Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Aumur er Bandaríski herinn orðinn, sé þetta hluti hans.

zpu-1Enn gerir Mogginn sig að athlægi. Hér birtir hann mynd með fréttinni – úr safni sínu- og segir hana vera af bandarískum hermönnum. Fyrir það fyrsta þá passa ósamstæðir búningarnir ekki við einkennisbúninga Bandaríska hersins. Einn hermaðurinn er í strigaskóm, sem er tæplega staðalbúnaður í  voldugasta her heims.

Byssan sem „hermennirnir“, sem líklegast eru skæruliðar í einhverjum Afríska „frelsishernum“, standa við,  er hin Sovéska ZPU-1, loftvarnarbyssa sem kom fram í lok seinni heimsstyrjaldar. Byssan, sem var talin úrelt og tekin úr framleiðslu upp úr 1970, er pottþétt ekki í vopnabúri hins volduga Bandaríkjahers. Ef svo er, er ástandið á því liði öllu ekki beysið.

Áríðandi er að Mogginn sendi blaðamenn sína á námskeið svo þeir geti hið minnsta þekkt vini okkar,  glæsta hermenn Bandaríkjanna og mikilfenglegan vopnabúnað draumaríkisins, frá aumum skæruliðum og gömlu úreltu komma drasli.


mbl.is Hermaður í fangelsi fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnapössun Sáms frænda ehf.

engaráhyggjurJæja þá er Sámur frændi kominn aftur til að passa litlu sætu ungana sína. Komi útkall þá sprettur Sámur frændi á fætur, skiptir um bleyju, hitar pelann og kemur ungunum sínum aftur í ró á fimm til tíu mínútum.

Enginn skákar Sámi frænda í barnapössun, hann víkur ekki af verðinum. Við getum sofið róleg meðan Sámur frændi vakir yfir okkur, litlu krílunum.

 
mbl.is Bandaríkjamenn sinna loftrýmisgæslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var vindgangur risaeðlana andtrúarlegt fret?

Samkvæmt niðurstöðum breskra vísindamanna þá kann meint „hlýnun“ Jarðar um þessar mundir ekki að vera nýtt eða alvarlegt fyrirbrigði.

Þau gróðurhúsaáhrif vegna mengunar, sem nú eru sögð ógna núverandi „jafnvægi“ og jafnvel lífi manna, séu ekkert ógnvænlegri og hættumeiri en fret risaeðlana forðum og giska algengt fyrirbrigði í þróunarsögunni.

En svo koma aftur þeir sem segja risaeðlur og önnur slík fyrirbrigði vera seinnitíma skáldskap vangefinna manna sem vilja ekki viðurkenna sköpunarsöguna eins og hún er rituð í hinni helgu bók.

Hvað veit ég, ég er bara einfaldur tréskipasmiður og hampísláttarmaður norðan úr Húnaþingi og því meira og minna í vímu alla daga.

  


mbl.is Örlagaríkur risaeðluvindgangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaukur eða Guðmundur

Á einhverri fréttastöðinni var sagt frá því, í dag,  að týndur páfagaukur hefði sagt finnandanum til nafns og búsetu. 

Öllu má nú ljúga, því ólyginn sagði mér að þessi sami páfagaukur og núna þættist vita hver hann væri og  hvar hann ætti heima,  væri  sami gaukurinn og nappaður var drukkinn undir stýri um daginn og hefði þá ekki haft nokkra glóru um hver hann væri, en sagst heita Guðmundur Franklín og vera formaður Hægri grænna, stjörnuflokks útvarps Sögu.

Trúlegt!


Ömmi enn við sama endaþarmsopið

Ögmundur Jónasson hefur megna andúð á efnamönnum og útlendingum. Sérstaka andúð hefur hann á mönnum, fari þetta tvennt saman. Þetta hefur Ögmundur núna staðfest og það var þessi andúð hans umfram allt annað sem stýrt hefur gerðum hans og orðum í þessu Grímsstaðamáli öllu.

Ég held að Ögmundur ætti að fara verlega í að hreykja sér af því hvernig hann gefur skít í hagsmuni lands og þjóðar, til þess eins að svala sjálfum sér. Hætt er við að eftirspurnin eftir honum fari ört minnkandi.


mbl.is Huang fagni ekki of snemma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grindavík -upplýst samfélag

Ég tók eftir því eftir hádegið í dag að enn logaði á öllum götuljósum Grindavíkur. Ég hafði orð á þessu við kunningja og spurði hvort hann kynni skýringu á þessu.

verði ljósJú, hann vissi allt um það, heldur betur. Þegar ljóst varð að Grindvíkingar væru orðnir Íslands- meistarar í körfunni, tók bæjarstjórnin, í ljósi  þess, afar upplýsta ákvörðun til að tryggja að allir yrðu eins vel upplýstir um þá staðreynd og kostur væri. 

Á meðan Íslandsmeistara-  titillinn væri í bænum, yrði Grindavík upplýst samfélag og götuljós ekki dempuð.

Ég gleypti þetta auðvitað hrátt ,en eftir að hafa legið á meltunni um stund, ákvað ég að selja krásina ekki dýrar en ég keypti hana, enda var hún farin að láta nokkuð á sjá eftir meltuna.

En  þegar ég fór svo út með hundinn nokkru eftir kvöldmatinn fékk ég aftur fulla trú á kunningjanum, þegar ég sá að götuljósin loguðu enn, rétt eins og þau hefðu aldrei gert annað og hlökkuðu til þess að láta ljós sitt skína næstu daga.

  


Lýst eftir manni

Ég lýsi eftir Jóni Val Jenssyni. Þegar þetta er ritað eru liðnar 37 mínútur frá því þessi frétt um forystu Þóru Arnórsdóttur í kapphlaupinu til Bessastaða var birt.  Jón Valur hefur ekki enn komið með sínar útskýringar á því að þessi útkoma fáist með engu móti staðist. Hann hlýtur því að vera týndur, veikur, eða ekki sjálfs sín ráðandi.

Jón Valur hefur ekki sést á blogginu síðan rúmlega eitt í dag. Þeir sem vita um ferðir Jóns eftir þann tíma eða hvar hann er núna niðurkominn eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Kattholt.

  


mbl.is Þóra með 9% forskot á Ólaf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drepleiðinlegt sjónvarpsefni (umsögn)

razzies8126Ég horfði í kvöld, í fyrsta sinn og pottþétt í það síðasta,  á þátt af  „gamanþáttunum“ Mið-Ísland á Stöð2. Ég veit ekki af hverju ég lagði það á mig að horfa á þáttinn til enda. Ég hef aldrei áður, og geri vonandi ekki aftur, sóað tíma mínum jafn illa.

Það er undarlegt að þetta sjónvarpsefni eigi að teljast gamanefni því allir, handritshöfundar jafnt sem leikarar, virðast hafa forðast það markmið hvað mest þeir gátu. Ekki örlar á húmor, gamansemi hvað þá kaldhæðni,  flatneskjan er alger.

Ef þetta væri Bandarísk þáttaröð myndu þættirnir sópa að sér Razzies verðlaunum. (Þau verðlaun eru andstaðan við Óskarinn) Því leitun mun vera að jafn ómerkilegu, misheppnuðu, leiðinlegu,  lélegu og fúlu sjónvarpsefni og þessu. Þetta mun hafa verið næst síðasti þátturinn í syrpunni. Það eina fyndna við þessa þætti væri sú fyrra að  mönnum dytti í hug að framleiða fleiri slíka.

Rétt er að taka það fram, að ég ákvað að vera eins jákvæður í þessum skrifum og mér væri mögulegt.


Er leiga Grímstaða ekki besta mál?

Ef Huang Nubo er tilbúinn að fjárfesta á Grímstöðum, án eignarhalds á landinu, getur það varla verið annað en besta mál.

Það er  því vandséð hvað gæti komið í veg fyrir að Huang Nubo fái Grímstaði til leigu til 40 ára og hefjist þar handa við uppbyggingu og atvinnusköpun.   

Og þó,  maður er nefndur Ögmundur Jónasson og honum er manna best treystandi til að finna endaþarmsopið á þessu máli, hvort sem það er til eða ekki.


mbl.is Huang Nubo fær Grímsstaði í 40 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál að linni

Það kemur betur og betur í ljós, eftir því sem fleiri og fleiri löglærðir þungavigtarmenn tjá sig um dóm Landsdóms, hvað Geir Hilmar Haarde má vera lukkulegur með þá niðurstöðu sem hann fékk í Landsdóms málinu.

Landsdómurinn,  mun verða umræðuefni  svo lengi sem Geir vill halda lífi í þeirri umræðu með þvermóðsku sinni og rembingi.

Það getur enginn endað þessa umræðu í eitt skipti fyrir öll nema Geir sjálfur. Hann myndi slá botninn í  umræðuna með því einu að stíga fram af auðmýkt og halda ræðuna sem hann hefði átt að flytja í stað fúkyrða súpunnar sem hann jós yfir land og lýð að nýuppkveðnum dómi.

   


mbl.is Hefðu getað sakfellt fyrir vanrækslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.