Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Hver vill líkjast Hómer Simpson?

Mig grunar að einhverjir í Páfagarði fái hiksta við lestur þessarar fréttar. Það er óskiljanlegt af hverju dagblað páfagarðs reynir að eigna kaþólsku kirkjunni Hómer Simpson. Ég hélt satt best að segja að engir vildu líkjast Hómer eða hefðu í það minnsta ekki hátt um það, sæju menn einhverja samlíkingu við hann.

Hómer tilheyrir The Western Branch of American Reform Presbylutheranism church og presturinn heitir Timothy Lovejoy og konan hans heitir Helen og dóttir þeirra Jessica. Það má vera að ný siðbót hafi orðið í Kaþólsku kirkjunni og prestum sé heimilt að kvænast, en ég held samt ekki.

Það lýsir lágkúru Kaþólsku kirkjunnar ágætlega að hún skuli reyna að upphefja sig á Hómer Simpson.

 
mbl.is Hómer Simpsons er kaþólskur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mulningur #59

-Það fór illa fyrir bindindinu hjá Hannesi vini mínum í gær.

-Nú datt hann í það blessaður?

-Nei ekkert svoleiðis, Hannes sór sig í ævilangt kynlífsbindindi í fyrra eftir að kærastan sagði honum upp, en svo sprakk hann á limminu í gærkveldi.

-Hann hefur þá fallið fyrir einhverri fegurðardísinni, nóg er nú af þeim.

-Nei, nei – hann féll fyrir eigin hendi.

 

Eru geldingar lausn lausnanna?

Það er athyglisvert  að bandarísk góðgerðarsamtök skuli vera svona áhugasöm um að gelda breska fíkla. Ætla mætti að nægur væri heimamarkaðurinn fyrir áhugamenn um geldingar í Bandaríkjunum.

Spurning hvort stjórnmálamenn væru ekki æskilegri markhópur fyrir geldingar. Hugsið ykkur hvað allt væri miklu betra ef svona samtök hefðu getað hindrað í tíma að Bush eldri eignaðist afkvæmi.

Þar sem Íslendingar eru einstaklega áhugasamir um að sleikja upp alla erlenda ósiði, sér í lagi bandaríska, er hætt við að þessi nýi siður berist hingað áður en varir. Það má þá reikna með því að fljótlega fari menn að mæta vopnaðir geldingartöngum til mótmæla við Alþingi.

 
mbl.is Fíklum borgað fyrir ófrjósemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verum hress, ekkert stress

Já rétt hjá Ögmundi, hér dugir ekkert óðagot, að öllu skal farið með gát í skipulagsbreytingum í löggæslu og dómsmálum og hugað að framtíðinni.

Rétt eins og Svandís elskan, sem ekki vill frekari virkjanir  í dag heldur senda virkjunarkostina ónotaða inn í framtíðina, þá óttast ég að ætlunin sé að eiga ekkert við atvinnuleysið svo hægt sé að senda það ósnert og óskert inn í framtíðina.

Já hér dugir ekkert óðagot, tökum okkur tíma og bíðum eftir að framtíðin leysi fyrir okkur vanda dagsins í dag.

  


mbl.is Ögmundur: Ekkert óðagot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýskipaðir fulltrúar hjá Himnum sf.

Benedikt XVI páfi tók í dag í dýrlingatölu eina sex einstaklinga. Það er því ljóst að páfinn sér um starfsmannahaldið í himnaríki, því með því að lýsa hina dauðu dýrlinga, munstraði hann þá í stöðu fulltrúa á himnakontórnum.

Hinn nýskipaði dýrlingur er þar með orðinn fullgildur fulltrúi forstjórans fyrir Himnum sf. Fulltrúinn meðtekur bænir og aðrar óskir, afgreiðir þær og hrindir í framkvæmd, séu þær nægjanlega gáfulegar.  

Þetta er til mikils hægðarauka fyrir Himna sf.  því þetta eykur afköst og skilvirkni og tekur mesta álagið af forstjóranum, sem getur snúið sér að þýðingarmeiri verkefnum en kvabbi og kvörtunum viðskiptavinanna.

Er þetta ekki galið? 


mbl.is Fyrsti ástralski dýrlingurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnréttishalli á Jafnréttisstofu.

kynjajafnréttiÞað er sérstakt ánægjuefni að Jafnréttisstýran, Kristín Ástgeirs- dóttir, hafi keypt kynjagleraugu fyrir alla sjö starfsmenn Jafnréttisstofu.

Það gæti orðið til þess að Jafnréttisstýran, og undirkonur hennar og menn, sjái að það hallar verulega á  jafnrétti kynjanna á Jafnréttisstofu á Akureyri, því þar starfa 5 konur og 2 karlar.

En okkur er sagt að á meðan halli á karla sé kynjamisréttið í góðu lagi,  því þá sé hallinn jákvæður og hið besta mál.


mbl.is Kynjagleraugun sett upp nyrðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tær snilld.

Atvinnustefna VG á Suðurnesjum er einhver framsæknasta atvinnustefna sem sést hefur í áratugi. Það er gríðarlega framsækið og atvinnuskapandi að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar  á milli staða.

Það undarlegasta við þessa tæru og einföldu snilld er að enginn skuli hafa fyrr komið auga á jafn einfalda og byltingarkennda lausn á atvinnuleysinu.

Hugvits- og mannvitsbrekkunum í VG verður seint fullþakkað framsýni þeirra, eljusemi  og forysta í atvinnumálum Íslendinga á þessum síðustu og verstu tímum.

En í þessu eins og svo mörgu öðru er hætt við að vanþakklæti verði heimsins laun.


mbl.is Vilja fangelsi á Suðurnesin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þarf að skerða marga öryrkja til borga eina borðaklippingu?

Væri ekki ráð í svona tilfellum að samgönguráðherra og  vegamálastjóri hittust frekar í ráðuneytinu þar sem þeir gætu tekist í hendur, klippt á borða, skipst á munnvatni eða hvað eina sem nauðsynlegt er að gera svo akstur geti hafist um veginn.

Þá þyrfti ekki að stefna  upp á heiði, í sudda og súld, liði fólks, setja upp hljóðkerfi og annað tilstand til þess eins að ráðherrann geti hlustað á sína eigin rödd óma um grundirnar og þakka með hástemmdum orðum sjálfum sér fyrir áræðið , kraftinn og dugnaðinn við veginn, sem lagður var með svita og peningum annarra.

Það vekur athygli að fyrrverandi samgönguráðherrar voru ekki viðstaddir að þessu sinni og óvíst hvað veldur. Ólíklegt er að niðurskurður sé valdur að fjarveru þeirra, því sparnaður og ráðdeild  þekkst ekki hjá hinu opinbera þegar kemur að ráðherrasnobbi og öðru fíneríi og ekki líklegt að það gerist meðan hægt er að kreista aur út úr sjúkum og öðrum vesalingum sem ekki geta borið hönd yfir höfuð sér.

  


mbl.is Lyngdalsheiðarvegur opnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litla stóra skrökusagan

Ég sé á bloggunum um þessa frétt, hér á undan, að menn stökkva á þessa frásögn og láta eins og þeir hafi himinn höndum tekið.

Mér finnst þessi saga afskaplega ótrúverðug, svo ekki sé meira sagt. Ég kaupi það ekki rannsóknalögreglan viðhafi þau vinnubrögð að taka viðtöl eða stundi yfirheyrslur yfir grunuðum mönnum úti undir vegg eða á bílastæðum við verslunarmiðstöðvar.

   


mbl.is Yfirheyrður vegna Facebookfærslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsmorð möppudýrana

Sjúkrahúsið á Blönduósi hefur sætt grimmilegum niðurskurði undanfarin ár og heimamenn gátu illa séð að lengra væri hægt að ganga í þá átt. Samt sem áður er enn höggvið í sama knérunn og boðaður, ekki bara samdráttur, heldur beinlínis blóðug slátrun á starfsemi sjúkrahússins.

Íbúar A-Húnavatnssýslu fyllast skelfingu við þessi tíðindi, sjá veröld sína hrynja , því skilaboðin að sunnan verða vart skýrari, þau eru að fólk á þjónustusvæði sjúkrahússins sé ekki þess vert að fá mannsæmandi heilbrigðisþjónustu.

En skilaboðin eru líka skýr að því leiti að engin afsláttur er boðaður af sköttum og gjöldum sem landsbyggðin greiðir til samfélagsins. Framlag landsbyggðarinnar verður áfram, og nú sem aldrei fyrr, vel þegið í samfélagshítina fyrir sunnan.

Það er ljóst í mínum huga að höfuðborgarmöppudýr hafa samið þessa aðför að landsbyggðinni, þeirri sömu og hefur haldið í þeim lífinu. Möppudýrin eru orðin svo veruleikafirrt að þau vita ekki hvaðan lífsbjörgin kemur, þó fullreynt ætti að vera að hún komi ekki úr pappírsviðskiptum í Reykjavík.

Sennilega munu möppudýrin í Reykjavík ekki vita það fyrr en of seint að slátrun landsbyggðarinnar sé þeirra eigin útför.  

Mig varðar ekkert um það hvað pólitíkin heitir, þeir sem þetta ætla að gera skulu hundar heita.

 

mbl.is Einhugur á Blönduósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.