Færsluflokkur: Bloggar

Öryggismyndavélar - allra gagn?

Öryggismyndavélum fjölgar ört. Sagt er, að slíkur sé fjöldi þeirra í London að þar fari menn aldrei úr mynd. Skiptar skoðanir eru um ágæti vélana. Sumir segja þetta persónunjósnir. Flestir eru samt þeirrar skoðunar, þ.á.m. ég, að þær séu, ef rétt er á haldið, til bóta í baráttunni gegn glæpum. En það er og á að vera eini tilgangur þeirra.

Ég hélt að það sem bæri fyrir linsu vélana væri trúnaðarmál og kæmi ekki fyrir annarra augu en lögreglu og yfirmanna þeirra fyrirtækja sem hafa svona vélar. En því miður virðist hér misbrestur á. Settar hafa verið upptökur úr öryggismyndavélum á netið að undanförnu, nú síðast af ákeyrslu á hús M. Sigmundssonar hf.

Vélarnar missa tilgang sinn og stuðning fyrir tilvist þeirra ef þær eru misnotaðar. Getur maður sem lendir í mynd einhverrar vélarinnar og boraði í nefið eða í görnina á sér átt von á því að geta skoðað sjálfan sig, sem skemmtiefni á netinu að kveldi dags, af því að einhverjum misvitrum starfsmanni fannst það fyndið?

Verði það þróunin eru þeir sem telja þetta vera njósnir, farnir að hafa nokkuð til síns máls. Ég held að löggjafinn hafi ekki hugsað málið þannig. Það á og verður að vera refsivert að misnota svona efni og því verður að fylgja eftir.


Super bowl og ofurpiss

Super bowl er eitthvert vinsælasta sjónvarpsefnið í USA.  Ekki ætla ég að ræða um íþróttina hér enda tel ég íþróttir yfir höfuð  lélegt sjóvarpsefni. Auglýsingar spila stórt hlutverk í Super bowl eins og víðar. Hlé, hálfleikur, kvartleikur  eða hvað þetta nú heitir, eru gernýtt fyrir auglýsingar út í gegn. Ég heyrði að 30 sek. kostuðu 300 milljónir eða 10 millj. hver sek.

Kanarnir eru klikk og kannski einmitt þess vegna eru þeir með ýmsa fáránlega tölfræði á hreinu. Þeir hafa fundið það út að frárennsliskerfið (klóakið) víða sé á þolmörkum í hléum í Super bowl. Á engum tímum öðrum sé meira um „niðursturt“, eins og það var orðað í RUV í morgun. Þannig að það eru auglýsendur sem borga fyrir pissið.

En til allrar hamingju eru margir Kanar með sjónvarp á salerninu þannig að ekki er víst að þeir missi alveg af boðskap auglýsinganna. Á það hljóta auglýsendur að treysta enda til hvers væri  peningunum annars varið?


Ég er snillingur....

Ég brá mér á Skagaströnd til að fara á þorrablót. Það var haldið í gærkveldi 2. febrúar af metnaði og myndarbrag. Maturinn var góður og skemmtiatriðin voru frábær, venju samkvæmt. Við hjúin ákváðum að sleppa ballinu og fórum því heim að borðhaldi loknu. Við fórum rúnt um bæinn áður en við snérum heim. Nokkur skafhríð var fyrir Víkina og í útbænum.

Ég hætti við að stoppa á Mánabrautinni og ákvað  að enda rúntinn í Bankastrætinu. Beygði inn á Vetrarbrautina á milli Mánabrautar og Skagavegar. Þá kom snörp vindkviða, við það jókst kófið þannig að ég sá illa á veginn framundan. Allt í einu sat bíllinn fastur.

Þegar rofaði til sást að „skaflinn“ stóð vart undir nafni og engum manni sæmandi að festa sig í honum. En flughálka var undir snjónum og  Cherokeenum varð ekki haggað. Ekki var um annað að ræða en að ná í skóflu, þannig að við röltum þessa fáu metra heim. Ég ákvað að láta bílinn ganga á meðan.

Ég snaraði mér til baka með skófluna og byrjaði moksturinn. Þegar mokað hafði verið um hríð hringdi síminn. Ég ætlaði að snara mér inn í bílinn til að svara en.......... HALLÓ.... bíllinn var LÆSTUR!  Mér hafði einhvernvegin tekist að læsa bílnum þegar ég fór út úr honum..takk fyrir!

Svona gera bara snillingar. Fyrir utan lykilinn í svissinum  var næsti lykill suður í Grindavík.

Ég gerði strax ráðstafanir að fá hann norður með rútunni. Þar til hann kemur síðar í dag mun bíllinn mala í skaflinum. Það ætti að vera heitt og notalegt að setjast upp í hann. Þetta er bara gaman.


Myndir þú þora .............?

Mikið hefur verið ritað um mál Ólafs F. Magnússonar og veikindi hans frá því hann myndaði meirihlutann með Sjálfstæðismönnum. Mest hafa þó lætin orðið á blogg síðum þar sem menn hneykslast ógurlega á umfjöllun Spaugstofunnar á málinu. Spaugstofan fjallaði aðeins um fréttir liðinnar viku þar sem meint veikindi Ólafs spiluðu ekki svo lítið hlutverk.  Nefnt hefur verið að ekki hafi verið gantast með veikindi Davíðs og Halldórs á sínum tíma í Spaugstofunni. Það er rangt, það var gert. Menn hafa kannski gleymt því – einmitt vegna þess hve eðlilegt það var talið.

En nú þegar veikindin eru andlegs eðlis en ekki líkamleg þá má varla tala um, hvað þá gantast með þau - þau eru tabú.   Ég man þá tíma þegar fólk hvíslaðist á þegar einhver fékk krabba. Ekki mátti nefna það upphátt, það var eins og drýgður hefði verið glæpur. Nú gera menn góðlátlegt grín að þeim sjúkdómi, sem betur fer. Það er eins og umræðan um andlega sjúkdóma sé enn á því stigi sem krabbinn var forðum. Einmitt þegar ýmiskonar samtök hafa verið stofnuð til að draga umfjöllun um þessa sjúkdóma út úr þeim skuggasundum sem þau hafa verið í.

Talað er um fordóma í þessu sambandi. Orðið fordómar er einmitt notað í tíma og ótíma þegar á að drepa einhverri umræðu á dreif. Og dugir undarlega vel því fáir vilja láta bendla sig við fordóma til að vera ekki úthrópaðir sem slíkir. Einmitt þannig er verið gera ýmiskonar óeðli, eðlilegt og sé einhver á annarri skoðun og lætur hana í ljós er hann úthrópaður.

Mér en rétt sama hvort menn kalla mig fordómafullan en þegar kemur að fólki sem á við geðræn vandamál set ég stórt ? , hvort ég geti treyst því? Hvort ég geti átt allt mitt undir því? O.s.f.v.

Þegar einhver fótbrotnar, þá fara menn ekki bara eftir læknisvottorði til að vita að viðkomandi hafi náð sér, menn sjá það. Svo er um flesta líkamlega krankleika, það sést á líkamlegu atgerði hvort þeir hafa náð sér eða séu á góðri leið með það. Því ekki þannig háttað,  með andlega sjúkleika, því miður. Það þarf ekki endilega að sjást hvort þú ert með „fulle fem“ eða ekki. Menn fá kannski læknisvottorð um að vera í lagi. En þá þarf viðkomandi kannski að taka lyf að staðaldri um lengri eða skemmri tíma, kannski það sem hann á eftir ólifað. En ef viðkomandi hættir að taka lyfin, gildir vottorðið áfram? Og svo hafa læknisvottorð því miður ekki verið laus við að vera gölluð vara.

Það gerðist í Boeing 767  flugvél Air Canada, sem var á leið frá Toronto til London í liðinni viku, að aðstoðarflugmaðurinn fór að haga sér undarlegar og undarlegar og ákallaði að lokum Guð. Flugstjórinn varð að fá aðstoð flugþjóna til að fjarlægja manninn úr flugstjórnarklefanum. Það varð að járna hann við sæti í farþegaklefanum. Vélin varð að lenda á Shannon flugvelli á Írlandi, þar tóku nýir flugmenn við og luku fluginu. Flugmaðurinn var fluttur frá borði og komið undir læknishendur og fær vonandi meðferð við hæfi.

Nú er það spurningin, hvort þeir, sem hvað harðast hafa hneykslast á umfjölluninni um Ólaf F.M. og því meintu ranglæti sem hann var beittur og spurningunni hvort hann valdi embætti borgarstjóra, séu tilbúnir til þess að fara í flug með þessum flugmanni, þegar hann hefur fengið læknisvottorð um að hann geti flogið á ný?

Þeir sem segja já ættu að snúa sér að næsta spegli og skoða í sér tunguna.


Stjörnuuppeldi

Í hinum enskumælandi heimi (nei Ísland er ekki meðtalið) þarf ekki oft mikið tilefni eða mikla menn til að bækur um ekki neitt séu skrifaðar og gefnar út í bílförmum.

Nú ku ein menningarperlan í heimsbókmenntunum vera um það bil að fæðast.  Allavega ef marka má upphæðina sem greidd er inná verkið. Litlar 300 milljónir, bara fyrir hugdettuna!

Höfundurinn Victoria Beckham  var um daginn spurð um ráð varðandi barnauppeldi af Katie Holmes. Og ekki að sökum að spyrja, hún Vica litla sá að hér mætti ekki við svo búið standa. Um málið yrði að skrifa bók. Málið væri brýnt. Svo fólk almennt vissi hvernig bæri að haga uppeldinu. 

Ekki skil ég hvernig manneskja, sem aldrei hefur að eigin sögn, lesið bók til enda ætlar að skrifa eina slíka til enda.

Skyldu barnapíurnar, sem hampa börnum hennar daginn út og inn og rétt ná að skjóta þeim til mömmu til að fá frá henni koss fyrir svefninn, verða spurðar álits í þessari stórstjörnuuppeldisbók?

 

N1 vitleysan

Ég skrapp á Akureyri 3ja í jólum. Erindið var að ná í hann nafna minn litla. Það var farið af stað fyrir birtingu til að hafa heiðina í björtu báðar leiðir. Ég sá að ég næði ekki á Akureyri á því sem var á tankinum. Ekki var búið að opna hér á ströndinni og því var sá kostur tekinn að taka bensín í Varmahlíð.

En þegar þangað var komið vandaðist málið. Dælurnar virkuðu ekki. Tóku aðeins kort, en ef menn þyrftu nótu á kennitölu eins og ég, þá var eini kosturinn að fara inn, kaupa fyrirframgreitt bensínkort, fá nótu og arka síðan út með kortið og stinga því í dæluna.

Ég hafði orð á því við konuna í afgreiðslunni að þetta væri heldur bágborin þjónusta. Ekki neitaði hún því en sagði að ég yrði að tala við N1. Þetta kæmi versluninni ekkert við og ekkert fengi hún fyrir þetta viðvik við mig. Dælurnar væru ekki á þeirra vegum. Hana nú.

„Nú er hún Snorrabúð stekkur“. Því áður voru Kaupfélögin og „Esso“ gamla, samliggjandi hár á framsóknarrassinum. Nú er N1 með bensíndælur á plani KS án þess að það komi þeim við!

Vegamótin við Varmahlíð eru nú ekki beint fáfarin. Þar er samt sem áður komin algerlega þjónustulaus bensínstöð. Skilaboðin frá N1 eru: „Þetta er það sem hæfir ykkur, landsbyggðarpakk, og verði ykkur að góðu“. Þetta passar ekki við einkunnarorð N1. „Og meira í leiðinni“. Hvað sem það nú..... merkir?

Ekki þýddi að bjóða íbúum höfuðborgarsvæðisins alfarið upp á svona þjónustu. Þar er val, að greiða með korti á dælunni eða greiða inni  -og að fá fulla þjónustu.  

Þarna mun ég aldrei stoppa framar til að taka bensín, eigi ég annan kost. Eða versla í versluninni  sem skartar þessum ágætu tönkum á planinu fyrir framan innganginn.  


"Umburðarlyndisheimskan"

Ég var að lesa bloggið Undir borginni eftir Rúnar Kristjánsson. Þar skrifar hann m.a. grein sem hann kallar „Umburðarlyndisheimskan“. Þar fjallar hann um fjölmenningarsamfélagið svokallaða. Ekki ætla ég að fjalla um innihald greinarinnar hér. En ég er Rúnari algerlega sammála í þessu máli frá a til ö.

Ég ákvað að skrifa þetta greinarkorn  þar sem ekki virðist vera hægt að gefa álit á bloggi Rúnars.

Þetta er eitt af tabúum dagsins í dag. Ekki má vera ósammála bullinu opinberlega nema eiga það á hættu að verða hrópaður niður sem kynþáttahatari eða eitthvað þaðan af verra.

Slóðin á grein Rúnars er www.undirborginni.blog.is/


Fjandfrændi

Þegar ég skrifaði mitt fyrsta blogg voru í slóð minni byrjandamistök. M.a.  „fyrirgaf“ ég fjandfrænda mínum allar hans misgjörðir í minn garð. Sem voru aðallega illt umtal, rógur og lýi og tilraun til mannorðs morðs, svo fátt eitt sé talið. Ég hélt að ég væri loksins tilbúinn að fyrirgefa og lét vaða. Það voru mikil mistök.

Ég tók þessa grein út af blogginu því ég skammaðist mín í sannleika sagt fyrir að halda að ég hefði meyrnað svona og ekki hvað síst fyrir að hafa opinberað það.

Ég bið hlutaðeigandi innilegrar afsökunar á þessu frumhlaupi mínu og lofa því að þetta mun ekki koma fyrir aftur og meina það.

Ég  áttaði mig á því að ég hafði lesið sjálfan mig algerlega rangt. Eftir að ég hafði látið frá mér þessi skrif var eitthvað að angra mig meir og meir. Svo rann upp ljósið.  Það hafði aðeins fallrið ryk á minninguna,  hjarta mitt er ekki tilbúið í svona útlát og verður í sannleika sagt, sennilega aldrei. Það er og verður algert sáluhjálparatriði að leggja fæð á þennan fjandfrænda minn ævilangt.

 Það segja  mér vitrari menn, að fyrir það sem hann iðkar virka daga vikunnar dugi það honum ekki að sækja kirkju á sunnudögum til að komast á betri staðinn. En þar sem ég er hreint ekki  kirkjunnar maður ætla ég ekki að leggja mat á það.

Úr því herbergi, sem þessar línur eru skrifaðar, er hreint úrvalsútsýni yfir í vestari endann á Bankastrætinu og sem ég horfi þangað koma mér í hug orð vinar míns, Sveinbjarnar Blöndal, sem voru að vísu sögð um annan stað og af öðru tilefni. „Að tilfinningin væri eins og að hafa útsýni yfir anddyri andskotans“.

Sá sem þar býr verður sennilega ekki þekktastur fyrir að sjá eða finna fyrir bjálkanum í eigin auga þótt hann geti  vart svefni haldið yfir flísinni í auga náungans.  Og vart  verður sagt  að „eðal“  eplið hafi rúllað langt.


Kominn heim!

Heddý, konan mín fyrrverandi þurfti að flytja á milli húsa á Skagaströnd. Hana vantaði aðstoð og leitaði til mín. Samband okkar hefur, sem betur fer, alltaf verið gott eftir og þrátt fyrir skilnaðinn.

Þar sem þetta var rétt fyrir jólin og þau alveg að ganga í garð, bauð hún mér að vera yfir jólin og áramótin. Sem ég þáði með þökkum. Inga dóttir okkar og hennar kærasti  Carsten Timmerman frá Danmörku voru með okkur. Þetta var háðtíðleg stund, en það vantaði eitthvað. Það vantaði fjörið, það vantaði  börnin.

Þetta var í  fyrsta skipti  í langan,  langan tíma sem engin börn voru í okkar jólum. Hálf  tómlegt.  Litli Axel Þór hennar Ingu er hjá pabba sínum þessi jól en kemur á annan í jólum og verður hjá mömmu sinni,  afa og ömmu fram yfir áramót.

Kara Lind hennar Bryndísar er hjá henni og hennar manni, honum Magga í nýju íbúðinni þeirra í Grafarvoginum.

Hallgrímur og Nicole eru og halda sín jól í Kópavoginum. Þau eiga von á sínu fyrsta barni í endaðan febrúar.

Mér hefur ekki liðið betur í langan tíma,  en þessa daga á Skagaströnd. Það er gott að vera „kominn heim“ þótt tímabundið sé. Þegar maður, eftir langa fjarveru,  stendur á „Húnverskri grund“ eins og sagt er í útvarpinu okkar hér við flóann, þá skynjar maður hversu djúpt ræturnar raunverulega liggja.

 

Jólakveðjur

Gleðileg jól  

 

Óska landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar og hamingjuríks nýs árs. Sérstakar kveðjur fá þeir sem heimsótt hafa þessa síðu og myndasíðuna mína  www.123.is/axeljoh.   

                                   

Axel Jóhann Hallgrímsson

   

Skagstrendingur ehf óskar starfsmönnum, viðskiptavinum svo og landsmönnum öllum gleðilegra jóla, árs og friðar. Þakka samstarfið og viðskiptin á árinu sem er að líða. Megi komandi ár færa ykkur hag og hamingju. 

                                                Skagstrendingur ehf.  

 

Gif santa claus Images


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband