Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Vönduð blaðamennska

bensínstöðinÞetta er óneytanlega skondin frétt um mjög svo mismunandi eldsneytisverð, landa á  milli, í Evrópu.

Fyrst er greint frá eldsneytisverðinu í Noregi, því hæsta í Evrópu, og það að sjálfsögðu gefið upp í íslenskum krónum,  svo er verðið í Rússlandi, það lægsta, tíundað og líka í íslenskum krónum. 

Þetta væri auðvitað tilgangslítil frétt ef bensínverðið á Íslandi væri ekki látið fljóta með til að fá samanburð við hin löndin, en þá fer blaðamaðurinn skyndilega Krýsuvíkurleiðina, bregður sér inn á gjaldeyrisreikni Moggans og umreiknar íslenska bensínverðið yfir í  Danskar krónur!

Það eru greinilega engin takmörk fyrir því hvað þessir blaðamenn leggja á sig fyrir fávísan mörlandann.


mbl.is Eldsneytið misdýrt í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo lengi má mistökin endurtaka, að lánist

Siglingastofnun er mögnuð stofnun og merkileg.  Þeir hafa hannað grjótgarð við Vík í Mýrdal til að draga að sér sand til að stöðva landbrot og jafnvel snúa því við.

shoveling_sand_in_LandeyjahofnÞað er í sjálfu sér ekkert merkilegt nema fyrir þá sök, að sömu hönnun notaði  stofnunin aðeins vestar á ströndinni en ætlaði henni þar algerlega gagnstæða verkan.

Grjótgarðarnir   á Landeyjasandi áttu ekki að draga að sér sand og fanga hann heldur þvert á móti hrinda honum frá og mynda sandlausa vin í suðurstrandareyðimörkinni.

Reynslan af Landeyjasandföngurunum bendir til þess að grjótgarður Siglingastofnunar í Vik sé líklegri en hinir til að virka eins og til er ætlast.


mbl.is Sandfangari í Vík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1 stykki ævistarf

Filippus drottningarmaður á Englandi ætlar af eigin sögn að draga úr opinberum skylduverkum sínum í tilefni af níræðisafmæli sínu.

En hver eru, eða öllu heldur voru, skyldur og tilgangur hertogans af Edinborg? Tilgangur hans var í raun og sanni ekki annar en sá að feðra börn drottningar, skaffa landinu ríkisarfa og þrjár aðrar þjóðfélagsafætur. Ekki amalegt ævistarf það.

Ekkert ætla ég um það að fullyrða, en líklegt má telja að hann hafi fyrir áratugum látið af slíku uppistandi, enda 47 ár frá það brölt skilaði einhverju af sér og allar tilraunir í þá átt, af náttúrulegum ástæðum,  álíka tilgangslausar og að reyna að hoppa til Tunglsins.

Þegar litið er yfir afætuhjörðina,  ævistarf Filippusar, er eðlilegt að hugsandi fólk hristi höfuðið, þó aðrir haldi vart vatni af hrifningu.

Konunglega breska myntsláttan hefur af tilefni afmælis hertogans látið slá mynt að verðgildi 5 pund sem mun aðeins kosta 5450 pund stykkið.  Það er fullkomlega í samræmi við tilefnið, verðgildi Filippusar er í hróplegu ósamræmi við kostnaðinn af honum.


mbl.is Filippus níræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að greina kjarnann frá hisminu

Það er ekki öllum blaðamönnum gefið að skilja kjarnann frá hisminu og skrifa um það sem virkilega skiptir fólk máli. Marta María er slíkur blaðamaður og ritar hverja tímamótagreinina á fætur annarri á mbl.

Í þessari merku grein,  í öllu tilliti, fjallar Marta María um appelsínuhúðina á fótleggjum Söru Jessicu Parker eða öllu heldur um appelsínuhúðina sem ekki er á fótleggjum téðrar Söru.

Það hefur legið á mér sem mara og haldið fyrir mér vöku hvort Sara Jessica væri með appelsínuhúð á fótunum eður ei, núna þarf ég ekki að engjast lengur þökk sé þessari frétt M.M. og áhugasömum ljósmyndara og að ógleymdum hitanum í N.Y.

Ég hélt að nú gæti ég sofnað sæll og glaður með þessa kvöl mína að baki, en því var nú ekki aldeilis að heilsa, í nótt gat ég ekki sofið af áhyggjum hvort Marta María hafi appelsínuhúð á fótleggjunum!

Ætli Marta María sé tilbúinn að upplýsa það, til að létta þessu oki af mér og öðrum sem haldnir eru sömu þráhyggju eða þurfum við að bíða þess að áhugasamur ljósmyndari nái myndum af fótleggjum hennar í næstu hitabylgju og þá áður en hún lætur tóna á sér kroppinn í Líkamslögun á Höfðatorgi.


mbl.is Sarah Jessica Parker er ekki með appelsínuhúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirskriftasöfnun á fölskum forsendum

Undarleg undirskriftasöfnun er í gangi á MÁLSVÖRN.IS. Þar er safnað undirskriftum til stuðnings þess að Geir H. Haarde fái réttláta málsmeðferð fyrir Landsdómi ásamt fjársöfnun honum til handa. Þar segir m.a.:

Félagið ber heitið Málsvörn og er félagsskapur um réttláta málsmeðferð í máli Alþingis gegn Geir H. Haarde. Megintilgangur félagsins er að safna fé til að standa straum af kostnaði við málsvörnina og tryggja að hann standi sem næst jafnfætis ríkisvaldinu í málsvörn sinni.

-------

Ef þú styður réttláta málsmeðferð bjóðum við þér að skrá þig á listann hér til hliðar.

Auðvitað hópast fólk til að skrifa undir að Geir H. Haarde eigi rétt á eðlilegri og réttlátri málsmeðferð. Það geta allir skrifað undir, það er eðlileg og sjálfsögð krafa enda grunnur íslensks hugsunarháttar og réttarfars.

Það þýðir ekki sjálfgefið að undirritaðir  vilji að viðkomandi sakborningurinn sleppi alfarið við dóm og refsingu, hafi hann til hennar unnið, eins og Morgunblaðið og Sjálfstæðismenn hafa gert sér far um að túlka undirskriftasöfnunina.

Flokkshollustan ræður þó hjá flestum, enda boðskapur Geirs að Landsdómurinn væru pólitísk réttarhöld og nefndi ofsækjendur sína, sem var afar ósmekklegt.

Til hvers eru dómstólar, hvert er þeirra hlutverk?  Eru þeir ekki til þess að skera úr um sekt eða sakleysi ákærðu?

Það hafa flestir talið fram að þessu, en forsætisráðherrann fyrrverandi, sem nú sætir ákæru um vanrækslu og embættisafglöp fyrir Landsdómi, virðist hafa aðra skoðun.

Hann kaus á blaðamannafundi að kalla Landsdóminn  fyrirbæri-, dómstól sem hann tók þátt í að manna meðan hann sat á þingi og bar sjálfsagt virðingu fyrir áður en hann fékk þann vafasama heiður að vera fyrsti mörlandinn sem stefnt er fyrir þann dóm.

Hvernig ætlar Geir H. Haarde, verði hann sýknaður, að túlka þá sýknu frá dómstólnum sem hann kallar „fyrirbæri“? Sé Landsdómur „fyrirbæri“ hefur sýkna hans auðvitað enga merkingu og Geir verður áfram í augum almennings „sekur“ samkvæmt ákæru.

Ég hef áður viðrað þá skoðun mína að fleirum en Geir hafi átt að stefna fyrir Landsdóm, en þar brást Alþingi, þar brugðust sumir Samfylkingarmanna sem umfram aðra mátu sekt manna mismunandi eftir lit, það er ófyrirgefanlegt. Ingibjörg Sólrún,  Árni M. og Björgvin G. hefði eflaust líka átt að stefna svo og  ráðherrum fjær í tíma, en lög leyfðu það ekki.

Alþingi á auðvitað ekki að dæma í eigin sök, frekar en aðrir.

Þau rök að ákæra hafi átt alla eða engan í þessu máli eru fáránleg og fella sig sjálf. Ef fjórir menn brjótast inn til þín, en aðeins tekst, af einhverjum ástæðum,  að ákæra einn þeirra, á þá að sleppa honum við málsókn og refsingu af því að ekki tókst að saksækja hina félagana þrjá?


mbl.is Krefst frávísunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bull og blaður útvegsmanna

Það væri fróðlegt ef Útvegsmannafélag Vestfjarða tæki líka saman tölur um þá skerðingu á aflaheimildum Vestfjarða, sem þeir hafa sjálfir staðið fyrir frá því kvótinn kom til sögunnar.

Félagsmenn í Útvegsmannafélaginu þar vestra hafa selt frá sér bæði skip og kvóta í massavís, af hverju birta þeir ekki þær skerðingartölur? Hvað varð um hagnaðinn af sölunni, skiluðu þeir honum til samfélagsins, sem færði þeim aflaheimildirnar upphaflega?

Notuðu þeir arðinn af kvótasölunni til að skapa ný störf í stað þeirra sem þeir rændu frá fólkinu þegar þeir pökkuðu saman eða fóru þeir með allt sitt og skildu fólkið í þorpunum eftir atvinnu- og eignalaust?

Svo bítur Útvegsmannafélagið  hattinn af skömminni og kallar það kaldar kveðjur á Sjómannadaginn þegar stjórnvöld reyna að spyrna við fótum og stoppa ruglið, það hefði, vestfirðinga vegna, betur gerst fyrr.


mbl.is Segja aflaheimildir á Vestfjörðum skerðast um 3700 lestir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjómenn, til hamingju með daginn!

Fáninn eini

Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn!

 

Um þetta þarf engin orð

 


Ósvífinn og skítlegur málflutningur

Þeir tala þessir útgerðamenn eins og enginn sé morgundagurinn ef „eignarhald“  þeirra á fiskinum í sjónum verði afnumin.

Þeir tala eins og fiskurinn verði tekin af þeim fyrir fullt og fast og á haug kastað og útgerð leggist alfarið af á Íslandi.

Ef skilningur LÍÚ og boðskapur þeirra verður ekki gáfulegri en þetta þá vaknar óhjákvæmilega  sú spurning hvort þeim sé yfir höfuð treystandi til að gera út og þá hvað ekki síst í ljósi þess að öll hagræðingin sem kvótakerfið á að hafa skapað, virðist ekki hafa skilað af sér öðru en verstu skuldastöðu útgerðarinnar í sögunni.

Svo ekki sé talað um þau ósköp að stöðugur niðurskurður á aflaheimildum síðustu tuttugu og fimm árin til að takmarka sóknina og byggja upp fiskistofnana hefur engu skilað.  


mbl.is Mikil skerðing á Austfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er liðsauki í Ásmundi Daða?

Ég hygg að glottið renni fljótt af framsóknarmönnum þegar þeir reyna hvernig „liðsaukinn“ Ásmundur Einar praktíserar það sem framsóknarmenn kalla samvinnu. 

   
mbl.is Taka Ásmundi Einari fagnandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband