Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stóra systir - lágkúran uppmáluð

Afskaplega eru þessi stóru systra samtök lágsiglt og aumkunarvert fyrirbrygði.  Ekkert afrekuðu þær dömur, ef þetta voru þá konur, með þessu tiltæki, annað en að verða sér til skammar.

Greinilega voru þær meðvitaðar um skömm sína og mannleysu og sýndu því sitt „rétta andlit“, andlit hugleysingjans sem vegur úr leyni í krafti ásjónu- og nafnleysis.

  


mbl.is Stóra systir fylgist með þér!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lilja er öll að koma til

„Þá vitum það! Þjóðin vill óbreytt flokkakerfi og gömlu valdaflokkana við stjórn, og ég  sem hélt að fólkið í landinu vildi breytingar eftir allt sem á undan er gengið.....,“ segir Lilja.

Það er smá saman að renna upp fyrir Lilju að öll vinnan sem hún lagði í falskan ímyndarheilagleikann er unnin fyrir gíg.

Lilja ætti að fara að dæmi fjarvistakóngsins Atla, sem kom úr fríi og stimplaði sig inn við  þingsetninguna, aðeins til að stimpla sig út aftur.

Ætli þetta innlit Atla sé launatengt trikk?    


mbl.is „Þjóðin vill óbreytt flokkakerfi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðför framsóknarkvenna að Vigdísi Hauksdóttur

Á hverju ætti Egill Helgason svo sem að biðja Vigdísi Hauksdóttur afsökunar?  Hvað er það í fari þingkonunnar sem Egill er ábyrgur fyrir, er það eitthvað eitt eða allur pakkinn; heiftin, reiðin, biturðin, ambögurnar og jafnvel  ábyrgðaleysið og ófyrirleitnin.

Annað hvort sjást framsóknarkonur ekki fyrir í viðleitni sinni að breiða yfir bresti og galla þingkonunnar  -  eða að þetta er útpæld aðför framsóknarkvenna að Vigdísi.  Því þetta tiltæki þeirra gerir fátt annað en auglýsa myndbandið og veikja stöðu þingmannsins og var vart á bætandi.

En hvort heldur er, þá kann Vigdís þeim örugglega litlar þakkir fyrir tiltækið.

Takk fyrir framsóknarkonur, þetta myndband hefði farið framhjá mér ef þið hefðuð ekki verið svo almennilegar að vekja á því athygli.

 


mbl.is Benti einungis á myndbandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn er á barmi örvæntingar

Samkvæmt frétt í DV í dag þá magnast óðum örvænting sjálfstæðismanna að flokknum takist ekki að komast í stjórn áður en árangur endurreisnarstarfs ríkistjórnarinnar fer að verða almenningi sýnilegur.

Örvæntingin er svo mikil að Tryggvi Þór Herbertsson (af öllum mönnum) var gerður út af örkinni til að koma á framfæri við VG tilboði um nýtt stjórnarsamstarf, stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG.

Var tilboðinu komið á framfæri í gegnum Björn Val Gíslason og Sjálfstæðismenn kynntu hugmyndina þannig fyrir Birni Val að þeir sæju hann fyrir sér fara með sjávarútvegsmálin. Í hugmyndum þessum var líka tilboð þess efnis að Steingrímur J. Sigfússon yrði í forsæti nýrrar stjórnar.

Steingrímur mun hinsvegar hafa sýnt örvæntingu Bjarna Benediktssonar og þeirra sjálfstæðismanna lítinn skilning og enn minni áhuga á að bjarga þeim úr sínu sjálfsskapar víti.


Það var lagið Ögmundur.

Þetta er það fyrsta jákvæða sem upp hefur komið í Guðmundar og Geirfinnsmálunum frá því þau urðu til.

Vonandi mun þessi endurskoðun á málunum ná að létta af þjóðinni martröðinni, sem þessi óárans málatilbúnaður allur hefur valdið henni frá fyrsta degi.

Ég tek ofan fyrir Ögmundi.

  


mbl.is Starfshópur um Geirfinnsmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umskiptingar

Við lifum svo sannarlega á undarlegum tímum, fátt er eins og það sýnist og veruleikinn er martröð líkastur. 

Sjálfstæðisflokkurinn er orðin þvílíkur umbótaflokkur að hann er komin í eina sæng með ASÍ, sem hefðu í eina tíð þótt nokkur tíðindi.

Ekki verður það geðslegt, en fróðlegt örugglega, að bergja afkvæmi ástarbríma þessara fornu fjenda augum.  

Það  ólíklegt að foreldranefnunnar vilji, þegar fram í sækir,  nokkuð við þann umskiptingsurðarkattarræfil kannast og muni sem minnst vilja af honum vita.

  


mbl.is Bjarni sammála ASÍ „í einu og öllu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórflokkafjósið

Ráðning Páls Magnússonar í stöðu forstjóra bankasýslu ríkisins  er  að verða leiðinda mál, hvernig sem á það er litið. Maður bar þá von í brjósti að breytt hugsun hefði hafið innreið sína eftir kollsteypuna miklu og að ráðning hans hafi verið vísbending um það.  (Sjá eldra blogg um sama mál)

En allt bendir til að svo hafi ekki verið, þó ljóst megi vera að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki haft puttana í ráðningarferlinu og útkomu þess. Þó hugur hafi eflaust fylgt máli hjá einhverjum pólitíkusum um vilja til breytinga, að skapa nýtt Ísland upp úr hruninu, þá hefur sú hugsun aldrei náð út fyrir sali Alþingis og inn í stjórnkerfið, þannig að gagn væri að.

Þetta ráðningarferli verður því ótrúverðugra sem meira er um það fjallað. Það virðist ekki vera annað en staðfesting á því gömlu góðu flokksstimplarnir séu enn í fullu gildi í stjórnsýslunni og embættismannakerfinu og að þar ríkir langt í frá fersk og ný hugsun.

Gamla gjörspillta embættismannakerfið situr enn sem fastast, eins og krabbamein á þjóðarlíkamanum. Allir flokkar stunduðu það grímulaust alla lýðveldistímann og fram að hruni að koma sínum flokksmönnum fyrir í stjórnunarstöðum sem mest þeir gátu.

Ekki þarf að efast um hvernig kerfið var orðið mannað og hvaða litur var komin á laufin á trjánum í embættismannagarðinum eftir 18 ára nánast samfelda stjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins fyrir hrun og lengst af í samvinnu við Framsóknarflokkinn.

Ef flokkarnir meina eitthvað af því sem þeir segja og stjórnarandstaðan ekki hvað síst, þá blasir verkefnið við, moka embættismanna flórinn í fjórflokkafjósinu og innleiða nýja hugsun og starfshætti, sem allir virðast, í orði kveðnu, sammála um.


mbl.is Segir ráðninguna hneyksli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föðurlandsvinurinn Árni Finnsson

Árni Finnsson náttúru-„ragú“ nr.1 bar sig illa í hádegisfréttum útvarps, hvar hann kvartaði sárann yfir breytingum á nefndaskipan Alþingis.

Árni hefur verulegar áhyggjur af því að með sameiningu og fækkun nefnda þingsins og breiðari verksviði þeirra muni talsmenn verklegra framkvæmda á Alþingi og landsbyggðarþingmenn ná að þrengja sér í þá nefnd þingsins sem fer með umhverfismál. Þangað eiga auðvitað ekkert erindi önnur sjónarmið en - umhverfisöfgar 101.  

Þessar breytingar vega að rómaðri réttlætiskennd Árna Finnssonar, manninum sem taldi ekki eftir sér að labba sér inn í Bandaríska sendiráðið og krefjast þess að Bandaríkin beittu  Ísland viðskiptaþvingunum vegna hvalveiða.

Árni Finnsson – hann er þjóðhollustan og réttsýnin uppmáluð!

 

Frábær hugmynd, nýtum hana hér á landi

Ég legg til að smokkar verði staðlaður fylgibúnaður með atvinnuleysisbótum. Það þarf að hindra með öllum ráðum að nokkuð gott geti komið út úr svartnætti atvinnulausra.

Notuðum smokkum þarf svo auðvitað að skila inn mánaðarlega, svo viðkomandi haldi bótaréttinum.


mbl.is Smokkum komið á hamfarasvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti dansinn á ballinu á Bessastöðum

Ég neita því ekki, að sem stuðningsmaður forsetans,  er ég nokkuð hugsi yfir ræðu hans við setningu Alþingis.

Það er fullkomlega eðlilegt að mínu mati að forsetinn nýti sér ákvæði 26. gr. Stjórnarskrárinnar og undirriti ekki lög, telji hann ríka ástæðu til, og vísi þeim til þjóðarinnar til endanlegrar ákvörðunar. Til þess hefur umrædd grein einmitt verið hugsuð, annars væri hún ekki í Stjórnarskránni.

Þetta vald forsetans til áhrifa á lagasetningar,  er þó takmarkað, það nær ekki til annars en að synja lögunum undirskriftar. Það veitir forsetanum ekki vald til inngripa í störf þingsins á nokkurn hátt. Þá fyrst, þegar Alþingi hefur samþykkt lög, kemur til kasta forsetans, fyrr ekki. Ef ætlunin hefði verið að forsetinn væri með fingurna í daglegum störfum þingsins, væri fyrir því mælt í Stjórnarskránni.

Það er alveg skýrt samkvæmt 9. gr. Stjórnarskrárinnar að forsetinn má ekki vera alþingismaður. Þetta ákvæði er þarna aðeins til að undirstrika að fullkomlega á að vera skilið milli starfa og valds þingsins annarsvegar og starfa og valds forseta hinsvegar. Forseti getur að vísu látið leggja frumvörp fyrir Alþingi (25.gr.), en hann mælir ekki fyrir þeim þar eða kemur að afgreiðslu þeirra á nokkurn hátt.

Það er því gersamlega á skjön við stjórnarskránna að forseti leggi Alþingi línurnar um starfsemi þess og lagasetningar, hvort heldur er í orði eða á borði. 

Það er getur verið stutt á milli vinsælda og óvinsælda. Vinsældir forsetans virðast í auknum mæli stafa af vaxandi þörf hans að nudda sér utan í óánægju almennings með innihalds- og ábyrgðalausum yfirlýsingum sem láta vel í eyrum. Að sama skapi reytist af honum fasta fylgið.

Undan öllum lýðsskrumurum fjarar að lokum og undantekningarlaust hafa þeir þá brennt að baki sér allar brýr í fyrirhyggjulausu kappinu að kaupa sér vinsældir.

Það er hætt við að sumum geti þá orðið ansi kalt að koma út í kaldan næðinginn að loknu ballinu á Bessastöðum.


mbl.is Forseta lagðar línur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.