarf að skipta út spilltum  jarðveginum og setja í hans stað „ómengaðan“ rétttrúnaðar jarðveg sem hefur ekki verið snertur af þessum hræðilegu verum, mæðrum mannkynnis.

mosesÞað væri vert að benda þeim rétttrúuðu á að setja sig í samband við Reykjavíkurborg. Ráðamenn hennar og undirmenn þeirra hafa sýnt frammúrskarandi vel útfærða verkkunnáttu í förgun og frágangi á olíumenguðum jarðvegi.

En kannski er trúarleg mengun allt annað.

 


mbl.is Þúsund ára gamalt kvennabann brotið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Idolfangi

 „Idolstjarnan Karl Bjarni Guðmundsson fær að afplána tveggja ára fangelsisdóm sinn á Kvíabryggju. Þangað er hann nú kominn eftir að hafa eytt tæpum mánuði í afplánun í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Kalli Bjarni fékk fangelsisdóm fyrir að hafa flutt inn tæp tvö kíló af kókaíni á síðasta ári“.

Kalli BSvo segir í frétt á Vísi.is í dag. Ég get ekki neitað því að mér var verulega brugðið við lestur fréttarinnar.

Er það virkilega svo að eiturlyfjainnflytjendur og eiturlyfjaneytendur í neyslu séu settir til afplánunar á Kvíabryggju?  Hvaða tilraun er hér í gangi? Hvað hefur K.B. til unnið að fá svo væga silkihanskameðferð? 

Fáránlega vægur dómurinn, tvö ár og svo þessi gjörningur er sem blaut tuska í andlit foreldra þeirra unglinga sem orðið hafa eiturlyfjum að bráð. Foreldra sem ekki hafa litið glaðan dag mánuðum eða árum saman vegna manna eins og K.B., sem tekið hafa það að sér að smygla til landsins, eitrinu í æðar barnanna okkar.  

Fréttinni á Vísir.is lýkur á þessum orðum móður K.B.;  ástæða þess að hann fái að afplána á Kvíabryggju sé sú að Kalli Bjarni hafi verið edrú allt frá því að hann hóf afplánun í Hegningarhúsinu (í) byrjun maí“. !!!

Móðir Kalla Bjarna hefur eðlilega áhyggjur af syni sínum, hvaða foreldri hefur það ekki?  Ég vona svo sannarlega að sonurinn nái að rífa sig upp úr þeim sorapytti sem hann er sokkinn í og fjölskyldan geti átt þessa hræðilegu lífsreynslu að baki þegar K.B. lýkur afplánun.  Það væri gott að geta óskað fórnarlömbum eiturlyfja og aðstandendum þeirra hins sama.

En ég deili ekki með henni þeirri skoðun að Kvíabryggja sé rétti staðurinn til að koma K.B. á réttan kjöl. Það að geta verið edrú í mánuð bakvið luktar dyr Hegningarhússins verður vart talið til afreka og staðfestu. Hins vegar reynir á staðfestu og vilja að halda sér edrú í tvö ár í hinu galopna „fangelsi“ Kvíabryggju. K.B. hefur ekki sýnt þann vilja og staðfestu síðan dómur féll, þrátt fyrir stór orð þar um.

Ég óttast að þessi undarlega tilraun sé dæmd til að mislukkast.

Fréttin á Vísi.is hér.


Lifir Obama af?

Þó keppni þeirra Obama og Clinton sé ekki formlega lokið, virðist fátt geta komið í veg fyrir að Demókrataflokkurinn útnefni Obama sem forsetaframbjóðanda sinn.  Hvernig sem á þessa keppni þeirra er litið er ljóst að stórmerkilegur atburður hefur verið skráður í sögu Bandaríkjanna. Það er búið að vera ljóst um nokkurn tíma að kona eða blökkumaður mundi keppa við McCain um húsbóndavaldið í Hvítahúsinu.  

Það er vert að hrósa Bandaríkjamönnum fyrir að stíga þetta risastóra og stórkostlega skref í réttindabaráttu blökkumanna og kvenna.

En því miður er það jafnframt deginum ljósara að ekki munu allir sáttir með þessa þróun mála. Og þá ekki hvað síst menn, sem telja það tilgang lífsins að hata litað fólk og þá er vægt  til orða tekið. Þessi „rjómi hvíta kynstofnsins“ mun vilja allt til vinna að koma í veg fyrir að Obama verði forseti. Þá er ég ekki að meina að þeir muni láta duga að kjósa McCain til að forða því. Sagan segir okkur að ekkert er heilagt í augum þessa fólks og tilgangurinn einn helgar meðalið.

Það kæmi mér því hreint ekki á óvart að „örlögin“ höguðu því þannig að Clinton verði frambjóðandi Demókrata þrátt fyrir, eða einmitt vegna þess, að Obama sigrar forkosningarnar.


mbl.is Obama snýr sér að baráttunni um forsetastólinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn kemur út úr skápnum.

Þorgerður Katrín varaformaður Sjálfstæðisflokksins var aldeilis fersk á opnum fundi í kvöld. Þar sagði hún að Sjálfstæðismenn eigi að vera í forystu í umræðu um aðild að Evrópusambandinu og boðar þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili um málið. Boðaði jafnframt fundarherferð um málið næsta haust. 

Það er bara svona. 

Hvar hefur Sjálfstæðisflokkurinn og varaformaðurinn verið undanfarnar vikur og mánuði svo ekki sé talað um ár? Allt þjóðfélagið hefur logað í Evrópuumræðu,  varla hefur verið sá fréttatími eða fréttaskýringaþáttur þar sem þau mál voru ekki meira eða minna rædd. Svo ekki sé talað um Samfylkinguna sem hefur talað fyrir þessu máli meira og minna frá stofnun hennar. Meira að segja Framsóknarflokkurinn er kominn áleiðis inn í umræðuna.

Sjálfstæðisflokkurinn á langt í land að ná umræðunni hvað þá að taka þar forystu.  Þetta mál hefur ekki verið á dagskrá í Valhöll.  En nú er Þyrnirós að rumska og því ber að fagna.

Ekki fannst mér varaformaðurinn vaxa við þessa ræðu. Hún talaði eins hún væri að finna upp hjólið og þetta væri nýtt innlegg í Íslenska pólitík. Þetta var í besta falli broslegt. Það var engu líkara en hún væri að tala sig niður á það plan að geta orðið næsta borgarstjóraefni flokksins í Reykjavík.

 En til að vera tækur í borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins þarf að gangast undir próf. Það fer þannig fram að kveikt er á kerti, það sett upp við annað eyra kandídatsins, síðan er blásið inn í hitt eyrað og ef slokknar á kertinu er hann hæfur.

Aðal fjörið verður samt að fylgjast með ofurbloggurum íhaldsins næstu vikur. Sér í lagi þeim sem hafa sérhæft sig í andstöðu við allt Evrópu tal, samkvæmt gefinni línu frá Valhöll að  Stalínískum hætti.

Þeim til skelfingar er Valhöll að boða nýja línu, 180° beygju, það munar um minna. Nú þurfa þessir ofurbloggarar að taka U beygju og það verður virkilega spennandi að fylgjast með því hvernig þeir skrifa sig út úr þessum vanda og í harða andstöðu við sjálfa sig og bjargfasta sannfæringu.

 
mbl.is Hefur áhyggjur af borgarmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband