Færsluflokkur: Bloggar

Góði gamli Villi.

 „Hvað mig varðar er opið hver tekur við embætti borgarstjóra af hálfu Sjálfstæðisflokksins í mars 2009. Borgarstjórnarflokkurinn mun ákveða borgarstjóraefnið í sameiningu þegar nær dregur.“ Segir Villi.

Hvað hefur breyst, hefur einhverri óvissu verið eytt eins og Geir formaður lagði ríka áherslu á að gert yrði? Menn sögðu fyrir helgi að nú yrði að taka af skarið.

Hefur það verið gert?

Villi gælir greinilega enn við það að verða borgarstjóri aftur og samkvæmt yfirlýsingu borgarstjórnaflokksins þá er það galopið.

Og allir lýsa yfir fullum stuðningi við Villa og yfirlýsingu hans.

Ég sé fyrir mér liðið brosandi út að eyrum í sjónvarpinu í kvöld, allir yfir sig hamingjusamir yfir þessum Salamóns úrskurði. Skyldi Geir vera sáttur?

Full samstaða er um að taka ekki á vandanum, óbreytt ásand. Þvílík lausn.


mbl.is Ákvörðun síðar um borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saltaður borgarstjórastóll

Ekkert lát er á vandræðagangi borgarstjórnarflokks sjálfstæðisflokksins. Þar ríkir upplausnar ástand  og þar er hver höndin uppi á móti annarri. Í þröngri stöðu leika þeir hvern biðleikin af öðrum, sem aðeins eykur á vandræðin.   Nú hefur náðst „sátt“  með enn einum biðleiknum og hún er þessi:

„Sáttin felst í því að taka ekki ákvörðun um það að svo stöddu hver tekur við sæti borgarstjóra að ári heldur verður haldið um það sérstakt prófkjör innan borgarstjórnarflokksins. Jón Kristinn Snæhólm sem var aðstoðarmaður Vilhjálms þegar hann var borgarstjóri stakk upp á að þessi leið yrði farin í þættinum Hrafnaþing á sjónvarpsstöðinni ÍNN á fimmtudag. Reyndist hún vera sú eina sem allir borgarfulltrúar gátu sæst á sem og formaður og varaformaður flokksins.“

Þetta er tekið af Vísi.is. Þar segir jafnframt að ekki hafi náðst sátt um Hönnu Birnu sem leiðtoga því stuðningsmenn Villa vilja Gísla Martein. Nú stendur borgarstjórnarflokkurinn enn veikari en áður. Samkvæmt hádegisfréttum ætlar góði gamli Villi að sitja áfram sem leiðtogi en ekki að taka við borgarstjórastólnum. 

Hafi hann þegar ákveðið þetta, af hverju er hann þá að auka enn á vandræðaganginn?  Getur það verið að hann haldi enn í þá von að verða borgarstjóri, þótt annað sé látið í veðri vaka núna?

Það sjá það allir að ef einhver annar á í raun að verða borgarstjóri, þá er óskynsamlegt ef ekki beinlínis heimskulegt að velja hann ekki strax svo hann eða hún geti byrjað að byggja upp ímynd sína sem leiðtogi áður en viðkomandi tekur við borgarstjóraembættinu. Því þá verður einungis ár til kosninga og tíminn knappur til góðra verka.

Hverskonar hengilmænuháttur er þetta hjá Sjálfstæðisflokknum? Er forysta flokksins ónýt.  Í það minnsta er hún til muna linari en í tíð fyrri formanns. Var val Geirs í formannsembættið kannski biðleikur, líkt og kjör Þorsteins Pálssonar?  


Stóra smjörklípan

Össur fór mikinn í bloggi sínu um Gísla Martein eins og frægt er orðið. Vart hefur verið um annað rætt frá því bloggið birtist. Margir hafa orðið til þess að gagnrýna bloggið og gert það óvægilega. Ekki ætla ég að gera lítið úr þeirri gagnrýni. Össur hefði  átt að orða sumt á annan hátt en hann gerði.

En þvílík himnasending fyrir borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa legið á bæn dögum saman um einhverja smjörklípu til að draga athyglina frá þeirri krísu sem þeir eru í. Og hér er hún komin, vel útilátin.

Ég efa ekki, að margir sjálfstæðismenn, sem hvað harðast hafa gagnrýnt Össur fyrir skrifin, hafa verið með krosslagða fingur og hugsað þakklátir, takk Össur, takk.

Össur segir eitthvað á þá leið að tæpast eigi Gísli afturkvæmt pólitískt séð. Ekki er óeðlilegt að Össur hafi einmitt með bloggi sínu skapað nægjanlega vorkunn, og þannig kippt Gísla Marteini aftur inn á pólitíska sviðið mitt og inn í biðstofuna þar sem borgarstjóraefnin bíða þess óþreyjufull að Villi komi undan feldinum.

Þannig séð eru skrif Össurar pólitísk mistök.

 

Þegar hundarnir gjamma

 

Eru lögin sett fyrir alla þegna landsins, eða bara suma, og þá eftir því hvar í flokki þeir standa?

Er það virkilega svo að framsóknarmenn telji að þegar framsóknarmenn verða uppvísir að því að brjóta lögin, þá þurfi að aðlaga lögin að brotinu til að láta það hverfa?

Ekki verður annað skilið af ummælum Guðna Ágústssonar  um meinta fjárhættuspilamennsku Birkis Jóns Jónssonar „ÞINGMANNS“ ,  enda ku þúsundir manna stunda þetta lögbrot að sögn Guðna og því allt í lagi að Birkir geri það líka!  !!!!!

„Það þarf að fara yfir þessi lög og reglur og sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum“ segir Guðni. Amen, haleluja. Svo mörg voru þau orð.  Ætli þetta gildi víðar?

Hér féll Guðni af þeim stalli, sem ég hafði reist honum eftir lestur annars ágætrar bókar Sigmundar Ernis Rúnarssonar um hann.

Muna ekki allir eftir fyrrum formanni Framsóknar sem staðhæfði að breyta yrði Stjórnarskránni þegar lög sem hann ætlaði að setja, rýmdust ekki innan hennar?

Hvað er að framsókn?  Jú við vitum það öll, hún er að hverfa! 

Gott mál!


Skápur eða sýruker

Annþór Karlsson var í gæsluvarðhaldi þegar hann strauk. Hafði verið í einangrun á Litlahrauni en var fluttur á lögreglustöðina til að mæta fyrir dómara daginn eftir.

Að sögn Geirjóns Þórissonar  Police var Annþór í svokallaðri opinni gæslu. Ekki veit ég nákvæmlega hvað það merkir en hlýtur að innihalda a.m.k. opnar klefadyr, aðgang að síma og nauðsynlegustu tólum. Maður sem þannig er háttað um hlýtur njóta ótakmarkaðs trausts lögreglunar.

Af hverju var maðurinn þá ekki bara sendur heim og beðin að mæta á stöðina að morgni, svo menn gætu skroppið í fullkomnu bróðerni til dómarans.Joyful

Ekki vildi ég mæta þeim manni sem ekki nýtur trausts lögreglunaref Annþór er hinn dæmigerði traustverðugi  draumafangi.Ninja

En lítið lagðist fyrir kappann að fela sig inn í skáp. En ekki bjargaði skápurinn Annþóri eins og sýrukerið Gissuri Þorvaldssyni forðum. Sick

Hér   Sleeping  lögreglan illilega á verðinum.


Ég var tekinn af lífi!

Fyrirsögnin er undarleg en er eigi að síður alveg dag sönn. Ég var tekinn af lífi í gær og hefur það verið gert oftar gegnum tíðina, en ég vill muna. Þetta þarfnast útskýringa. Þannig er að ég er með hjartsláttaróreglu. Hún stríðir mér eitthvað flest alla daga. Við þessu verð ég að taka lyf daglega, út ævina.

Fyrir kemur að ég fæ köst þar sem allt fer í kaos. Og það gerðist einmitt í gær og þá er ekkert annað að gera en leggjast inn á sjúkrahús. Fyrst eru reyndir stórir skammtar af  lyfjum en ef það virkar ekki þá þarf að gefa mér rafstuð. Það er gert þannig að ég er svæfður stutta stund. Síðan er ég tekin af lífi með rafstuði og endurræstur aftur á sama hátt. Þetta er endurtekið, ef þarf, uns hjartað slær í réttum takti. Svo fæ ég að fara heim eftir tvo til þrjá tíma ef allt er í lagi.

Ég er ekki að skrifa þetta til að lýsa heilsufari mínu heldur vegna þess að nú varð ég fyrir reynslu sem ég hafði ekki reynt áður. Ég hef oft verið spurður að því hvort ég hafi „séð yfir“ eða hitt einhvern dauðann? Ég hef ætíð orðið að svara því neitandi, sannleikanum samkvæmt, enda trúi ég ekki á slíkt.

Ég hef aldrei haft neina minningu úr „dauðanum“. En nú varð heldur betur breyting á. Ég sá sýn og hún fyllti mig skelfingu.

Mér fannst í þann mund sem ég var að fá meðvitund að ég væri á tali við Binga. Og skelfingin sem gagntók mig, var að mér fannst ég vera Framsóknarmaður. Og sem meðvitundin jókst sannfærðist ég um að raflostið hefði hrært það illa upp í höfðinu á mér, að þar stæði ekki steinn yfir steini og útkoman væri Framsóknarmaður!

Ég hefði betur fengið að fara, hugsaði ég.

En sem betur fer rofaði til og við aukna meðvitund skynjaði ég að allt var með feldu í höfðinu, allir hlutir á sínum stað. Þetta var bara martröð. Ég var heill og óskemmdur. Lífsviljinn náði tökum á mér á ný.

Er ekki lífið dásamlegt?


Dópdómar og fangagæsla

Nú hefur verið kveðin upp dómur í Fáskrúðsfjarðar-dópmálinu. Þeir eru þungir að mati sakborninga, m.a. mun meintur forsprakki hafa fellt tár, að sögn Vísis.is, við uppkvaðningu dómsins. En að mínum dómi og  annarra, sem liðið hafa vítishvalir vegna gjörða þessara manna og þeirra líkra, er þessi dómur síst of harður.

Krókódílatár sakborninga í dómssal segja lítið móti öllum þeim tárum sem gerðir þeirra hefðu framkallað, hefði smyglið heppnast.

Þessir menn og þeirra líkir hafa með gjörðum og glæpum sínum sundrað fjölskyldum, banað fólki í blóma lífsins og stór aukið tíðni annarra glæpa sem eru óhjákvæmilega fylgifiskur fíkniefnaneyslu.

Ekki hefur enn sá dómur verið kveðinn upp á Íslandi í þessum málum að mínu mati, sem er of harður.  Og svo er það sem salt í sárin að þessir „fínu herrar“ afplána rétt  helming dómsins með reynslulausn og allri þeirri vitleysu.

Það er margra álit að í flestum málum séu einungis peðin tekin, en kóngarnir, sem umræðan segir velmektarmenn, sleppa.

Það vantar  í dóma hér á landi, eins og víða er erlendis, hvort reynslulausn komi til greina eða að menn skuli sitja af sér allan dóminn.

Samkvæmt Fréttablaðinu í dag eru það allt að 25% fanga á reynslulausn sem rjúfa hana og fara strax í sama farið. Ætla mætti að við rof á reynslulausn fari menn strax inn aftur en svo er því miður ekki. Það þarf að kveða aftur upp dóm! Og að honum gengnum fara menn aftur inn. Skrítið.

Fylgifiskur alls þessa eru svo handrukkarar. Þeir rukka, eins og nafnið bendir til, með handafli, ofbeldi, líkamsmeiðingum, eignaskemmdum o.s.f.v. Þeir sækja á skuldara og ef það dugir ekki þá ættingja. Og láti menn undan þá lýkur þessu aldrei. Skuldin virðist aldrei uppgreidd. 

Gefum skít í þetta lið!

--------

Annþór Kristján Karlsson Íslandsmethafi í hrottaskap handrukkara strauk í nótt af lögreglustöðinni við Hverfisgötu með því að brjóta öryggisgler í glugga og stökkva niður af annarri hæð. Annþór átti að mæta fyrir dómara í dag, því gæsluvarðhald hans rann út í dag. Lögreglan lýsir eftir Annþóri, hann er talinn hættulegur!  Klefi hans var víst opinn í nótt!.... Halló!

Slefandi græðgi

Hannes Smárason fyrrverandi forstjóri FL „Grúpp“ fékk 50 milljónir í laun og 90 milljóna kr. starfslokasamning og árangurstengdar greiðslur!  Umræddar árangurstengdar greiðslur eru fyrir að tapa 67 milljörðum á einu ári! Mesta tap Íslensks fyrirtækis fyrr og síðar.  Ef þetta er greitt fyrir þennan árangur þá hefði nú, maður minn, eitthvað verið greitt fyrir hagnað, svo ekki sé nú talað um verulegan hagnað!

Vilhjálmur Bjarnason „aðjúnkt“ (held að ég hafi þetta rétt) stefnir að málsókn gegn Glitni vegna álíka ruglaðs starflokasamnings við Bjarna Ármannsson. Hann segir svona samninga ráðandi í dag. Þar sem samið er um fyrir himinháar greiðslur og bónusa fyrir ekki neitt. Sem sé brot á hlutafjárlögum.

Hér ræður græðgin ríkjum. Meira en nóg er hreint ekki nóg.


Hið fullkomna hálfkák og klúður.

 

Fréttamannafundur um málefni Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og þá krísu alla, sem var boðaður kl. 13.00 í dag,  hófst ekki fyrr en um 14. 30 og þá með því með því að blaðamönnum og ljósmyndurum var vísað út úr salnum. Og aftur inn eftir þóf og mótmæli. Fréttamenn segist aldrei hafa upplifað svona rugl og hringlandahátt. Fyrst var logið að fréttamönnum hvar fundurinn yrði haldinn. Svo þetta, eru menn orðnir alveg gaga í Sjálfstæðisflokknum.  

Allir sáttir um niðurstöðuna segir Vilhjálmur og ég held áfram sem borgarfulltrúi. Og ég nýt fyllsta trausts forystu Sjálfstæðisflokksins. Og ég mun fara yfir þessi mál!  Varðandi borgarstjórastólinn ætlar hann að fara yfir málið og meta sína stöðu.

Af hverju stendur  borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins ekki að baki Vilhjálms á fréttamannafundinum þegar sagður er fullur einhugur um þann stuðning?

Hvað segir það okkur? Þetta er stuðningur í orði en ekki verki. Ef borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins  eru einhuga og sátt við þessa niðurstöðu. Þá hefðu þau ekki laumast eins og þjófar á nóttu úr Valhöll fyrir blaðamannafundinn út um neyðarútganga og aðrar flóttaleiðir.  

Vilhjálmur segist hafa farið yfir þessi mál, er að fara yfir þessi mál og ætlar að fara yfir þessi mál.

„Ég hef axlað ábyrgð, ég missti meirihlutann og borgarstjórastólinn“. Segir Vilhjálmur. Ekki var það hans ákvörðun. Heldur Binga, sem þó hafði þann mandóm, sem hér vantar, að axla ábyrgð og segja hingað og ekki lengra. Það er nú öll ábyrgðin sem Villi axlaði.

„Ef ég finn að ég hef ekki það traust sem til þarf mun ég taka mark á því“. Segir Vilhjálmur. Hann ætlar þá að fara yfir það. Hvað skildi þurfa til að hann skynji hið algera stuðningsleysi sem svífur yfir vötnum þessa dagana. Hvenær gerir hann það ef ekki núna?  Kannski þegar hann hefur farið yfir þessi mál.

Þetta verður mikil yfirferð. Vilhjálmur verður sennilega lengi í þeirri ferð.

Eru menn búir að gleyma Guðmundi Árna Stefánssyni? Af hverju hefur enginn fréttamaður rifjað það upp? Einu afsögn ráðherra í sögu Íslenska lýðveldisins vegna mistaka. Mistaka sem voru nánast „logn í vatnsglasi“ miðað við þessi ósköp?


"Ég bar þetta undir borgarlögmann".

„Ég hef ekki orðið tvísaga í málinu. Ég bar þetta undir borgarlögmann en ekki einhvern lögmann út í bæ“. Segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Nú hefur komið í ljós að núverandi borgarlögmaður var ekki spurður. Þá segir Vilhjálmur „Ég átti við fyrrverandi borgarlögmann“. Án þess að segja hvaða fyrrverandi borgarlögmann hann átti við.

Áður en núverandi borgarlögmaður hóf störf hafði enginn gegnt stöðunni í tvö ár. Fyrrum borgarlögmenn eru því orðnir lögmenn út í bæ.

Þegar menn byrja að ljúga og leiðrétta sig með ósannindum þá enda menn alltaf í öngstræti.

„Einhver verður að axla ábyrgð“ segir núverandi borgarstjóri. Gaman verður að sjá hver þessi einhver verður , ef þá einhver?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband