Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Hversu langt á listasnobbið að ganga?

Helstu rökin fyrir verndun lands fyrir framkvæmdum er nytsemi landsins til annarra nota eða hreinlega fegurð þess. En nú ber nýtt við, íbúar í Garðabæ vilja ekki vegagerð í gegnum úfið apalhraun, ekki vegna fegurðar þess eða annarrar nytsemi fyrir íbúa bæjarins heldur vegna þess að Kjarval mun hafa sett þar upp trönur fyrir margt löngu  og fest á striga einhverjar hraunmyndir.

Aldrei hefur það gerst áður að krafist sé friðunar á landi af því það hafi verið  fest á striga, málað, af einhverjum.

Nú gengur fámennur hópur manns berserksgang í Garðabæ gegn „spjöllum á þessu listræna hrauni“ og þar fara auðvitað  fremstir þeir sem lengst hafa byggt út í hraunið og spillt því, fullir vandlætingar, þeir sömu og sáu ekkert óeðlilegt við eigin byggingarframkvæmdir inn í þetta sama hraun.

Þeir hafa fengið í lið með sér listfræðinga til að hindra áætlaða vegagerð í gegnum ógreiðfært hraunið því þeir finna ekki haldbærari ástæðu til varnar hrauninu en að Kjarval hafi málað þar einhverjar myndir.

Það er broslegt að í fréttum sjónvarps í gær voru sýndir málningarblettir og haugar af rusli í gjótum í hrauninu dýrmæta og sagt vera Kjarvals. Farið var nánast trúarlegum orðum um þetta rusl sem Kjarval á að hafa skilið eftir þarna og gert svæðið nánast heilagt. Ruslið fyllti heilu gjóturnar og menn slefuðu og kurruðu af ánægju þegar þeir grömsuðu í því.

En ef í ljós kæmi að ruslið væri ekki Kjarvals, heldur mitt og þitt, er hætt við að þessir umhverfisfrömuðir snéru skjótt við blaðinu og töluðu um umhverfisspjöll og sóðaskap og hættu að slefa á innsoginu.


"Vita skaltu, góði minn, að þú ákveður ekki hvar ég kúka"!

„Sonurinn“, hann Bangsi, vakti mig um hálf níu í morgun með því að hamra í mig með trýninu. Ljóst var að hann þurfti að komast út enda komið langt fram yfir okkar venjulega fótaferðatíma. Ég spratt á fætur, snaraði mér í leppana og út með „drenginn“ enda virtist honum orðið illa mál.

Við fórum okkar hefðbundnu leið, út af lóðinni bakatil við húsið og settum stefnuna út í hraunið norðan við bæinn. En við vorum varla komir út á gangstéttina við Hópsbrautina þegar Bangsi snarar sér út á grasið milli götunnar og gangbrautarinnar og gerir sig líklegan að gera þarfir sínar þar. En ég gaf honum ekki færi á því enda vart mínútu gangur út í hraunið þar sem hann gæti valsað um að vild og gert allt það sem hundum er tamast. Aftur reyndi Bangsi við grasflötina við gangbrautina, en fékk ekki.

Þegar við komum út í hraunið, mínútu síðar, sleppti ég Bangsa lausum. Hann valsaði um, þefaði af hverri þúfu, merkti hér og þar en sýndi þess engin merki lengur að honum væri mál að kúka. Hann fór hratt yfir og hvarf brátt sjónum mínum. Ég labbaði áfram en mætti Bangsa fljótlega þar sem hann kom til baka með því látbragði að hafa að fullu lokið sínum erindum.

Við feðgarnir snérum því heim á leið í rólegheitunum. En við vorum varla komnir á heima slóðir þegar Bangsi snarar sér út á grasflötina við gangstéttina og gerir þar, án þess að vörnum yrði við komið á sama stað og hann varð áður frá að hverfa, þvílík stykki að það hálfa hefði verið nóg.  Meðan hann var að athafna sig leit hann á mig með prakkaralegum svip og glettnu augnaráði, sem sagði svo ekki varð um villst, „vita skaltu, góði minn, að þú ákveður ekki hvar ég kúka“.

 „Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni“, hugsaði ég á meðan ég sekkjaði „afurðir sonarins“. 


Hringekja fáránleikans

Þetta fjöldamorð sýnir og sannar rétt eins og önnur svipuð að vopnalöggjöfin í Bandaríkjunum er í besta falli meingölluð, ef ekki hreinlega galin.

Það sorglega er, og megin vandamálið, að í Bandaríkjunum eru byssur trúarbrögð. Þeir sjá ekki vandann, sjá ekki ógnina í skotvopnum og almennri eign þeirra. Þeir trúa því staðfastlega að eina lausnin til varnar byssuógn séu fleiri byssur,  fleiri „góðar“ byssur  gegn „slæmu“ byssunum.

Svona fjöldamorð hafa keðjuverkandi áhrif, ekki til hins betra í afstöðu almennings til vopnaeignar, heldur til hins verra. Þetta fjölgar aðeins þeim sem fá sér byssur sér til „varnar“ og þannig fjölgar stöðugt skotvopnum í umferð og jafnframt þeim sem aldrei ættu að fá að höndla skotvopn.


mbl.is „Hann er með byssu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okur, nei rán!

Þá hafa nýjar íslenskar kartöflur hafið innreið sína í búðir landsmanna með hefðbundnu okri. Verð nýju kartaflnanna er venju samkvæmt ráni líkast, þetta á bilinu 260 til 280 % hærra en á eldri uppskeru.

Svo er ýmsum brögðum beitt til að dylja okrið á nýju uppskerunni, henni er t.a.m. aðeins pakkað í 1 kg pakkningar til að blekkja verðvitund neytenda.  

Slíkur kíló poki kostaði í fyrradag 445 kr en í dag 426 kr.  445 kr virðist augljóslega mun hagstæðara verð, við fyrstu sýn,  en væri hefðbundin 2ja kg poki verðlagður á  tæpar 900 kr.

Hvert rennur þýfið?

   


Átakanlegt átak

Það er frábært þegar fólk tekur sér tak í eigin heilsu og líferni. En það eru samt ekki margir sem gera jafn stórhuga megrunaráætlun og stórstjarnan Jessica Simpson.

Þegar til slíkra stórverkefna er ráðist þarf auðvitað að ráða til starfa þjálfara, sérhæfðan  í þannig stjörnuvandamálum. Það dugir auðvitað ekkert minna þegar menn hafa sett sér þau öfgafullu og ómennsku markmið að  losa sig við hvorki meira né minna en heilt pund, og það á aðeins einni viku.

Það gera rúmlega 64 grömm á dag.

Það samsvarar einum góðum viðrekstri hjá meðalmanni og það án leiðsagnar sérstaks þjálfara!

 
mbl.is Ætlar að losna við hálft kíló á viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er dallurinn tómur?

Það hefði sennilega farið betur hefði Heimdallur haft sama áhuga á að vita,  fyrir hrun, hvar átrúnaðargoð þeirra voru staddir og hvað þeir voru að bralla, en það verður víst seint á óskalista Heimdalls.

  
mbl.is Borgarstjórinn farinn til Noregs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spellvirki Öryrkjabandalagsins

Ég er fullkomlega sammála kærendum kosninganna um forsendur kærunnar. Núverandi fyrirkomulag við aðstoð þeim til handa sem ekki geta kosið hjálparlaust er gersamlega óviðunandi og því verður að breyta strax.

En ég er gersamlega ósammála þessari aðgerð og tel það gífur- legan ábyrgðarhluta af hálfu Öryggjabandalagsins og beinlínis spellvirki að ætla ganga alla leið og krefjast ógildinga forsetakosninganna á forsendum þessa formgalla. Ekki hvað síst þegar ljóst má vera að ágallalausar kosningar hefðu ekki skilað öðrum úrslitum.  Fráleitt er að styðja slíka rökleysu.

Umræðan um hnökra nýgengina kosninganna hefur klárlega orsakað þann þrýsting á Alþingi að breyta þessu misrétti fyrir næstu kosningar. Kæra Öryrkjabandalagsins er því að öllum líkindum fullkomið vindhögg og því ekkert annað en hreinræktað spellvirki, verði hún til þess að ógilda kosningarnar.

    


mbl.is Vilja ógilda forsetakosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt er víst breytingum undirorpið...

...en hvenær fengu mýs hala?

 
mbl.is Músarskott í hamborgara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er hans heilagur hræsnarinn Snorri Óskarsson.

Snorri Óskarsson erindreki Guðs og sannleikans, kenndur við Betel, hefur það á hreinu hverra tjáningarfrelsið er og hverra ekki.  Hann telur að honum, sem kennara,  sé heimilt að birta á prenti hvaðeina skoðanir  sem honum þóknast í nafni málfrelsis.

Svo mælir Óskar þegar hann ver sinn málstað og rit og málfrelsið:

„Á maður ekki að hafa rétt til að segja hlutina, hvort sem maður er að segja einhverja vitleysu eða ekki? Það fái þá allavega að heyrast mismunandi sjónarmið og mismunandi álit. Ef við ætlum að þagga niður allar spurningar, umræður, efasemdir og vangaveltur og fullyrðingar, þá held ég að íslenskt samfélag sé komið í svakalega vond mál."  

En þegar þessi sami Óskar fær athugasemdir á hans eigin blogg gilda aðrar reglur og annað tjáningarfrelsi en hann áskilur sjálfum sér í samfélaginu. Á síðum Óskars  eru innlegg sett í ritskoðun,  mál- og ritfrelsi úr gildi fellt, og þeim innleggjum hafnað, sem heilögum Óskari hugnast ekki.

Svona er nú hans heilagleiki Snorri Óskarsson. Hann virðist töluvert jafnari en aðrir, ef ekki eitthvað umfram það.

 


mbl.is „Hvar endar þetta?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í sjálfu sér lítið skref, en risastökk á heildina litið

Bandaríkin eru loksins að slaka á fimmtíu ára viðskiptabanni sínu á Kúbu. Það, svo ekki sé talað um algert afnám þess, er risa skref í átt að afnámi kommúnisma á Kúbu.

Það hafa allir séð áratugum saman nema Bandaríkjamenn, sem hafa alla tíð séð rautt í bókstaflegri merkingu og gersamlega tapað áttum við það eitt að heyra orðið kommúnismi nefnt.

Obama er að reynast betri en enginn og takast það, þar sem fyrri forsetum brást kjarkur og þor, í málefnum Kúbu.

Þetta er samkvæmt frétt á Vísi.is. Mogginn þegir þunnu hljóði enda hefur Mogginn ekki áhuga á svona fréttum, þar á bæ eru menn varla farnir að átta sig á falli Járntjaldsins hvað þá falli Berlínarmúrsins og þar lifir gamla Rússagrýlan  enn góðu lífi.

   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.